Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er tóku Íslendingar í raun alla stjórn mála sinna í eigin hendur 10. apríl 1940 og hafa staðið á eigin fótum síðan. Í hartnær hálfa öld hefur þjóðin siglt sinn sjó og tekið hverja ákvörðunina annarri veigameiri í utanríkismálum. Segja má að utanríkisstefna sú sem fylgt hefur verið hafi reynst þjóðinni farsæl. Hygg ég að um það séu flestir á einu máli. Ef litið er í málefnasamninga eða sáttmála þeirra ríkisstjórna sem komið hafa til valda hér á landi síðustu áratugina verður að segja að ákvæði þeirra um utanríkismál og utanríkisstefnu eru harla keimlík hvaða flokkar sem staðið hafa að ríkisstjórn.
    Hér er til umræðu skýrsla hæstv. utanrrh. til Alþingis 1989 um utanríkismál. Skýrsla þessi er efnismikil og margþætt. Hún ber með sér hversu ör þróun og mikil útþensla hefur orðið í erlendum samskiptum á liðnum áratugum. Þess er auðvitað enginn kostur að fjalla ítarlega um alla þætti þessara miklu mála. Ég verð því að láta nægja að sinni að minnast á örfá atriði í fáum orðum.
    Að því er varðar samskipti austurs og vesturs er þess getið að þíðunnar í samskiptum stórveldanna hafi gætt um víða veröld. Minnir þetta orðalag nokkuð á fyrstu hlutleysisyfirlýsingu sem gefin var fyrir Íslands hönd sumarið 1809 í Reykjavík, en þar segir m.a. um utanríkismál: ,,Ísland hefur frið um alla veröld.`` Fagna Íslendingar að sjálfsögðu slíkum vorblæ minnugir hins fræga fundar leiðtoga risaveldanna í Höfða við sundin blá.
    Þó að nú sé friðvænlegra í heimsbyggðinni en oft áður er þó vafalaust full ástæða til hóflegrar bjartsýni og aðgæslu í öryggismálum. Það er ánægjulegt að nú skuli hafa rofað til í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Í þeirri alþjóðlegu sveit og samstarfi vilja allir Íslendingar vera. Svo var þó ekki þegar tillaga um aðild að Sameinuðu þjóðunum var samþykkt á Alþingi. Þá greiddu sex þingmenn atkvæði á móti tillögunni og átta sátu hjá. En þetta heyrir nú sögunni til.
    Nú eru rúm 40 ár liðin frá því að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á allsherjarþinginu en á henni byggjast allir helstu alþjóðasamningar um mannréttindi sem síðar hafa verið gerðir.
    Hinn 4. apríl sl. voru liðin 40 ár frá því að Atlantshafssáttmálinn var undirritaður í Washington. Þess er sérstaklega getið í skýrslu ráðherra að jafnan hafi ríkt einhugur þar á bæ um þá tvíþættu stefnu bandalagsins sem byggir á festu og árvekni á sviði varna annars vegar og vilja til að draga úr tortryggni og leysa ágreining með pólitískum samningum hins vegar. Hvað sem öðru líður hefur góður friður verið ríkjandi í þessum byggðum heimsins sl. 40 ár.
    Í utanríkisviðskiptum eru ný viðhorf á döfinni, m.a. hvað varðar EFTA og Evrópubandalagið, sem fróðlegt verður að fylgjast með og geta haft stórvægileg áhrif á þjóðarbúskapinn allan. Þar opnast nýjar víddir og margs konar möguleikar.

    Starfsemi Evrópuráðsins var með hefðbundnum hætti á liðnu ári, stendur þar, en einnig þau kunnu samtök undirbúa nú fertugsafmæli sitt.
    Samvinna Norðurlandanna er víðfræg á alþjóðavettvangi. Oft er litið á Norðurlönd sem eina heild, enda fylgja þau ríki, svo sem kunnugt er, sömu stefnu í mörgum málum út á við og hafa nána samvinnu sín á milli á heimavelli.
    Ein þeirra mála sem hæst ber um þessar mundir í norrænu samstarfi eru umhverfismálin. Þau skipta miklu máli í norðurhöfum og varða raunar gjörvalla heimsbyggðina. Á aukaþingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Helsingör í Danmörku í nóv. sl. var samþykkt tillaga ráðherranefndar Norðurlandanna um umhverfismál. Innan vébanda norrænnar samvinnu starfa svæðisbundin samtök, svo sem þau er ná yfir Ísland, Færeyjar og Grænland eða hið svokallaða útnorður, en hlutverk þeirra er að annast samstarf þjóðþinga Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga og vinna að auknu samstarfi um sameiginleg hagsmunamál þjóðanna.
    Þess má geta að hinn 1. maí. nk. verða liðin tíu ár síðan lögin um heimastjórn Grænlendinga tóku gildi og þeir fengu að miklu leyti yfirráð sinna mála.
    Flutt hefur verið hér á Alþingi till. til þál. um ályktanir vestnorræna þingmannaráðsins 1988. Það er 169. mál þingsins. Fyrri umræðu um þá tillögu er lokið og um hana er nú fjallað í utanrmn. Tjáði formaður þeirrar nefndar mér í dag að nefndin mundi mjög bráðlega ganga frá ályktun í því máli. Verða því ekki höfð fleiri orð um hana að sinni.
    Þá hefur Íslandsdeild Norðurlandaráðs lagt fram skýrslu mikla um norrænt samstarf frá mars 1988 til mars 1989, þingmál nr. 478. Þetta er að sjálfsögðu mikil greinargerð enda samstarfið fjölskrúðugt og umfangsmikið. Þar er m.a. greint frá aukaþingi Norðurlandaráðs á Helsingjaeyri 16. nóv. 1988, en þar voru til umræðu, eins og áður segir, og sérstakrar meðferðar tillögur um umhverfismál og varnir gegn mengun sjávar. Og svo er auðvitað sagt frá 37. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi sem haldið var um mánaðamótin febrúar--mars.
    Enn má nefna hér þingmál nr. 484 á þskj. 868. Það er skýrsla um störf 40. þings Evrópuráðsins frá íslensku þingmannanefndinni í Evrópuráðinu.
    Þá er og skylt að nefna skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins
sem er 132. mál þessa Alþingis, lögð fram á haustþingi, en framhaldssögu í þeim málum má lesa á þskj. 911.
    Geta má þess að nú er nýbúið að leggja fram á þingi skýrslu Jóns Sigurðssonar hæstv. samstarfsráðherra um norræn málefni um störf norrænu ráðherranefndarinnar á árunum 1988--1989.
    Svo að haldið sé ögn áfram má loks minnast á skýrslu um þátttöku Íslands á 43. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sl. haust en þeirri skýrslu var dreift meðal þingmanna snemma á þessu ári. Þar er m.a. gerð stutt grein fyrir ekki færri en 138 málum sem fjallað var um á allsherjarþinginu.

    Af þeim dæmum sem nú hafa verið nefnd má glöggt sjá að þátttaka Íslands í alþjóðasamskiptum er orðin harla víðtæk og margbrotin. Utanríkisþjónustan hefur í mörg horn að líta og starfsfólk hennar vinnur mikilvæg störf. Spyrja má reyndar hvort allt þetta umstang sé ekki orðið of viðamikið og kostnaðarsamt fyrir fámenna eyþjóð við ysta haf. Því er til að svara að hér sem annars staðar verður auðvitað að gæta hófs og sparnaðar eins og frekast verður við komið. Það er ekki alltaf nauðsynlegt að elta uppi hvern einasta fund sem haldinn er með ærnum kostnaði þó að skylt sé að halda svo á málum að sóma lands og þjóðar sé gætt í hvívetna.
    Það er sjálfsögð og eðlileg krafa af hálfu þjóðarinnar að farið sé vel með opinbert fé. Sagan hefur kennt okkur að það er dýrt að vera fátækur en það er líka dýrt að reka frjálst og fullvalda þjóðarbú af þeirri reisn sem hæfir og vera ber. Og það er hlutfallslega miklu dýrara þegar um er að ræða fámenna þjóð í strjálbýlu landi sem halda verður til jafns við fjölmennar stórþjóðir um allt sem lýtur að ríkisrekstri, velferðarmálum og þjónustu við þegnana eins og almennt er krafist nú á tímum.
    Sé enn spurt hvaða ávinning Íslendingar hafi haft af erlendum samskiptum frá stofnun lýðveldis nægir í raun og veru að nefna Sameinuðu þjóðirnar og landhelgismálið, sögu þess og sigra á sviði hafréttarmála. Þó að hafréttarsáttmálinn hafi ekki enn verið fullgiltur nema af 38 aðilum má þó segja að hann sé orðinn allsherjarviðmiðun og ákvæði hans tekin upp í löggjöf margra ríkja, en hann öðlast gildi eftir að 60 aðilar hafa fullgilt hann.
    Sagt er að síðasta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi einkennst af bjartsýni um framtíðina og þann árangur sem nú er í augsýn við lausn margra þeirra heimsvandamála sem stofnunin hefur glímt við undanfarin ár. Almenna umræðan hafi einkennst af hófsemi og ekki slík afaryrði með mönnum eins og oft áður. Þetta eru að sönnu fagnaðartíðindi sem minna á þann anda og þær vonir sem svifu yfir vötnunum þegar allsherjarþingið var haldið í Lake Success á Long Island í New York haustið 1949, fyrir 40 árum, þó að vandamálin þar væru bæði mörg og stór og framtíðarhorfur óvissar og ískyggilegar á margan hátt.
    Þegar nú er horft til framtíðar tel ég mestu máli skipta að íslenska þjóðin móti og fylgi áfram stefnu í utanríkismálum sem er hafin yfir þras dægurmála sem við verðum að hafa og búa við hér heima, stefnu sem meginhluti þjóðarinnar getur fylgt og leitt fær til farsældar, bæði heima fyrir og út á við á alþjóðavettvangi.