Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég get skilið það að hæstv. utanrrh. hafi ýmsum hnöppum að hneppa og sé oft upptekinn á kvöldin en verð þá jafnframt að lýsa furðu minni á því, ég vil segja skipulagsleysi að það skuli efnt til fundar að kvöldi dags um jafnmikilvægt mál og skýrsla utanrrh. er. Ég get ekki fallist á það að þessi umræða fari fram með þeim hætti eins og hér er stefnt að, að við hv. þm., sem höfum ekki verið að flytja hér langar skýrslur eða ræður, fáum hér aðeins nokkrar mínútur eða næturfundi fram eftir allri nóttu til að fjalla um þessi veigamiklu mál. Ég mótmæli þeirri aðferð í sambandi við þessi mál. Það ber eiginlega keim af því að ekki sé óskað eftir því að þingmenn fjalli yfirleitt um þessa veigamiklu þætti sem hér eru á ferðinni að undanskildum örfáum þingmönnum sem flytja þessar meginskýrslur og meginræður fyrir hönd flokkanna. En ég get skilið það og er ekki að gagnrýna hæstv. utanrrh. fyrir það, virðulegi forseti, að hann skuli ekki geta verið hér. En við aðrir þingmenn hefðum e.t.v. getað sagt hið sama.
    Ég vil vekja athygli á því að það er búið að boða til funda í nefndum, m.a. í einni nefnd sem ég á sæti í, kl. 8 í fyrramálið, þannig að það er náttúrlega í hæsta máta óviðeigandi að ætlast til þess að við komumst að klukkan tólf, eitt eða tvö í nótt til að fjalla um þessi mál og eigum svo að mæta á erfiðum nefndarfundum strax í fyrramálið, þannig að ég vil jafnvel óska eftir því, virðulegi forseti, að þessum umræðum sé þá frestað. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi nægan tíma til að vera á þingi og sitja á þingi út maí. Við erum hér, ég vil segja starfsmenn þjóðarinnar í ákveðnum skilningi og teljum það ekki eftir okkur að fjalla um málefni þjóðarinnar eins og þörf krefur. Það er hægt að víkja að því, virðulegi forseti, með öðrum hætti en aðeins í sambandi við utanríkismálin.
    En ég skal halda mig við efnið, virðulegi forseti. Ég skal halda mig við efnið. Ég hafði nefnilega hér fram að færa ákveðnar spurningar til hæstv. utanrrh. sem ég held að hæstv. viðskrh. geti ekki svarað þótt hann vildi og það nægir mér ekki að hæstv. viðskrh. skrifi niður mínar spurningar. Þær eru bæði margar og flóknar og snúa að málum eins og öryggis- og varnarmálum sem eru mjög flókið viðfangsefni núna þessa stundina eins og allir vita. Það eru atriði varðandi Evrópubandalagið sem er mjög brýnt að hæstv. utanrrh. svari hér og geri betur grein fyrir en kemur fram í skýrslu og ræðu ráðherra.
    Síðan vil ég, virðulegi forseti, fá að vita hvernig núv. hæstv. utanrrh. stendur að málum eins og viðræðum um afvopnunarmál. Hvaða skipulag er á þessum viðræðum af hálfu Íslendinga? Hverjir taka þátt í þeim o.s.frv.? Og ég vil einnig vita hvað hæstv. utanrrh. gefur sér góðan tíma til þess að setja sig inn í þessi mikilvægu mál sem afvopnunarmál eru.
    Síðan er það ekki síður mikið atriði fyrir okkur þingmenn og þjóðina alla að fjallað sé um það hvernig skipulagi utanrrn. sé háttað. Þar hefur greinilega orðið á mjög mikil breyting á aðeins einu

ári sem krefst þess að Alþingi Íslendinga ræði það ítarlega hvort utanrrn. eins og það er skipulagt nú geti raunverulega staðist. Og þá vík ég að því atriði, virðulegi forseti, sem ég tel að þurfi að vera sérstök umræða um, þ.e. hvort ekki sé orðið tímabært að skipta þessu ráðuneyti upp í fleiri ráðuneyti þannig að veigamiklir málaflokkar, eins og t.d. varnar- og öryggismálin, afvopnunarmálin o.s.frv., fái þá umfjöllun sem þörf krefur við nútímaaðstæður.
    Þetta eru atriði, virðulegi forseti, sem ég vil leyfa mér að vekja athygli á að er nauðsynlegt að fjalla um hér að hæstv. utanrrh. viðstöddum. Ég legg því til að þingmenn athugi það gaumgæfilega að þeir gefi sér góðan tíma til þess að fjalla um þessi mál. Þinghald haldi áfram, ekki til 6. maí heldur jafnvel til loka maímánaðar. Það er full þörf á því.