Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Eins og kunnugt er stóð til að halda hér fund fram eftir kvöldi í gær, en vegna beiðni nokkurra þingmanna varð ekki unnt að halda þeirri áætlun. Forseti vill því fara þess á leit við hv. þm. að þeir reynist samvinnuþýðir um að það náist að ljúka þessum fundi hér í kvöld, ella raskast dagskrá allrar vikunnar. Þess vegna er það beiðni forseta að menn reyni sem unnt er að stilla svo máli sínu í hóf að þeir sem á mælendaskrá eru nái að tala hér í dag, og verður haldið áfram eins lengi og unnt er.