Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill ítreka það sem áður hefur fram komið að til stóð að þessi umræða færi fram í gærkvöldi. Vegna óska tveggja þingmanna var fallist á að fresta henni þar til í kvöld. Hæstv. utanrrh. hafði fyrir mörgum vikum ráðstafað tíma sínum í kvöld. Hann mun hins vegar koma hingað á hverri stundu. Það var samið um það að þessari umræðu lyki hér í kvöld og henni mun ljúka hér í kvöld. Það verður enginn frestur gefinn hér og menn geta talað um þingsköp eins og þeir vilja þangað til ráðherra kemur. --- Og næstur hefur beðið um orðið um þingsköp hv. 2. þm. Austurl. sem var annar þeirra tveggja þingmanna sem olli því að þessari umræðu var frestað í gær. Það er lífsins ómögulegt fyrir forseta að semja hvað eftir annað við fulltrúa þingflokkanna og síðan stendur aldrei nokkur hlutur sem sagður hefur verið. Það er ákveðið að þessari umræðu ljúki hér í kvöld. Hér er viðstaddur hæstv. viðskrh. sem jafnframt er samstarfsráðherra um Norðurlandamálefni og það er engum neitt að vanbúnaði að halda fundi hér áfram.