Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Í allan þennan áratug hefur verið samfelld stefna í varnarmálum og öryggismálum landsins. Allir utanríkisráðherrar á þeim tíma hafa haldið þar vel á málum. Raunar má segja að stefnan hafi strax verið mörkuð fyrir 40 árum með þátttöku okkar í stofnun Atlantshafsbandalagsins, þess bandalags sem ég hef leyft mér að kalla mikilvægasta bandalag Íslandssögunnar. Kannski mætti líka segja mikilvægasta bandalag heimssögunnar því að hvað hefði nú gerst ef vestræn ríki hefðu ekki stöðvað Ráðstjórnarríkin þegar þau voru að byrja sína hernaðarstefnu, yfirlýst heimsyfirráð? Það er verið að brosa að því að ég kalli þetta mikilvægasta bandalag Íslandssögunnar. Ég held ég breyti því bara, mikilvægasta bandalag mannkynssögunnar að líkindum því að menn geta nú gert sér í hugarlund þær hörmungar sem mannkynið hefði gengið í gegnum ef Ráðstjórnarríkin hefðu getað komið fram áformum sínum um að ná heimsyfirráðum. (Gripið fram í.) Nei, þú mátt eiga það. Að þessu máli ætla ég að víkja nánar nokkru síðar, en vil strax þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og fyrir staðfestu hans í því að halda á málum með sama hætti og gert hefur verið þennan áratug allan. Raunar segir í skýrslu ráðherrans:
    ,,Utanríkisstefna sú sem fylgt hefur verið hefur reynst þjóðinni farsæl og á það jafnt við öryggis- og varnarmál sem viðskiptamál`` og síðar: ,,Fyrirrennarar mínir í starfi hafa á undanförnum árum leitast við að auka hlutdeild Íslendinga í þróun áætlana varðandi varnir landsins, svo og við starfrækslu ratsjár- og fjarskiptastöðva. Samfara þessu hafa Íslendingar leitast við að gerast virkir aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Haldið verður áfram á sömu braut í tíð núv. ríkisstjórnar.``
    Það er ljóst að ríkisstjórnin öll verður að standa á bak við þá stefnu. Hann leggur sýnilega sitt starf að veði þar, að hann muni ekki og þar með ekki ríkisstjórnin hvika frá þeirri stefnu sem fylgt hefur verið. Í framhaldi af þessu er talað t.d. um varaflugvöll á Íslandi og það geta menn lesið sér til um.
    En hér ætla ég að skjóta því inn í að ég frétti í gær mikil ótíðindi og einstök tíðindi. Svo er mál með vexti að í eftirmiðdaginn hringdi vikublað í mig, Pressan mun það heita, kemur víst út á fimmtudögum eða svo, eitthvað í tengslum við Alþfl. held ég, og ég spurður þeirrar spurningar hvernig mér lítist á kröfugerð Ráðstjórnarríkjanna um veiðiréttindi innan okkar fiskveiðitakmarka í tengslum við viðskipti. Og ég hvái auðvitað: Hvað ertu að segja? Og þetta er endurtekið að það séu ákveðnar kröfur af hálfu Ráðstjórnarríkjanna í samningaviðræðum við okkar embættismenn um það að Ráðstjórnarríkin fái hér veiðiheimildir.
    Ég hef fengið það staðfest hjá hæstv. utanrrh. og hann hefur leyft mér að skýra frá því að slíkar kröfur hafi komið fram í viðræðum og hljóti þess vegna að verða til skoðunar. Þegar mér var ljóst í gær að þetta var ekki einhver bóla svaraði ég mjög skýrt og

skorinort og menn þurfa ekkert að spyrja að því hvert það svar var. Ég sagði: Það kemur aldrei til greina að þeir fái að veiða svo mikið sem einn einasta titt innan okkar fiskveiðimarka. Og það sem meira er: Þeir eiga að hverfa af 150 mílna beltinu utan 200 mílnanna á Reykjaneshrygg. Við eigum 350 mílur á Reykjaneshrygg og það á að gera þeim grein fyrir því strax að ef þeir halda áfram veiðum þar verði þeir teknir. Þeir hafa verið að veiðum og veiða karfa þar, austantjaldstogarar, jafnvel tugum saman.
    En ástæðan til þess að ég tek þetta fram í upphafi ræðu minnar, hæstv. forseti, er sú, að hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson var fyrir skömmu í Ráðstjórnarríkjunum og þegar hann kom heim greindi hann frá því að hann hefði átt viðræður við ráðamenn þar og þar á meðal um viðskiptamálefni. Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að reynt verði að fá þann vaska mann, hæstv. fjmrh., til að koma hér þó seinna væri í kvöld til þess að það sé hægt að spyrja hann að því hvort það hafi borið á góma í þessum viðræðum hans við stjórnvöld í Ráðstjórnarríkjunum, viðræðum um viðskiptamál eins og hann greindi frá í fjölmiðlum, hæverskur að vanda, að ráðstjórnarþjóðirnar fengju veiðiréttindi á Íslandi og hverju hann hefði þá svarað. Þessar spurningar ætla ég að bera fyrir hæstv. ráðherra og ég veit að hann telur ekkert eftir sér að koma í kvöld og svara því hver hans afstaða hafi verið.
    Ég hygg að um leið og við fáum svona fréttir beri að kveða þær í kútinn. Við gerðum það þegar illu heilli var farið að ýja að því að það gætu verið einhverjir möguleikar á því að Evrópubandalagsþjóðir fengju að veiða hér fyrir innan. Það var kveðið niður á stundinni. Það kemur ekki til greina. Það vita það allir að íslenska þjóðin leyfir það aldrei. Það er rétt að gera stjórnvöldum í Ráðstjórnarríkjunum grein fyrir þessu strax. Ég vil svo sannarlega og við öll áreiðanlega auka samskipti við Ráðstjórnarríkin eins og þróunin er þar nú og hafa þau sem víðtækust. En að ætla sér að gefa þeim einhverjar vonir um að þeir fái að veiða innan okkar landhelgi er það versta sem við getum gert af því að það getum við aldrei leyft þeim og þeir yrðu þá bara fyrir vonbrigðum. Þeir eiga rétt á því að fá að vita strax að það kemur
aldrei til greina. Öll önnur heiðarleg viðskipti --- og öll heiðarleg viðskipti, það á ekki að segja önnur, vegna þess að það eru engin heiðarleg viðskipti að við gefum þeim auðlindir okkar --- munum við með glöðu geði eiga við Ráðstjórnarríkin, ekki síst í von um að þar séu að verða betri tímar og þá fyrir okkur um leið og heiminn allan.
    Þetta innskot vildi ég hafa nú og veit að hæstv. forseti kemur óskum mínum á framfæri og við fáum þá meira um þetta að vita þegar á kvöldið líður.
    Við Íslendingar höfum verið svo gæfusamir að okkur tókst að ná allsherjarsamkomulagi um mikilvægustu málefni mannkyns, afvopnunar- og öryggismál, með ályktun Alþingis frá 23. maí 1985. Það er ekki lítils virði fyrir smáþjóð að hafa slíka algera samstöðu um öryggismál sín sem er óbreytt þennan tíma, í fjögur ár nú rétt, og verður væntanlega

áfram. Við heyrum að vísu eina og eina hjáróma rödd, en þessi ályktun stendur og það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir inntaki hennar. Hún hefur stundum verið svolítið rangtúlkuð, en ég nota þetta tækifæri til að víkja að ályktuninni og greinargerð sem henni fylgdi. Með leyfi forseta les ég úr þingtíðindum þegar mál þetta var til umræðu 23. maí 1985. Þar var undirritaður frsm. utanrmn. og flutti boð hennar allrar og les ég nú úr þessari framsöguræðu:
    ,,Ekki var í lítið ráðist þegar allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga ákváðu í fyrravetur að freista þess að nefna til fulltrúa sem könnuðu hvort þess kynni að vera kostur að ná sameiginlegri niðurstöðu um eina ályktunartillögu er varðaði afvopnunar- og kjarnorkumál í stað þess að bitist yrði um þær margar. Þingi lauk þá án þess að þessar tilraunir bæru fullan árangur. Nú á þessu þingi var talið rétt að skipuð yrði undirnefnd til að fjalla um afvopnunarmálin og skilaði hún áliti í tillögu til hv. utanrmn. 6. þ.m. Þar hefur tillaga þessi verið samþykkt óbreytt eftir nokkrar umræður, en þó með skýringum sem mér er falið að greina hér frá svo að forðast megi allan hugsanlegan misskilning.`` --- Síðan kemur þessi greinargerð frá utanrmn.
    ,,Allmiklar umræður urðu í utanrmn. um fyrri málsl. 6. mgr. ályktunartillögunnar og skilning á honum. Ýmsum hugmyndum var varpað fram um orðalagsbreytingar, en á það var fallist að halda orðalagi undirnefndarinnar óbreyttu, en formanni falið að koma á framfæri fyrir hönd nefndarinnar`` --- ég endurtek: falið að koma á framfæri fyrir hönd nefndarinnar --- ,,eftirfarandi skýringum er hann mælti fyrir tillögunni:
    1. Sá landfræðilegi skilningur væri réttur að Norður-Evrópa næði a.m.k. yfir Norðurlönd, eyjar á norðanverðu Atlantshafi og Norður-Þýskaland, þ.e. Norður-Evrópusléttuna, og allt frá Grænlandi til Úralfjalla.
    2. Sá skilningur sem fram kæmi í eftirfarandi hugmynd um breytingu á upphafi 7. mgr. væri réttur`` --- og hann er svona: ,,Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaus svæði í Norður-Evrópu sem nái til aðildarríkja Norður-Atlantshafsbandalagsins, Varsjárbandalagsins og hlutlausra ríkja, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því. Samningur þessi verði liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaðarspennu.`` --- Síðan lýkur þessari greinargerð, en ræðu heldur áfram:
    ,,Samkomulag er um það í utanríkismálanefnd að með tillögunni sem hér er lögð fram sé lokið afgreiðslu fjögurra tillagna um afvopnunar- og kjarnorkumál sem fyrir nefndinni hafa legið, en þær tillögur þekkja allir hv. alþm.``
    Það er í sjálfu sér kannski ekki neitt mikilvægt málefni að við skyldum fyrstir tala um svæðið frá Grænlandi segjum við nú, en nú er talað raunar bæði af Atlantshafsbandalaginu og Varsjárbandalaginu um

svæðið frá Atlantshafi til Úralfjalla. Það er orðið það svæði sem nú er verið að tala um þegar um allsherjarafvopnun er að ræða. En ekki meira um þetta.
    Mig langar að gagnrýna eitt í skýrslu hæstv. utanrrh. og ræðu hans í gær og það var að gera ekki hafréttarmálunum betri skil en raun varð á. Mér finnst að það hefði mátt taka betur á málum þar og hraustlegar. Þess er að gæta að norðurslóðir svonefndar, þ.e. svæðið frá Jan Mayen, til Noregs og alla leið frá Svalbarða til Færeyja, það hafsbotnssvæði, geta Íslendingar, Norðmenn og Danir helgað sér í sameiningu, en það hefur ekki verið fylgt nægjanlega vel eftir í því efni þó að við vitum að æðstu ráðamenn í Noregi séu sammála þeim skoðunum sem við höfum sett fram og okkar sérfræðingar um það með hvaða hætti við getum helgað okkur þessar norðurslóðir allar eða svo til allar. Með þeim hætti gætu þjóðirnar hér á norðurslóðum helgað sér allt hafsvæðið frá Noregsströndum og Skotlandsströndum og allt til Kanada ef samvinna er höfð og vel og hraustlega tekið á málum og allt er það eftir réttum reglum hafréttarins.
    Ég hef heldur ekki verið ánægður með vinnubrögð okkar ráðamanna varðandi Rockall-hásléttu. Við vitum að hæstv. forsrh. hitti forsrh. Breta, Margaret Thatcher, í nóvembermánuði hygg ég að það hafi verið. Hún óskaði eftir því, eftir að þau höfðu rætt þetta mál eftir kortum af þessu svæði, að fá bréf frá okkar forsrh. Það dróst eina þrjá mánuði að það bréf yrði sent sem auðvitað
átti að senda samdægurs eða næsta dag eða þá í síðasta lagi á þriðja degi því að ráðherrann hafði í fórum sínum öll þau gögn og vel til reidd sem þurfti til að senda þetta bréf. Það þurfti ekki að taka nema litla stund að ganga frá því.
    Þá er um Reykjaneshrygg að ræða sem ég vék að áðan. Þar eigum við Íslendingar 350 mílna hafsbotnsréttindi. Það getur enginn maður gert neinar kröfur á því svæði nema við og getur enginn mótmælt eða þau mótmæli væru einskis virði að við verjum þessi réttindi okkar, ef svo má segja, að við hindrum aðrar þjóðir í því að veiða á þessu svæði.
    Enn er eitt í sambandi við hafréttarmálin og fiskveiðimálin yfirleitt, að Færeyingar rányrkja íslenskan lax algerlega í blóra við hafréttarsáttmálann. Að vísu er ekki unnt að neita að svokölluð Atlantshafslaxveiðiverndunarstofnun eða eitthvað slíkt var stofnuð hér í Reykjavík 1982. Fáir vissu nú af því að það væri á döfinni. Þar var ákveðið að heimila Færeyingum þvert ofan í ákvæði hafréttarsáttmálans ákveðnar veiðar á laxi í sjó. Engir hafa leyfi til að veiða lax í sjó aðrir en þeir sem hafa stundað það um langan aldur og það verður að vera efnahagslegt áfall fyrir viðkomandi ríki ef þær veiðar eru stöðvaðar. Þess vegna var það ógæfuspor sem stigið var 1982, en því verðum við sjálfsagt að gleyma. En stofnunin getur auðvitað dregið til baka þessar heimildir. Nú þegar Norðmenn hafa endanlega bannað allar veiðar á laxi í sjó eru Grænlendingar einir eftir og svo

Færeyingar. Grænlendingar hafa sögulegan rétt til einhverra veiða á laxi og þess vegna verður annaðhvort að bæta þeim að hætta við þær veiðar eða þá að þeir geri það bótalaust sem ég tel ekki endilega sanngjarnt. En Færeyinga á að neyða til þess ef þeir ekki gera það með góðu að hætta þessum veiðum og við Íslendingar höfum alla möguleika til þess vegna þess að við leyfum þeim veiðar á öðrum fisktegundum og það er heldur ekki neitt tjón fyrir Færeyinga að hætta þessum veiðum. Þvert á móti eru Færeyjar mjög vel fallnar til hafbeitar og væri hægt að hafa við þá samvinnu um framleiðslu á seiðum þannig að þeir gætu stundað hafbeit og laxveiðar á okkar hafsvæði á norðurslóðum yrðu þar með endanlega bannaðar, laxveiðar í sjó.
    Þessum verkefnum þurfa stjórnvöld að sinna. Ég gat um þetta á fundi í utanrmn. í morgun og eftir það veit ég að báðir hæstv. ráðherrar sem ég hér gagnrýni, og er eðlilegt að ég geri það hér af því að ég gerði það í nefndinni, munu taka þessi mál föstum tökum og við sameinast um það. Það er orðin tíu ára barátta Íslendinga í hafréttarmálum sem er loks að ljúka með fullnaðarsigri. Það er hægt að vinna sigur á norðurslóðum og á Reykjaneshrygg höfum við þegar sigrað og á Rockall-hásléttu í góðri samvinnu við Breta, Íra, Dani og Færeyinga. Það er enginn vafi á því, en auðvitað þarf að fylgja málinu eftir.
    Sannleikurinn er sá að allt frumkvæði í þessum hafréttarmálum hefur komið frá Íslendingum í heilan áratug og við vorum þeir fyrstu ég held þjóða heims til þess að hagnýta í verki ákvæði hafréttarsáttmálans og fara út í að helga okkur hafsbotnsréttindin og við eigum að halda þeirri forustu. Þess vegna er ekkert hægt að tala um það nú að við Íslendingar förum að taka einhverja forustu í hafréttarmálum, hvorki á norðurslóðum né annars staðar. Við höfum haft hana í heilan áratug með margítrekuðum einróma samþykktum Alþingis Íslendinga og þeim samþykktum ber að fylgja fram til fullnaðarsigurs.
    Það er beðið um að við styttum okkar mál og ég skal þess vegna reyna það þó að ótalmargt sé sem ég gjarnan vildi víkja að. Ég kemst þó ekki hjá því að nefna aðeins Evrópubandalagið og samstarfið við Evrópuþjóðirnar sem er hið mikilvægasta. Það var líka gæfuspor að við Íslendingar skyldum sameinast um að ljá ekki máls á aðild að bandalaginu á þessu stigi a.m.k., að það væri alls ekki á dagskrá. Í ferð utanrmn. til Strasbourg og Brussel haustið 1987 var þetta margítrekað og við vorum öll sem þar vorum, fulltrúar allra íslenskra stjórnmálaflokka, sammála um að rétt væri að greina helstu ráðamönnum Evrópubandalagsins frá því að Ísland væri ekkert um það bil að sækja um neina aðild, það mál væri yfirleitt ekki á dagskrá og um það væru allir sammála.
    Ég er ekki í minnsta vafa um að þeir sem ráðið hafa í Evrópubandalaginu að undanförnu og ráða nú vilja að Ísland fái áfram að vera Evrópuríki, það sé Evrópuríki og fái að vera það, og við munum njóta allra bestu kjara, einmitt að við ýjum aldrei að því að við ætlum eða getum orðið þar bandalagsþjóð. Þess

vegna þarf að varast að gefa nokkuð í skyn í því efni.
    Evrópustefnunefndin sem Alþingi ákvað að setja á stofn í fyrra hefur starfað vel undir góðri forustu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar og ferðaðist nú fyrir skemmstu til Genfar og Brussel og þar skýrðust mál auðvitað. Bæði gátum við skýrt okkar sjónarmið og heyrt hvað bandamenn okkar, ég kalla þá það, höfðu um málin að segja.
    Ég vil sérstaklega fagna því að hæstv. forsrh. hélt mjög vel á málum okkar í Osló varðandi fríverslun með fisk í EFTA. Ráðherrann og reyndar utanrrh. líka áttu langa og mikla fundi með Evrópustefnunefndinni svokölluðu um þessi málefni. Þar varð niðurstaðan sú að hæstv. forsrh. ætti alveg til síðustu stundar á þessum fundi í Osló að halda til streitu þeim kröfum okkar að
fríverslun yrði í EFTA vegna mikilvægis þess að ná þar fríverslun með samningum við EBE. Ráðherrann gerði þetta og mér skilst að það hafi verið síðustu fimm mínútur þessara funda þar sem málin voru leyst með því að Finnar, sem voru einir orðnir eftir með þvergirðingshátt, féllust á fríverslunina, en þeir voru að reyna að halda þeirri stefnu fram að hún yrði ekki tekin inn í ályktunina vegna einhverra smásíldarveiða við einhverjar eyjar þar og einhverra veiða á laxi í sjó sem verið er alls staðar að banna hvort sem er þannig að við þurftum ekki að hafa neitt samviskubit af því að vera harðir í horn að taka og fylgja fast eftir okkar málum þar. Það var sem sagt gert með ágætum af ráðherrunum og í fullu samráði við Evrópustefnunefndina þar sem málin voru rækilega rædd og lagðar fram tillögur og menn skiptust á skoðunum um það hvaða aðferðum ætti að beita til þess að ná þessu fram þannig að þessum þvergirðingshætti lyki.
    Um Evrópubandalagið er svo margrætt og merkilegir hlutir þar að gerast. Það er rétt, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði, að það er að verða mikið skrifstofuveldi í Evrópubandalaginu og í þessum alþjóðastofnunum. Það er lítið eða ekkert við því að segja. Það mikilvægasta kannski við Evrópubandalagið af öllu mikilvægu er að héðan í frá geta ekki hættulegar styrjaldir byrjað milli tveggja þjóða í Vestur-Evrópu. Það er útilokað með þeim samtökum sem þarna hafa orðið. Það eitt ætti að gera auðveldara t.d. að bægja frá dyrum ráðamanna í Rússlandi öllum ótta um að styrjaldir sem hæfust í Vestur-Evrópu, eins og hefur nú æðioft gerst á liðnum öldum, mundu síðar bitna á þjóðum austar í álfunni.
    Menn skulu ekki halda að Evrópubandalagið verði heilagt og þar verði ekkert barist. En sem betur fer verður það ekki hægt með vopnum. En það verður barist með blýöntum og skrifstofuveldið verður þar vafalaust mjög mikið.
    Um ferns konar frelsi, frelsin fjögur þykir mér nú varla geta verið íslenska en ferns konar frelsi, er alltaf talað. Ég tel satt að segja að við eigum ekki svo mjög að óttast frelsi til fjármagnsflutninga og jafnvel þjónustu. Ég á ekki von á því að erlent fjármagn mundi streyma hingað til lands þó að menn fengju að

flytja það hingað inn. Ég held að við höfum verið á höttunum eftir fjármagni alltaf frekar en hitt að við þyrftum að forðast það. Ég er ekki hræddur við það. Sannleikurinn er sá að það kom fram bæði í Genf og Brussel þegar við töluðum þar við ráðamenn og embættismenn að það er ekki lengur talað um fjármagnsmarkað EB, jafnvel ekki fjármagnsmarkað Evrópu í heild, ekki fjármagnsmarkað Evrópu, New York-kauphallar og Tókíó-kauphallar. Þeir tala um heimsmarkað. Þeir kalla það glóbal-markað. Þegar kominn er heimsmarkaður með fjármagnið, sem allt gengur meira og minna í gegnum tölvur og telex og hvað þetta nú allt saman heitir sem ég kann lítið á, eru fjármagnsflutningar orðnir alþjóðlegir og það stöðvar þá enginn nema sá sem ætlar sér að verða langt, langt aftur úr öllum öðrum í þróun á þessu mikilvæga sviði. Þess vegna held ég að við þurfum ekki að vera með mikinn ótta í sambandi við fjármagnsflutninga og ég held heldur ekki með þjónustu. En það vinnst tími til að ræða það allt nánar síðar.
    Ég get varla lokið máli mínu öðruvísi en að heiðra hv. þm. Hjörleif Guttormsson. Hann er ekki í salnum, en engu að síður ætla ég ... (Gripið fram í.) Það mætti kalla á hann, já. ( Forseti: Ég vil upplýsa að hv. 2. þm. Austurl. er farinn úr húsinu.) Já, já. Það er líka allt í lagi. Ég festi bara nokkur kveðjuorð í þingtíðindum og kem svo boðum á framfæri við hann persónulega. En ég get líka lofað því að flytja fyrir hann boð til vinar míns Geirs Hallgrímssonar, fyrrum utanrrh. Það var eins og enginn vissi hvað átt hefði fyrr en o.s.frv. Hann talaði um ágætisyfirlýsingar Geirs Hallgrímssonar hinn 16. apríl 1985, hann man dagsetningar sem ég geri illa, og taldi þær sem sagt hafa verið mjög merkar og athyglisverðar og bæri að halda á loft. Því ætla ég að koma á framfæri.
    En að því er varðar afstöðu Alþb. veit ég varla hver hún gæti verið. Alþýðubandalagsmenn sjást ekki í umræðum um utanríkismál. Hæstv. menntmrh. kom aðeins inn í nokkrar mínútur. Auðvitað er hæstv. forseti hér og hlýtur að sitja í sínum stól í embættiserindum og mundi kannski vera hér þó að það væri ekki nauðsynlegt. Ég held kannski ekki að þeir séu alveg hættir að hafa áhuga á utanríkismálum eða t.d. varnarmálum.
    En ég man ekki betur en hæstv. utanrrh. hafi sagt fyrir nokkrum dögum að honum kæmi ekki á óvart að Alþb. færi að styðja Atlantshafsbandalagið. Er það ekki rétt? Ég mundi vona að þeir gerðu það bara opinskátt. Ég veit að margir alþýðubandalagsmenn styðja NATO og fara ekki dult með það, kannski ekki endilega þó varnarliðið, en jafnvel það þekkist. Það væri mjög ánægjulegt ef sú þróun yrði rétt sem hæstv. utanrrh. spáir og víst skal ég verða fyrstur manna til að fagna því, enda er ljóst að það getur ekki verið til hagsbóta fyrir neina vestræna þjóð, neina lýðræðisþjóð að þetta bandalag riðlaðist eins og sakir standa í heiminum í dag. Allt okkar traust verðum við að leggja á samstöðu í þessu mikilvæga bandalagi.
    En annars var ræða þessa hv. þm., sem fjarverandi

er, hvort tveggja í senn,
haltu mér, slepptu mér og svo jafnvel að hann hældi hæstv. ráðherra. ,,Það var að vísu eitt í ræðu ráðherrans sem vakti mér nokkra undrun``, varð honum að orði. En ég get ósköp vel skilið að þeim alþýðubandalagsmönnum gangi dálítið erfiðlega að fóta sig þar til þá að þeir gera sér grein fyrir því að þeir vilji vera í hópi annarra Íslendinga sem vilja af festu og skynsemi halda á okkar mikilvægustu málum, þ.e. öryggis- og sjálfstæðismálunum.