Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Kjartan Jóhannsson:
    Frú forseti. Mér finnst tilhlýðilegt að nota þetta tækifæri til þess að fara fáeinum orðum um störf nefndar um stefnu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu, nefndar sem Alþingi kaus á sl. vori. Ég vil rifja það upp að nefndin ákvað að skipta starfi sínu í áfanga og birta afraksturinn af vinnu sinni nokkurn veginn jafnharðan og það vannst. Með þessu móti taldi nefndin sig geta stuðlað að og flýtt fyrir umræðum meðal almennings og þeirra sem áhuga hefðu um þessi mál sem henni var falið að fjalla um.
    Það er mitt mat að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá nefndinni og hafi skilað nokkrum árangri einmitt í þá veru sem til var ætlast. Svo mikið er víst að umfjöllun og umræða um Evrópumálefnin hefur aukist mjög, ekki bara hér á Alþingi heldur almennt í þjóðfélaginu og í fjölmiðlum.
    Þessi afrakstur nefndarstarfsins hefur þegar birst í þremur heftum eða ritlingum sem nefndin hefur gefið út á undangengnum mánuðum eins og alþingismönnum er kunnugt, enda hefur þeim verið dreift hér til alþingismanna. En það er rétt að geta þess að það hefur mikil eftirsókn verið eftir þessum ritlingum af hálfu almennings í landinu og hið prentaða upplag er til þurrðar gengið á hinum fyrstu þeirra. Það styður reyndar þá skoðun að útgáfa þeirra hafi verið tímabær og haft verulegt upplýsingagildi og þá jafnframt stuðlað að umræðu og umfjöllun víðs vegar í þjóðfélaginu eins og ætlunin var.
    Nefndin hefur einnig unnið sérstaklega að efni í tvö önnur hefti, annars vegar varðandi atvinnuvegina og það sem þeim tengist beint, þ.e. iðnað, landbúnað, sjávarútveg og samgöngur, og hins vegar um efnahagsmál í víðtækum skilningi, þ.e. efnahagssamvinnu, peningamál og fjármálastjórn, þar með talin skattamál, og von mín er sú að nefndin geti gengið frá þessum bæklingum til útgáfu fljótlega.
    Í þessum bæklingum kemur stefnumörkun ekki fram nema að takmörkuðu leyti, en að því leyti sem hún kemur ekki fram né heldur mat á afstöðu Íslands eða tillögur um afstöðu, þá hefur nefndin geymt sér það starf og birtingu þess til síðari tíma. Hugsunin er þá sú að kynna fyrst eftir því sem kostur er hinar ytri aðstæður og þróunina hjá Evrópubandalaginu og meðal þeirra þjóða sem eru félagar okkar í EFTA, en stefnumörkunin bíði þá að því leyti sem hún er ekki kynnt þar til hið almenna yfirlit liggur fyrir.
    Í ályktun Alþingis sem ég vitnaði til áðan um stefnu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu sem var samþykkt á sl. vori var tiltekið að nefndin sem kjörin var skyldi skila skýrslu um málið til Alþingis fyrir 1. apríl 1989. Reyndin hefur hins vegar orðið sú, eins og liggur í þeim orðum sem hér hafa þegar verið sögð, að skýrslan birtist eiginlega í áföngum. Fyrstu ritlingarnir birtust í nóvember og desember sl., aðrir eru væntanlegir fljótlega og þannig koll af kolli. Þannig má segja að sumum hlutum skýrslunnar hafi verið skilað til alþingismanna fyrir alllöngu, en sumt, og þar með lokaskýrsla, hefur dregist fram yfir hina tilgreindu dagsetningu.

    Það er von nefndarinnar að Alþingi virði þessa starfshætti, en verkið í heild hefur verið meira en ætlað var og hefur verkið því ekki unnist hraðar en þetta þrátt fyrir að nefndarmenn hafi setið marga og stranga fundi.
    Ég ætla engu að spá um einstaka þætti í stefnumörkuninni þegar þar að kemur. Hingað til hefur hins vegar verið samstaða um það sem nefndin hefur gengið frá, en erfiðir þættir eru reyndar fram undan.
    Ég sagði áðan að nefndarmenn hefðu setið marga og stranga fundi en þar á ofan hafa þeir lagt á sig mikla vinnu við að kynna sér þau mál sem hér um ræðir. Þeir hafa lesið ógrynni af skjölum og lagt nefndinni til efni með samningu minnisatriða og efniskafla vegna skýrslugerðarinnar. Sem nefndarformaður kann ég nefndarmönnum þakkir fyrir þetta ötula starf þeirra í nefndinni og fyrir samstarfið það sem liðið er og er þess fullviss að svo verði áfram. Ég nota þetta tækifæri til þess að þakka nefndarmönnum starf þeirra og samstarfið. Og ég geri það núna með hliðsjón af því að það sé ekki víst að mér bjóðist annað hentugt tækifæri til þess á vettvangi sameinaðs Alþingis að færa fram slíkar þakkir.
    Ég læt svo lokið að gefa þetta stutta yfirlit um störf nefndar um stefnu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu sem mér þótti sem sagt rétt að koma hér á framfæri í þessari umræðu.
    Að lokum, frú forseti, vil ég þakka þau vinsamlegu orð sem ýmsir þingmenn hafa hér í þessari umræðu látið falla í minn garð, svo og þær heillaóskir sem þeir hafa borið fram mér til handa vegna nýrra starfa sem ákveðið hefur verið að fela mér á erlendum vettvangi. Ég vænti þess að mega njóta góðs samstarfs við alla þingmenn í þessu nýja starfi eftir því sem tilefni og tækifæri gefst til og þá auðvitað óháð því hvort þingmenn eru sæmilega sáttir við þessa skipan mála eða hafa á henni gagnstæða skoðun eins og sumir hafa lýst að þeir hafa. Ég vænti sem sagt góðs samstarfs við alla þingmenn.
    Ég er auðvitað alls ekki að flytja neina kveðjuræðu. Það er of snemmt. Það lifir enn nokkuð af þingi og margt er óunnið. En ég vildi ekki láta hjá líða
að gefa þessa stuttu greinargerð um störf nefndar um stefnu Alþingis og geta þess að ég met mikils bæði þær heillaóskir og þau vinsamlegu ummæli sem þingmenn hafa flutt í minn garð.