Stimpilgjald
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég get verið mjög stuttorður. Ég nota þetta tækifæri til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við framkomið frv. Guðmundar G. Þórarinssonar, hv. 10. þm. Reykv., því það er allt rétt sem kemur fram í grg. Ég tek undir öll þau atriði sem hann nefndi í sinni ræðu og minni á að fyrir þinginu liggja þrjú mál sem ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Sjálfstfl. hef flutt. Eitt þeirra er þáltill. sem enn hefur ekki fengist rædd, en tvö eru frv. sem varða breytingar á lögum til að liðka fyrir hlutabréfasölu og liðka fyrir viðskiptum með hlutabréf. Það er rétt hjá hv. flm. frv. að það er mjög nauðsynlegt að auka eigið fé fyrirtækja með aðgerðum á borð við þær sem nefndar eru í þeim frv. og því sem kemur fram í frv.
    Ég skora þess vegna á hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar að taka jákvætt á þessu máli og hraða því að þetta mál ásamt hinum tveimur sem ég hef nefnt geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi.