Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Skýrsla um utanríkismál sem hér hefur verið lögð fram og rædd er auðvitað á hverju ári hér í þinginu er stórviðburður. Á sl. ári tók ný ríkisstjórn við völdum undir forsæti Steingríms Hermannssonar og hefur hún nú setið í nokkra mánuði. Þeirri utanríkisstefnu sem þessi stjórn hefur framfylgt hefur í meginatriðum svipað til stefnu fyrri ríkisstjórna þrátt fyrir að gerð hefur verið hörð atlaga af einum stjórnarflokknum að þessari stefnu.
    Í þessari skýrslu er rætt mjög náið um ýmis atriði sem okkur varðar töluvert mikið um. Þar er fyrst til að taka samskipti austurs og vesturs og þá rætt sérstaklega um hin nýju viðhorf sem skapast hafa til þessara mála eftir að Sovétmenn hafa beygt af og gert sér ljóst að aðeins með því að hafa samvinnu við Vesturlönd og hafa samvinnu á öllum sviðum við vesturlandabúa er hægt að ná friði og framförum í heiminum og þá sérstaklega í Sovétríkjunum.
    Það tímabil sem núna er og má rekja til þíðu í þessum samskiptum er mikið gleðiefni fyrir alla þá sem unna friði í heiminum og óska eftir því að sem flestar þjóðir byggju við velsæld og frið eins og við á Vesturlöndum.
    Á þessu tímabili hafa mörg merk mál komið fram auk þessa. Ég minni á í þessu sambandi að á liðnu ári voru 40 ár frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á allsherjarþinginu. Þessi yfirlýsing er einhver merkasta yfirlýsing sem hefur verið samþykkt á þessari öld og er grundvöllur þess að fólk geti lifað í sátt og samlyndi alls staðar í heiminum. Sú samstaða sem skapast hefur á Vesturlöndum og myndað hefur varnarbandalag NATO hefur hnykkt á þessari yfirlýsingu og það hefur orðið kjörorð okkar á Vesturlöndum að menn starfi eftir mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Allt fram á þennan dag hefur verið töluvert um brot á þessum sáttmála og það er fagnaðarefni að það virðist vera aukinn skilningur á því víða um heim að mannréttindi þurfi að virða.
    Ég vil í þessari ræðu líka minnast á að í ályktunum á ráðstefnum um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem hafa verið, eru mannréttindi áréttuð. Það er mikilsvert að við hér á Íslandi stöndum fremstir í flokki hvar sem augað eygir í þessum málum og við krefjumst þess jafnt við okkar vinaþjóðir sem og aðrar að mannréttindi verði virt. Ég minni á ummæli Búkovskí sem voru í Morgunblaðinu fyrir fjöldamörgum árum þegar hann sagði: Það er engin slökun án mannréttinda. Ég held að þessi ummæli séu grundvöllur þess að við getum starfað að þessum málum í framtíðinni. Það er engin slökun án mannréttinda og það er heldur engin þíða án mannréttinda. Þess vegna leggjum við áherslu á að mannréttindi verði virt alls staðar í heiminum og þær vonir sem nú hafa vaknað við að fólki er leyft að kjósa að hluta til víða í Austur-Evrópu nú standa og falla með því hvort mannréttindi verða virt í framtíðinni. Sé svo þurfum við engu að kvíða. Það er því mikilsvert að við tökum mjög hart á þessum

málum og stöndum í fararbroddi hvað þetta varðar.
    Um utanríkisstefnu okkar má segja að hún spegli annars vegar innanríkismál okkar og hins vegar hagsmunamál okkar gagnvart öðrum þjóðum. Á þessu tímabili hefur eitt mál þó sérstaklega verið hitamál og það er svokallað hvalamál og sýnist mönnum sitt hvað um það. En hitt er alveg ljóst, að Íslendingar verða að fá að ráða sínum málum sem mest sjálfir. Þeir geta hins vegar ekki litið fram hjá því að þetta mál snýr öðruvísi við fjölda fólks á Vesturlöndum og víðar.
    Ég vil líka undirstrika það mál sem hefur komið til þingsins um mengun og má vísa í því sambandi til þess slyss sem varð í norðurhöfum er kjarnorkukafbátur Sovétmanna sökk. Það hlýtur að vera mikið atriði í okkar utanríkisstefnu á næstunni að krefjast þess að það verði leitað allra ráða og alþjóðlegrar samvinnu um að ná þessum kafbáti upp þannig að hann muni ekki menga höfin á næstu árum eða næstu hundruðum ára þegar þau efni sem eru í honum sleppa út. Það hlýtur að verða okkar krafa að svo verði gert.
    Ég vil einnig minna á að hafréttarmál eru stór hluti af okkar utanríkisstefnu og við hljótum að hafa frumkvæði í þeim málum eins og við höfum haft á undanförnum áratug. Það er krafa okkar að við stöndum í fararbroddi þar, bæði hvað varðar Rockall og svæðin út af Jan Mayen á milli Noregs og Íslands. Til þeirra þjóða sem við þurfum að ræða við um þetta hljótum við að gera kröfur um þessi svæði og ganga frá því til frambúðar.
    Þá hljótum við að fagna því að 40 ár hafa liðið í okkar farsæla öryggis- og varnarbandalagi NATO með þeim hætti að það hefur ríkt friður á Vesturlöndum og mesta velsæld sögunnar hefur ríkt á Vesturlöndum frá upphafi. Ég tel að við hljótum að halda áfram á sömu braut, starfa með okkar vinaþjóðum. Það hefur sýnt sig í þessu starfi að máttur NATO hefur orðið til þess að stefnan hefur breyst hjá Sovétmönnum, það hefur orðið þíða. Styrkur NATO í hernaðaruppbyggingu hefur sýnt Sovétmönnum að þeir verða að slaka á, því að samtakamáttur vestrænna ríkja hefur kennt þeim að þeir geta ekki lengur haldið viðstöðulaust áfram að byggja upp hernaðarmátt sinn. Það er komið að endamörkum þeirrar stefnu. Nú verða þeir að gefa eftir, enda hafa þeir margfalt meiri hernaðartól undir höndum og heri en vestræn ríki hafa nokkru
sinni haft. Ég legg áherslu á hér að við höldum áfram þessu samstarfi og þá skulum við ekki víkjast undan því að taka á okkur skyldur í þessu sambandi. Þá eigum við að vinna að því að svokölluð forkönnun á varaflugvelli fari fram. Ég vonast til þess að hæstv. utanrrh. muni beita sér fyrir því að svo verði þannig að við getum lagt til enn einn hlekkinn í trausta samvinnu um varnir hinna vestrænu ríkja sem styrkir okkur og eykur lýðræðið í þeim ríkjum sem eru austan tjalds og víða í heiminum. Þetta eru staðreyndir sem við getum ekki gengið fram hjá.
    Í þessu sambandi minni ég á fsp. sem ég lagði fram í þinginu núna í vetur um Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins þar sem kemur fram að full

aðild að honum og greiðslur í sjóðinn eru smámunir miðað við það ef við gerðumst þátttakendur í Mannvirkjasjóði NATO, fullir aðilar, höfum við eigið frumkvæði í þessari mannvirkjagerð og yfirumsjón með öllum mannvirkjum og framkvæmdum hér. Ég teldi að það væri mikið framfaraspor að forræði okkar á framkvæmdum sem hér hafa verið væri algert í stað þess að það væri í höndum Bandaríkjamanna.
    Ég hafði ekki hugsað mér að halda langa ræðu þó af geysimörgu sé að taka, en ég ætla að minnast á utanríkisviðskipti. Það er ljóst að utanríkisviðskipti Íslands eru einhver mikilvægasti þátturinn sem snýr að okkur, einkum vegna þess hve efnahagslíf okkar er einhæft og við erum háð fiskveiðum. Þess vegna hljótum við að leggja áherslu á þjónustu við útflutningsfyrirtæki, bæði á sviði fiskvinnslu og iðnaðar, til að auka hlutdeild okkar í heimsmarkaðnum. Í því sambandi þykir mér rétt að minna á tvö atriði.
    Annars vegar hljótum við að koma inn á að Efnahagsbandalagið verður æ sterkara. Nú höfum við sérstaka nefnd í þinginu til að athuga þau mál. Það er þó svo að ég tel að við þurfum ekki að hræðast það afl og óttast svo mjög. Ég held að ef við stöndum fastir á okkar, bæði hvað varðar réttindi til fiskveiða fyrir okkur og önnur atriði, munum við ná þeim samningum sem við getum treyst að séu okkur hagstæðir. Það er því ekki eins mikil ástæða og margir halda til að vera hræddir um að við missum af lestinni ef við hröðum okkur ekki. Ég held að við getum farið okkur hægt því að reynslan hefur sýnt að smáríki eiga alltaf betri samningsaðstöðu en stórveldi þegar um slíka hluti er að ræða. Ég minni á Lúxemborg og Lichtenstein sem dæmi um ríki sem hafa náð geysigóðum samningum þó að þau haldi sínu sjálfstæði. Einnig má minna á Mónakó sem er smáríki en hefur afskaplega hagstæða samninga við Frakkland á öllum sviðum. Þetta eru staðreyndir. Ég held að þegar við lítum til þess að við erum smáríki getum við verið nokkuð rólegir, miklu rólegri en grannar okkar á Norðurlöndunum sem eru miklu stærri þjóðir og hafa miklu meira að kvíða en við.
    Þá vil ég minnast á að það hefur komið fram, hefur reyndar komið fram áður opinberlega og kom fram í morgun á fundi utanrmn., að Sovétmenn hafa ýjað að því óbeint að þeir muni óska eftir fiskveiðirétti í okkar fiskveiðilögsögu. Ég tel að það sé alveg fráleitt alveg eins og við Efnahagsbandalagið. Þess vegna er mikilsvert að við ljáum ekki máls á því að ræða um þessi réttindi og stöndum þar einhuga.
    Það er af mörgu að taka hvað varðar afvopnun og takmörkun vígbúnaðar og væri hægt að halda langa ræðu um það. En ég fagna þeim árangri sem þegar hefur náðst um niðurskurð meðaldrægra kjarnaflauga og vonast til þess að það verði haldið áfram á sömu braut.
    Ég minni líka á hinar ýmsu viðræður sem hafa átt sér stað hvað varðar efnavopn og hefðbundin vopn, sem eru allar mikilsverðar viðræður. Ég tel að þetta sé á réttri leið.

    Ég held að það sé ljóst að utanríkisstefnan hefur á þessu ári verið nokkuð góð frá okkar hálfu og hefur verið haldið ágætlega á málum. Skýrslan sem hæstv. utanrrh. ber fyrir okkur í Alþingi er nokkuð ítarleg og góð og grípur á flestum þeim málum sem okkur skipta. Ég þakka hversu hún er vel unnin og grípur á held ég flestu sem ég hefði viljað ræða hér.
    Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra nú, en undirstrika þó að við höldum okkar stefnu sem líkastri og hún hefur verið og treystum okkar viðskiptasambönd við allar þær þjóðir sem við höfum viðskipti við og jafnframt treystum okkar sambönd við okkar vinaþjóðir í NATO. Það er fróðlegt að lesa um ýmsa þætti eins og ég sagði í þessari skýrslu. Ég held að ég muni ekki hafa mál mitt öllu lengra, en þakka utanrrh. sérstaklega aftur fyrir ágæta skýrslu og að hann skuli vera svo hægri sinnaður eins og skýrslan ber með sér.