Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Það er aðeins örstutt greinargerð fyrir afstöðu minni í sambandi við aðra þessara tillagna og raunar örfá orð um þær báðar.
    Ég tel afar vafasamt ákvæðið í frv. eins og það er um hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að ráðherra sé skylt að veita manni embætti, þau séu of ströng í frv. eins og þau eru núna á þann veg að ráðherra sé ekki unnt að grípa inn í ef um hugsanlega hlutdrægni væri að ræða í garð umsækjanda. En ég held að við því sé séð með fyrri brtt. á þskj. 883, sem felur það í sér að skylt sé að veita embætti ef meiri hluti dómnefndar mæli með, enda sé tryggt að dómnefndarmenn uppfylli hin sérstöku dómaraskilyrði sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gerði grein fyrir áðan. Ég tel að frv. stórbatni við þessa breytingu.
    Hins vegar er ég haldin efasemdum í sambandi við skylduna til að veita embætti ef meiri hluti eða jafnvel aukinn meiri hluti háskóladeildar mælir með. Þetta þýðir að það er í raun og veru aukið vald deildarinnar sjálfrar í sambandi við embættaveitingu. Þetta getur í sumum tilfellum verið afar hæpið þegar litið er til þess að sumar deildir Háskólans eru þannig saman settar að það embætti sem veita á er í fagi sem er allsendis óskylt þeim greinum sem meiri hluti deildarmanna hefur með höndum. Þess vegna tel ég rétt að leggja í slíkum tilvikum meira upp úr dómnefndaráliti að öðru jöfnu.
    Það er ljóst að þessi ákvæði koma fyrst og fremst til framkvæmda í þeim undantekningartilvikum þegar árekstrar verða milli þessara aðila. En ég tel afar hæpið að binda skyldu ráðherra við þennan meiri hluta deildarfundar þegar búið verður að lögleiða skyldu ráðherra til að veita embætti í samræmi við niðurstöðu meiri hluta dómnefndar sem uppfylli hin sérstöku dómaraskilyrði. Með því tel ég að vel sé fyrir málinu séð. En í raun og veru hefði verið eðlilegast að láta hitt atriðið bíða til síðari skoðunar þessara laga. Ég geri þó enga formlega tillögu í þessu efni. Mér er ljóst að málið þarf eins og fleiri að fá afgreiðslu nú. En ég vil benda á að ég tel að þarna séum við að fara inn á braut sem getur verið varhugaverð.