Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Það er fyrst í framhaldi af því sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykv. þar sem hann óskaði eftir nærveru hæstv. fjmrh. hér og vék m.a. að því að einhvern tíma hefði það verið gert að sent hefði verið eftir þingmanni af formanni þingflokks. Það vill svo vel til að það var einmitt núv. hæstv. fjmrh. sem þá var formaður þingflokks Alþb. ef ég man rétt, og það var einmitt virðulegur forseti sem þá þurfti að koma til atkvæðagreiðslu. Eftir virðulegum forseta var sendur lögreglubíll og auðvitað kom forseti, þáv. þingmaður, hingað í salinn til þess að sinna sínum skyldustörfum. Það væri því ekkert óeðlilegt þó að kannski væri svarað í sömu mynt þegar svona stendur á. En það er jafnvel búist við því að hæstv. fjmrh. komi hér. Ég minnist þess fyrir nokkuð löngu síðan þó að hér stóð í ræðustól einn af stjórnarandstæðingum þá og gerði kröfu til þess að þáv. fjmrh. kæmi hér. Ég man það að það var um hálfþrjúleytið að næturlagi sem hann kom hér samkvæmt kröfu þeirra sem hér voru að tala og var þá mættur.
    En ég vildi einmitt út af þessari umræðu og þeim athugasemdum sem fram komu frá hv. 8. þm. Reykv. leyfa mér að segja það að þegar fram fara umræður um utanríkismál samkvæmt skýrslu utanrrh., þá tel ég að það sé í verkahring forustumanna þeirra flokka sem í ríkisstjórn sitja að vera í þingsal, vera hér viðstaddir við þessa umræðu. Það er þeirra þingskylda að sitja þingfundi. Hér er um að ræða málefni sem vissulega eru með þeim hætti að þar talar stundum ekki ein rödd fyrir hönd ríkisstjórnar, ekki tvær, heldur þrjár, svo að það er ekki óeðlilegt að þingmenn hefðu áhuga á því að heyra hvað hæstv. forsrh., formaður Framsfl., hefði að segja um ákveðin atriði, hvað hæstv. fjmrh., formaður Alþb., hefði að segja um ákveðin atriði. En ég geri ekki ráð fyrir því að á þessari umræðu verði gerð breyting, en ég veit að forseti mun e.t.v. síðar sjá svo til að þegar slíkar umræður fara fram, þá séu þeir aðilar hér í þingsal sem bera ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem starfar í landinu.
    Ég er ekki með þessu móti að kasta neinni rýrð á hv. 2. þm. Austurl. sem hér hefur talað sem fulltrúi Alþb. og haft sínar skoðanir, sín sjónarmið. Síður en svo. Heldur hitt að við erum hér á Alþingi Íslendinga. Það er verið að ræða ein þýðingarmestu mál einnar ríkisstjórnar, utanríkismál, og þá eru forustumenn ríkisstjórnarinnar ekki hér til staðar til að fjalla um þessa hluti.
    En það er mjög margt sem hefur verið til umræðu hér eftir ræðu hæstv. utanrrh. og út frá þeirri skýrslu sem hann hefur lagt fram. M.a. hefur verið bent á að það hefur vakið athygli að þegar núv. ríkisstjórn var mynduð, þá var í stjórnarsáttmálanum látið hjá líða að víkja einu orði að þátttöku Íslendinga í því fjölþjóðlega samstarfi sem verið hefur undirstaða utanríkisstefnu þjóðarinnar í meira en 40 ár. Ástæðan er að sjálfsögðu augljós. Það eru friðkaupin við Alþb. sem hafa verið slík að það er ákveðið að minnast ekki á Sameinuðu þjóðirnar, minnast ekki á norrænt

samstarf til þess að þögnin um Atlantshafsbandalagið yrði ekki of æpandi í stjórnarsáttmálanum. Áhrif Alþb. á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um utanríkismál koma þó gleggst fram í lokaorðum hennar þar sem fram kemur sú ætlan ríkisstjórnarinnar að stöðva eðlilega þróun, --- ég segi stöðva eðlilega þróun varnarsamstarfs okkar við ríki Atlantshafsbandalagsins.
    Þetta er ekki í fyrsta skipti sem samstarfsflokkar Alþb. í ríkisstjórn láta undan og fallast á skilyrði sem sá flokkur hefur sett fyrir stjórnarþátttöku og varða þennan þýðingarmikla málaflokk. Slík skilyrði hafa þó yfirleitt verið höfð í sérstökum leynisamningum og utanríkisráðherrum viðkomandi ríkisstjórna hefur þó ekki þótt ástæða til að taka leynimakkið of hátíðlega og talið, eins og glöggt kemur fram í skýrslu þáv. utanrrh. Ólafs Jóhannessonar árið 1983, þar sem segir að liðssveitir Bandaríkjanna séu fyrst og síðast hér til varnar- og eftirlitsstarfa í þágu okkar sjálfra og þá að sjálfsögðu jafnframt þeirra þjóða sem við erum í varnarbandalagi með.
    Ólafur Jóhannesson lét ekki sitja við orðin tóm og það er skemmst að minnast framgöngu hans þegar hann kom í veg fyrir að Alþb. tækist að stöðva nauðsynlegar nýframkvæmdir og endurnýjun á búnaði varnarliðsins. Þegar núv. hæstv. utanrrh. fylgdi skýrslu sinni úr hlaði sl. mánudag kom þessi tvískinnungur vel fram en hann fann sig einmitt knúinn til sérstakra orðskýringa og las það í eyður stjórnarsáttmálans sem undir eðlilegum kringumstæðum hefði átt að standa þar berum orðum. Hann neyddist m.a.s. til að horfa fram hjá lokayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um utanríkismál þegar hann fullyrti í ræðu sinni að ríkisstjórnin fylgdi í raun sömu stefnu í öryggis- og varnarmálum og allar íslenskar ríkisstjórnir hafa fylgt sl. 40 ár.
    Það staðfestir í raun og veru fátt betur en þetta þann ágreining sem er innan ríkisstjórnarinnar um stefnuna í öryggis- og varnarmálum og gerir hæstv. utanrrh. erfitt um vik að láta athafnir fylgja orðum. Það verður hins vegar ekki fram hjá því gengið að í skýrslu utanrrh. kveður við nokkuð annan tón en í framangreindri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Til marks um þetta má vitna í þau orð utanrrh. í skýrslunni að utanríkisstefna sú sem jafnan hefur
verið fylgt hafi reynst þjóðinni farsæl og eigi það jafnt við um öryggis- og varnarmál sem viðskiptamál. Undir þetta skal tekið. Hann segir í skýrslunni að haldið verði áfram að auka hlutdeild Íslendinga í þróun áætlana varðandi varnir landsins svo að Íslendingar geti gerst virkari aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Þessi stefna var mörkuð í ráðherratíð sjálfstæðismanna í utanrrn., m.a. með þeirri skipulagsbreytingu að stofnuð var sérstök varnarmálaskrifstofa og skipaðir varnarmálafulltrúar til þess að fylgjast með þessum málaflokki.
    Ég efast ekki um að félagar hæstv. utanrrh. í núv. ríkisstjórn fagni þessum stuðningi við stefnumörkun okkar sjálfstæðismanna. Það kemur og fram í skýrslu utanrrh. stuðningur við stefnu Atlantshafsbandalagsins í afvopnunarmálum. Þetta er lofsvert þegar hafður er

í huga félagsskapur utanrrh. í núv. ríkisstjórn. En enn sem komið er virðist hæstv. utanrrh. þó ekki treysta sér að fullu til þess að sýna félögum sínum í verki að hann sé í raun og sanni stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins eins og forverar hans gerðu, sem störfuðu við svipuð skilyrði og hann, og ég vitnaði í hér að framan.
    Eins og marga rekur eflaust minni til, þá sagði þáv. utanrrh., Steingrímur Hermannsson, í skýrslu sinni til Alþingis í fyrra að hann vonaðist til þess að Ísland gæti orðið miðstöð umræðu um ýmis vandamál heimsins. Við fleiri tækifæri lét hann í ljós áhuga á því að hér á landi yrði sett á laggirnar stofnun þar sem reynt yrði að kryfja til mergjar helstu vandamál heimsbyggðarinnar og leysa þau. Það var ekki ljóst með hvaða hætti hann hugsaði sér þessa stofnun, t.d. að hve miklu leyti hún kæmi inn á verksvið Sameinuðu þjóðanna eða kannski að hún tæki alfarið yfir öll verk Sameinuðu þjóðanna. Sjálfur sýndi hann fram á haldleysi eigin hugmynda með ótímabærum og illa ígrunduðum yfirlýsingum varðandi hin ýmsu málefni, t.d. vandamálin fyrir botni Miðjarðarhafs. Ekki jók sú frammistaða álit á getu hæstv. þáv. utanrrh. til að leysa ýmis vandamál heimsins og ekki eykur nú frammistaða hans sem forsrh. í núv. ríkisstjórn tiltrú á honum sem heimsleiðtoga, enda er talið að gott minni sé ein forsenda þess að menn nái árangri. Það er hins vegar augljóst að núv. utanrrh. hefur raunsærri hugmyndir um ráðstöfun þeirra takmörkuðu fjármuna sem við getum lagt til þessa málaflokks. Hann ætlar utanríkisþjónustunni öðru fremur, eins og fram kemur í skýrslunni, að þjóna íslenskum hagsmunum í viðskiptum og í varnar- og öryggismálum. Þetta er skynsamlegt og í samræmi við þá stefnu sem flestir forverar hæstv. utanrrh. hafa fylgt.
    Þá boðar hæstv. utanrrh. að utanríkisþjónustan verði efld til að sinna viðskiptahagsmunum þjóðarinnar og er það mjög í samræmi við þá stefnu sem áður hefur verið fylgt í ráðuneytum utanríkis- og viðskiptamála. Það á hins vegar enn eftir að koma í ljós hver framkvæmdin á að vera og með hvaða hætti hæstv. utanrrh. hyggst efla utanríkisþjónustuna að þessu leyti og hvort það verður yfirleitt um annað og meira að ræða en að hygla sínum eigin flokksmönnum.
    Eitt eiga þeir þó sameiginlegt, núv. hæstv. utanrrh. og hæstv. fyrrv. utanrrh., en það er yfirlýsingagleðin sem kemur fram í þeirri áráttu að fara utan, berja sér á brjóst, gefa stórkarlalegar yfirlýsingar, koma síðan heim og segja eins og karlinn sagði sem varð undir í slagnum: Sjáið þið nú hvernig ég tók hann.
    Ég vík að fundi norrænna utanríkisráðherra í Þórshöfn á dögunum þar sem utanrrh. Íslands var mættur ásamt fríðu föruneyti. Þá sá danski utanríkisráðherrann ástæðu til þess að verðlauna hann fyrir eina slíka yfirlýsingu með gjöf sem honum þótti við hæfi. Það mun hafa verið undirmálskarfi.
    En spurningin er: Þjónar það íslenskum hagsmunum að haga málflutningi sínum þannig að fulltrúar annarra þjóða sem við eigum samstarf við

svari fyrir sig með slíkum hætti? Ég segi: Svari hver fyrir sig.
    Hér hefur verið vikið að kaflanum um afvopnunarmál og ég hef áður getið þess að í skýrslu utanrrh. er víða að finna stuðning við stefnu Atlantshafsbandalagsins í afvopnunarmálum og í öryggis- og varnarmálum. Þetta er vissulega jákvætt, enda hefur sú stefna gefist vel og tryggt frið í okkar heimshluta í 40 ár. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því raunsæi sem felst í þeim ummælum hæstv. utanrrh. að yfirburðir Varsjárbandalagsins yfir Atlantshafsbandalaginu á sviði hefðbundins vígbúnaðar og skammdrægra kjarnavopna séu gífurlegir og skapi mikla ógn fyrir aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í Mið-Evrópu. Skammdrægu kjarnavopnin eru talin verða úrelt um miðjan næsta áratug og segir hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni, eins og hér hefur verið bent á áður, að ekki ætti að útiloka þann möguleika að birgðir Atlantshafsbandalagsins verði endurnýjaðar við núverandi aðstæður. Þetta er athyglisverð afstaða og það væri virkilega ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh. og spyrja hæstv. fjmrh. hvort um þessa afstöðu sé einhugur í ríkisstjórninni. Ég efast um að svo sé.
    Sjálfur vona ég að árangur geti orðið það mikill í viðræðunum á milli austurs og vesturs sem eru nýhafnar í Vínarborg um hefðbundinn vígbúnað annars
vegar og traustvekjandi aðgerðir hins vegar að í kjölfar þeirra geti hafist viðræður um niðurskurð vígbúnaðar á öðrum sviðum svo sem hvað snertir skammdræg kjarnavopn. Þá er einnig ástæða til þess að taka undir með utanrrh. að viðræðurnar í Vínarborg eru nokkur prófsteinn á raunverulegan friðarvilja Sovétmanna.
    Eins og flestum er kunnugt taka viðræðurnar um hefðbundnu vopnin við af viðræðum um gagnkvæma fækkun og jafnvægi í herjum í Mið-Evrópu, MBFR-viðræðunum svonefndu sem staðið höfðu frá því árið 1973 og ekki skilað árangri. Í viðræðunum í Vín er samkomulag um að þar skuli ekki fjallað um m.a. vígbúnað á höfunum. Að vísu hafa Sovétmenn hvað eftir annað reynt að fá sjóheri inn í dagskrá Vínarfundarins eins og hér hefur verið bent á. En það hefur verið stefna Atlantshafsbandalagsins að ójafnvægi á sviði hefðbundins vígbúnaðar sé svo gífurlegt í Evrópu að nauðsynlegt sé að draga úr því áður en viðræður um önnur mál hefjast.
    Ríki Varsjárbandalagsins mynda eina landfræðilega heild og hafa því miklu betri möguleika en ríki Atlantshafsbandalagsins til að flytja heri og vopn með skömmum fyrirvara. Atlantshafsbandalagið er hins vegar flotabandalag og þarf nauðsynlega að tryggja örugga samgönguleið yfir Atlantshafið. Það verður að vega upp ójafnvægi á sviði hefðbundins vígbúnaðar, m.a. með öflugum flota. Það skilja engir betur en Íslendingar hve mikilvægt það er að nánustu viðskipta- og samstarfsþjóðir okkar tryggi með okkur frjálsar siglingar á höfunum. Þetta þekkjum við úr margra alda sögu okkar eyju.
    Hér fyrr í kvöld var vikið að ræðu utanrrh. Íslands

við upphaf Vínarfundanna og þeim ummælum sem gátu gefið til kynna að Íslendingar tækju undir það sjónarmið Sovétmanna að flotamál skyldu rædd þar á næstunni sem ekki er í samræmi við þá mörkuðu stefnu sem samkomulag er um innan Atlantshafsbandalagsins og við Íslendingar höfum tekið þátt í að móta, m.a. á fundi utanrrh. bandalagsins hér í Reykjavík árið 1987. Í skýrslu utanrrh. kemur á hinn bóginn fram stuðningur við stefnu ríkja Atlantshafsbandalagsins í þessu efni, þ.e. að fyrst verði að sjást árangur í viðræðunum um hefðbundinn vígbúnað áður en menn ræða önnur mál, þar á meðal flotamálin. Ástæða er til að undirstrika þessa forgangsröðun málefna sem nýtur stuðnings utanrrh. að því er fram kemur í skýrslunni.
    Ýmsir íslenskir stjórnmálamenn hafa í ræðu og riti reifað hugmyndir ekki ósvipaðar þeim sem fram komu í frægri ræðu Gorbatsjovs Sovétleiðtoga sem hann hélt í Murmansk í október 1987. Ég vil hvetja menn til að gæta að sér í þessum efnum því þegar grannt er skoðað kemur í ljós að tilgangur Sovétleiðtogans virðist vera sá að veikja samstöðu ríkja Atlantshafsbandalagsins með því að höfða til ákveðins hóps þeirra og blanda saman, eins og hér hefur verið bent á, umhverfismálum og öryggismálum. Þannig er hugsað að veikja varnir Atlantshafsbandalagsins á siglingaleiðinni yfir Atlantshafið.
    Ég skil skýrslu hæstv. utanrrh. svo að hann vilji áfram treysta samstöðu ríkja Atlantshafsbandalagsins og koma í veg fyrir að rekinn verði fleygur í það með vanhugsuðum tillögum af þessu tagi. Norræn ríki innan Atlantshafsbandalagsins eru hluti af varnarsvæði þess og reynslan kennir að samstaðan færir okkur nær raunhæfum markmiðum í afvopnunarmálum. Saga meðaldrægu kjarnavopnanna í Evrópu er besta dæmið um það að ríki Atlantshafsbandalagsins nota samtakamátt sinn til að tryggja öryggi og frið við eins lágt stig vígbúnaðar og frekast er unnt.
    Ekki þarf að taka það fram að við Íslendingar styðjum heils hugar allar raunhæfar tilraunir til afvopnunar, en til þess að unnt sé að ræða þessi mál af hreinskilni, þá verða menn að gera sér ljósa grein fyrir grundvallarstaðreyndum. Ófriðarhættu verður ekki bægt frá með einhliða afvopnun vestrænna ríkja. Þvert á móti kynni hún að aukast ef út á þær brautir yrði farið.
    Þótt víða komi fyrir í skýrslu utanrrh. rökstuðningur fyrir stefnu sem ég er sammála er ástæða til að ætla að ekki ríki einhugur um hana innan þeirrar ríkisstjórnar sem hann á sæti í. Af þeim sökum virðist hann eiga í erfiðleikum með að hrinda í framkvæmd tilteknum þáttum stefnunnar, sem verða prófsteinn á það hvort hann þorir að fylgja þeirri stefnu á borði sem hann styður í orði í skýrslu sinni til Alþingis.