Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds):
    Herra forseti. Nefndin hefur haft til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 8/1985.
    Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. nefndarinnar mælir með því að frv. verði samþykkt með einni tiltekinni breytingu, en minni hl. skilar séráliti og annarri brtt.
    Það sem hér er umdeilt er það hvernig haga skuli skipun í embætti þegar um er að ræða prófessora, lektora og dósenta við Háskóla Íslands og hver eigi að vera hlutur ráðherrans í því sambandi. Samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir og hefur verið afgreitt frá Ed. er gert ráð fyrir að Háskólinn hafi aukið forræði þessara mála en ráðherrann hafi nokkurs konar neitunarvald þannig að ef hann fellir sig ekki við niðurstöðu viðkomandi háskóladeildar getur hann neitað að fara að vilja hennar og verður þá að taka málið upp að nýju í Háskólanum. Vissulega getur þetta leitt til nokkurs þráteflis, en þykir þó eftir atvikum að dómi þeirra sem undirbúið hafa málið af hálfu Háskólans vera skref fram á við og er því mælt með því að frv. verði samþykkt af okkur sem erum í meiri hl. menntmn.
    Þó þykir okkur rétt að taka upp hugmynd sem kom fram við umræðurnar í Ed. og er á þá leið að dómnefndarmenn skuli eftir því sem við á uppfylla hin sérstöku dómaraskilyrði einkamálalaganna. Dómnefndarmönnum er fengið í hendur mikið vald og reyndar stóraukið vald með þessari nýju skipan mála og því þykir eðlilegt að ljóst sé að þeir séu ekki tengdir málinu á einn eða neinn hátt, hvorki hagsmunalega séð né venslaðir þeim sem í hlut á. Í samræmi við þetta flytjum við brtt. á þskj. 883, sem ég hygg að sé full samstaða um, á þá leið að dómnefndarmenn skuli eftir því sem við á uppfylla hin sérstöku dómaraskilyrði einkamálalaga.