Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Þessar umræður eru orðnar langar og á köflum fróðlegar. Þær hafa staðið núna í samfellt 11 klukkustundir. Það hafa talað hér fulltrúar allra flokka sem setu eiga á Alþingi fyrir utan fulltrúa Framsfl. og Samtaka um félagshyggju og jafnrétti ef ég kann rétt að taka eftir. ( VS: Framsóknarmaður talaði.) Þá biðst ég afsökunar vegna þess að ég var fjarverandi og vissi ekki af því. Þá skulum við hafa það sem réttara er. Fulltrúi Framsfl. talaði, formaður utanrmn., en af kunnum ástæðum missti utanrrh. af þeirri ræðu.
    Það er sumt sem vekur athygli mína öðru fremur við þessar umræður sérstaklega. Ég tek eftir því að það hafa talað hér sex fulltrúar Sjálfstfl. Þeir hafa borið fram urmul af spurningum en flestir sömu spurningarnar. Það vekur athygli mína að fulltrúar Sjálfstfl. í umræðum um utanríkismál hafa á undanförnum árum lagt sérstaka áherslu á það að Íslendingum beri skylda til að leggja sjálfstætt mat á íslenska hagsmuni, sérstaklega íslenska öryggishagsmuni og skipuleggja utanríkisþjónustuna með þeim hætti að þeir séu til þess bærir. Kjarni málsins hefur verið sá að búa okkur betur í stakk til þess að leggja sjálfstætt mat á okkar eigin hagsmuni og framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu, að sjálfsögðu í samstarfi við bandamenn. Þess vegna finnst mér dálítið merkilegt að í nokkrum þeim tilvikum þar sem Íslendingar hafa lagt sjálfstætt mat á sína eigin hagsmuni, þá heyrist mér af þeirra málflutningi að þeir kveinki sér og kvarti og hafi uppi efasemdir, viðvaranir og jafnvel nokkur frýjuorð til utanrrh. um að nú sé hann kannski að villast af réttri leið. Þetta á t.d. við þá ákvörðun utanrrh., þess sem hér stendur, að draga nokkuð úr fjölda þátttakenda í áformum Bandaríkjanna um heræfingar hér á næsta sumri. Það er nú lítilsvert. En þetta á sér í lagi við þann geysistóra þátt íslenskra utanríkismála sem varðar spurninguna um afvopnun á og í höfum og um traustvekjandi aðgerðir á höfunum. Þar heyrist mér sem þeir kveinki sér einum um of við það að í málflutningi utanrrh. hefur það komið skýrt fram að ég telji það eitt samrýmast lífshagsmunum Íslendinga í þessu máli að Íslendingar taki þar sjálfstætt frumkvæði.
    Að öðru leyti er það ekkert launungarmál að í öllum grundvallaratriðum að því er varðar afstöðu til utanríkis- og öryggismála eða samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins og nauðsyn varnarsamningsins við Bandaríkin er ekki uppi ágreiningur milli mín og þeirra og vissulega var ég látinn njóta sannmælis að því leyti í þessari umræðu.
    Eins er það að mér fannst málflutningur fulltrúa Kvennalistans í þessum umræðum, hv. 12. þm. Reykv., eilítið þversagnarkenndur kannski. Í ræðu hv. þm. kom það fram að hún hefði orðið fyrir vonbrigði með framkvæmd utanríkisstefnu í tíð þessarar ríkisstjórnar og þau vonbrigðu væru allmikil, sér í lagi í samanburði við framkvæmd utanríkisstefnu í tíð fyrri ríkisstjórnar undir forsæti Sjálfstfl. Í máli hennar kom

fram að það henti að hún fyriryrði sig fyrir málflutning og afstöðu fulltrúa Íslands á alþjóðavettvangi. Sér í lagi var nefnt sem dæmi um þessi vonbrigði að hernaðarumsvif færu sívaxandi.
    Nú er það svo að í tíð þessa utanrrh. og þessarar ríkisstjórnar hafa engar ákvarðanir verið teknar um aukin hernaðarumsvif. Allar ákvarðanir um hernaðarframkvæmdir þær sem unnið er að voru teknar í tíð forvera minna, þar á meðal forvera míns, sem mér heyrðist hv. þm. hins vegar telja allan annan og miklu betri og þekkilegri vegna friðsamlegri tóns í málflutningi eða í framkvæmd utanríkisstefnu.
    Það er líka ein þversögnin enn að sumir talsmenn Sjálfstfl. lýstu áhyggjum sínum af því að utanrrh., sá sem hér stendur, kynni hugsanlega að víkja frá einhverjum grundvallarreglum, sæta afarkostum, sætta sig við neitunarvald samstarfsaðila o.s.frv. Engu að síður varð það ljóst á málflutningi þeirra að þeim þótti framkvæmd utanríkisstefnunnar í tíð forvera míns hafa verið mjög svo í skötulíki, órökrétt, ekki byggð á grundvallarsjónarmiðum, þrátt fyrir þá staðreynd að það var í tíð ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstfl. Ég hlýt því að álykta að ekki sé það nóg að Sjálfstfl. hafi forustu í ríkisstjórn til þess að tryggja það að sú festa og staðfesta við grundvallarsjónarmið ríki í framkvæmd utanríkisstefnunnar þó að ég minnist þess nú yfirleitt ekki að hafa heyrt þennan málflutning frá hv. þm. meðan þeir voru í stjórnarsamstarfi við fyrrv. utanrrh. Þó voru á því nokkrar undantekningar. Látum nú vera um þennan tón. Það skiptir kannski ekki miklu máli.
    Mitt hlutverk hér er fyrst og fremst það að reyna að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og það skal ég reyna að gera. Þó má vera að ég geti ekki svarað þeim öllum en reyni þó að gera það eftir bestu samvisku. Fyrst vil ég víkja að þeim spurningum sem til mín var beint af hálfu þeirra sjálfstæðismanna.
    Í máli hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteins Pálssonar kom fram uggur út af áformum um breytingar á skipulagi utanríkisþjónustunnar. Hann komst að orði eitthvað á þá leið að það væri óráðlegt að skipta um fastafulltrúa hjá EFTA í Genf. Það hefði annaðhvort átt að gerast fyrr eða síðar, bara ekki núna. Nefndi jafnvel
að það bæri vott um hringlandahátt eða væri hugsanlega gert í þágu flokkssjónarmiða.
    Ég vík kannski að þessu máli á eftir vegna þess að það voru bornar fram margar spurningar um hugmyndirnar um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar. Það kom fram í máli margra, hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og fleiri. Ætli ég víki ekki að því út frá spurningum hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur.
    Hún spurði: Hver eru rökin fyrir þessari endurskipulagningu? Um það vísa ég einfaldlega í þá skýrslu sem lögð hefur verið fram, lögð, kynnt og rædd í þaula í utanrmn., kynnt í ríkisstjórn, kynnt í utanrmn. þar sem hv þm. á sæti.
    Hún spurði: Hverjir voru þeir gallar á starfi þjónustunnar sem kölluðu á endurskipulagningu? Það

kemur vel fram í þessum rökstuðningi. Það var galli t.d. að það var engin föst regla um starfstíma sendimanna erlendis. Það er ekki gott og kann ekki góðri lukku að stýra að sendimenn dveljist langdvölum erlendis, jafnvel áratugum saman án þess að vera kvaddir heim. Það er augljóst mál. Það er galli þegar skipulagsbreyting er gerð á stjórnkerfinu og viðskiptamál eru færð yfir til utanrrn. og það eru engar ráðstafanir gerðar til þess að styrkja starf ráðuneytisins á sviði viðskipta þrátt fyrir það. Það er galli á skipulagi ráðuneytisins þegar ytri kringumstæður valda því að stór, viðamikil verkefni, kannski stærstu verkefni sem utanríkisþjónustan hefur fengist við, blasa við fram undan og þá er ég að tala um samskiptin innan EFTA og samstarfið við Efnahagsbandalagið, ef starfskraftar í ráðuneytinu eru ekki undir það búnir, ef stefnumótunarhlutverki ráðuneytisins er ekki sinnt. Þá má það heita galli ef stefnumótunarhlutverkið, kerfisbundin vinna að lausn langtímaverkefna, ef ekki er hægt að sinna því vegna þess að það er ekki næg sérhæfing milli starfsmanna. Það getur hver sem er kynnt sér sem kannar það hversu margir starfsmenn eru t.d. í alþjóðadeild til þess að sinna t.d. málefnum sem varða öryggis- og varnarmál, samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðirnar, málefni ýmissa annarra alþjóðastofnana o.s.frv. þannig að það eru ýmsir gallar og það voru ærin rök fyrir þessum breytingum.
    Fór fram sérfræðileg úttekt? Sérfræðileg úttekt fór fram að því leyti að það var leitað sérstaklega álitsgerðar að því er viðskiptaþáttinn varðar, sem er hinn nýi þáttur, hjá Útflutningsráði og framkvæmdastjóri Útflutningsráðs skilaði álitsgerð til ráðuneytisins.
    Eru niðurstöður um breytingar í samræmi við þær tillögur? Að verulegu leyti eru þær, já, ekki að öllu leyti. Útflutningsráð vildi ganga lengra í því að skipa viðskiptafulltrúa strax, en við verðum auðvitað að starfa innan ramma fjárlaga svo að þess er ekki kostur fyrir utan það að við höfum kannski á því það mat að það er ekki nauðsyn alls staðar.
    Ein athyglisverð hugmynd kom fram um þessi mál í ræðu hv. 1. þm. Suðurl., formanns Sjálfstfl. Hann lýsti þeirri hugmynd hvort ekki væri ráð að efna til samstarfs við Norðurlandaþjóðirnar um það að í stað hefðbundinna sendiráða yrðu settar á stofn sameiginlegar þjónustuskrifstofur Norðurlanda. Þetta finnst mér mjög athyglisverð hugmynd og lýsi vilja mínum til þess að skoða hana nánar. Sýnist mönnum svo, að það geti tekist samstaða um það, þá væri ég fyrir mitt leyti tilbúinn að beita mér fyrir því fyrir afgreiðslu næstu fjárlaga að slíkri hugmynd yrði hrundið í framkvæmd.
    Það er ástæða til að vekja athygli á því hér að þessi þáttur alþjóðasamstarfsins sem varðar Norðurlandaráð er orðinn geysilega viðamikill í íslensku stjórnkerfi og reyndar í störfum Alþingis. Þess er skemmst að minnast að þegar Norðurlandaráðsþing eru haldin er Alþingi óstarfhæft. Það er verulegur fjöldi hv. þm. sem tekur mikinn þátt

í störfum Norðurlandaráðs og er mikið fjarverandi af þeim sökum, en það er þó ekki allt vegna þess að það er einnig orðið svo í helstu ráðuneytum, að mjög margir embættismenn, sumir hverjir sem gegna lykilstörfum, eru í mjög tímafrekum nefndastörfum á vegum Norðurlandaráðs og stöðugum ferðalögum þangað. Með öðrum orðum: Meginþunginn í samstarfi okkar við Norðurlönd fer ekki fram í gegnum utanrrn. og fer ekki fram í gegnum sendiráð. Reyndar er þess að geta að sérstakur ráðherra fer með þessi málefni og þótt Norðurlandaskrifstofan sé vistuð í utanrrn., þá má heita svo að utanrrn. sem slíkt hafi ekki tengsl við þetta starf. Það fer fram á öðrum vettvangi. M.a. af þessum ástæðum --- að Norðurlandasamstarfið fer lítið sem ekkert fram í gegnum sendiráðin og í annan stað vegna þess að viðskiptasambönd okkar við Skandinavíu eru með þeim hætti að þau eru ákaflega einhliða, við flytjum ákaflega mikið inn frá Norðurlöndum, en útflutningur þangað er lítill og viðskiptajöfnuður okkar við þau er mjög óhagstæður, nálægðin hins vegar slík að það er ekki sérstök nauðsyn á sérstakri þjónustu opinberra aðila vegna fyrirgreiðslu á mörkuðum þar --- þá er eiginlega niðurstaðan sú að ég tek fyllilega undir það með formanni Sjálfstfl. að það sé tímabært að skoða hvort þessum samskiptum eigi ekki að haga með öðrum hætti. Menn eiga nefnilega að hafa opin augu fyrir því að þetta þarf ekki allt saman alltaf að vera í sama forna farinu.
    Að verulegu leyti er hlutverk sendiráða á Norðurlöndum hlutverk fógetaskrifstofa, þ.e. að annast þjónustu, kerfisþjónustu við þá landa okkar sem þar eru búsettir sem reyndar eru orðnir býsna margir. Ég hef ekki töluna á reiðum höndum, eitthvað tæplega 4000 manns í Svíþjóð einni. Ætli það séu ekki a.m.k. 5000 manns í Danmörku og eitthvað lægri tala í Noregi. Einföld fógetaþjónusta, og þá á ég við fyrirgreiðslu eins og varðandi barnsburð, fæðingarvottorð, hjúskaparskilríki, skilnaðarpappíra og annað slíkt, er kannski tímafrekasti parturinn í þessu. Hvers vegna þá ekki að setja á stofn þjónustukontór, draga saman seglin þarna að því er varðar það að halda úti sendiráðum með formlegum hætti til þess að geta lagt aukna áherslu á starfsemi sendiráða eða á aðra þætti í utanríkisþjónustunni sem eru brýnni og meira aðkallandi? Með öðrum orðum: Jákvæð hugmynd, athyglisverð tillaga og allrar athygli verð.
    Það var spurt hverju sætti um fyrirvara hæstv. forsrh. að því er varðaði Oslóaryfirlýsinguna og hvort þetta væru fyrirvarar við fyrirvara, eins og fram kom í máli ýmissa fulltrúa Sjálfstfl., þeirra á meðal hv. 1. þm. Suðurl. og hv. 17. þm. Reykv. Mér finnst vera búið að eyða óhemjumiklu púðri í þetta mál af nánast engri ástæðu. Oslóaryfirlýsingin var samþykkt einróma af öllum EFTA-ríkjunum. Það er alveg á hreinu. Það er jafnljóst að EFTA-ríkin eru í samstarfi á grundvelli fríverslunarsamnings og starfsreglur þess þar eru með þeim hætti að ekkert eitt ríki getur í atkvæðagreiðslu borið annað ofurliði. Það er jafnframt ljóst að Oslóaryfirlýsingin er ekki um annað heldur en að ríkin

bindast sammælum um að efna til óskuldbindandi viðræðna og í þeim eru fyrirvarar. Það er líka ljóst að leiðtogar annarra EFTA-ríkja hafa lýst sérstöðu ríkja sinna með ýmsum hætti. Það reynir ekkert á hvort við Íslendingar setjum í alvöru sérstaka fyrirvara fyrr en vinnunni er þannig komið að við höfum eitthvað til þess að taka afstöðu til á grundvelli einhverra konkret mála eða málsniðurstaðna sem fyrir okkur eru lögð. Þannig að þau orð sem látin eru falla um þetta eru mestan part óþörf og lýsa óþörfum áhyggjum.
    Það var spurt um í sambandi við ferð hæstv. fjmrh. til Moskvu og viðræður þar við stjórnvöld hvort utanrrh. væri sáttur við frumkvæði Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég hef ekkert um það að segja. Ólafur Ragnar Grímsson nýtur ferðafrelsis. Hann var í Moskvu sem formaður, að ég hygg, alþjóðasamtaka, Parliamentarians for Global Action, og hann notaði tækifærið til viðræðna við sovéska ráðamenn. Það tel ég alveg sjálfsagðan hlut. Ég bað embættismenn mína um það að undirbúa hann fyrir fundinn, gefa honum upplýsingar um viðskipti Íslands og Sovétríkjanna og hann gaf greinargóða skýrslu um þær viðræður þegar hann kom til baka. Ég tek það fram að íslenskir ráðamenn aðrir sem fara til Sovétríkjanna hafa að sjálfsögðu rætt við sovéska ráðamenn og gefið um það skýrslur.
    Hvort fjmrh. hafi talað í nafni ríkisstjórnar á ráðstefnu í Osló? Svarið við því er alveg ljóst. Hann tók það sjálfur skýrt fram í þeim umræðum að hann talaði ekki í nafni ríkisstjórnar, heldur væri hann að lýsa hugmyndum sem væru hans eigin, en þær hugmyndir voru um það að ef áhugi væri á því meðal ríkisstjórna á Norðurlöndum, þá teldi hann skynsamlegt að efna til ráðstefnu til þess að undirbúa hugmyndir og tillögur, kveðja þar til vísindamenn, stjórnmálamenn og fleiri aðila til þess að undirbúa hugmyndir og tillögur um nýja áfanga að því er varðar afvopnun í og á höfum. Ég hef ekkert við það að athuga, ekki nokkurn skapaðan hlut.
    Þá vík ég að því hvað kom fram í frásögn og skýrslu hæstv. fjmrh. að því er varðaði viðræðurnar um viðskiptamál. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson beindi þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. og ég vil gjarnan svara því hér fyrir hans hönd, þrátt fyrir það að mér skilst að það hafi glumið hér í eyrum landsmanna í alla nótt eða seinustu klukkutímana að fjmrh. væri eftirlýstur að svara þýðingarmiklum spurningum á Alþingi, en hann hefur ekki komið í leitirnar enn. Því er til að svara að fjmrh. lagði fram í ríkisstjórn greinargerð þar sem hann skýrði frá þessum viðræðum sínum. Nú man ég ekki nákvæmlega hversu marga hann ræddi við, en mig minnir að hann hafi rætt við aðstoðarsjávarútvegsráðherra og aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra.
    Eitt meginumræðuefnið var að sjálfsögðu af hálfu Sovétmanna að útskýra perestrojku, hvar hún væri stödd, hvaða breytingar væru í aðsigi og hvernig þær breytingar hefðu áhrif á fyrirkomulag utanríkisviðskipta. Á það var bent að valdið ætti nú

að færast frá miðstjórnarkerfinu í Moskvu til lýðvelda og til fyrirtækja í lýðveldum og því aðeins gætu þessir aðilar gert bindandi samning um utanríkisviðskipti að þeir öfluðu sjálfir þess gjaldeyris sem þyrfti. Þetta þýddi að því er varðaði sjávarútveginn að þau ein fyrirtæki gætu verslað með fiskafurðir við Íslendinga sem sjálf hefðu til þess gjaldeyristekjur og þau gætu ekki aflað þeirra gjaldeyristekna nema með því að gera það í einhvers konar samstarfi við viðskiptalöndin. Þar kæmi ýmislegt til greina sem upp var talið, þar á meðal t.d. sameiginleg aðild að útgerðarfyrirtækjum, sameiginlegar veiðar á vannýttum stofnum en sér í lagi
væri eitt grundvallarskilyrði fyrir slíkum viðskiptum í framtíðinni og það væru veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Og á það var lögð mikil áhersla. Fjmrh. gerði rækilega grein fyrir því þegar hann fylgdi skýrslu sinni úr hlaði að þetta hlyti að valda okkur verulegum áhyggjum að því er varðaði framtíð viðskipta af þessu tagi og vegna þess að það er að mínu mati svo að þótt að þessu hafi verið ýjað almennt séð með vísan til þess sem kynni að gerast í framtíðinni, þá held ég að þetta hafi verið í fyrsta sinn a.m.k. að því er ég best veit sem það var sett fram með jafnafdráttarlausum og ákveðnum hætti af jafnáhrifamiklum mönnum í sovéska stjórnkerfinu.
    Um viðbrögð fjmrh. var það að segja að hann gerði viðmælendum sínum skilmerkilega grein fyrir því að þetta væri ekki á dagskrá að því er varðaði íslensk stjórnvöld því sú stefna væri ríkjandi að við værum ekki til viðtals um slíkt og hefðum hafnað slíkum kröfum frá Efnahagsbandalaginu árum saman.
    Hv. 1. þm. Suðurl. spurði með vísan til hvalamálsins hvað tæki við eftir að við hefðum lokið okkar lokaári núverandi vísindaáætlunar. Ég hef ekki svar við því. Sú stefna hefur ekki verið mótuð.
    Þá vék hann að undarlegri ritsmíð eftir aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins þar sem aðstoðarritstjórinn var eitthvað að reyna að bera blak af manni sem heitir Bill Evans og er starfandi í viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna. Sá maður fór í ákveðnum erindum bandarískra stjórnvalda til Japans og gerði Japönum þar ákveðið tilboð sem fór í bága við samkomulag sem Bandaríkjastjórn hafði við okkur gert. Um þetta höfum við öruggar heimildir og staðfestar heimildir, bæði innan japanska stjórnkerfisins og þess bandaríska. Við andmæltum þessu. Það var við það kannast og málið var látið niður falla þannig að athugasemdir Björns Bjarnasonar af því tilefni voru einfaldlega ekki teknar gildar og það er skýringin á því hvers vegna hlutirnir eru orðaðir með þeim hætti sem gert er í skýrslunni.
    Það er mikið spurt um varaflugvöll og það er spurt hvort Þjóðviljinn fari með rétt mál um það að áform utanrrh. hafi verið brotin á bak aftur og svo koma frýjuorðin, hvort utanrrh. ætli að láta kúga sig, og það eru látnar uppi grunsemdir um það að kannski megi ekki treysta utanrrh. í þessu máli o.s.frv. Og hvað er um þetta mál að segja? Ég hef lýst því skýrt og

skilmerkilega að ég geri ráð fyrir því, nema því aðeins að fram komi einhverjar veigamiklar röksemdir sem breyti þeirri afstöðu minni, að veita þessa heimild. Ég hef hins vegar ekki tekið þá ákvörðun og mun ekki taka hana í bráð.
    Spurt er hvort ég geti ekki lýst yfir stuðningi við þál. sem leiði í ljós álit Alþingis í því efni. Mitt svar við því er ósköp einfaldlega það: Ég þarf enga þál. til þess að skora á sjálfan mig að framkvæma hlut sem ég er fylgjandi að því er mig varðar persónulega.
    Það er hins vegar ekki ástæðulaust að spyrja til baka út frá þessum hugmyndum um varaflugvöll hvernig á því stóð, þegar sjálfstæðismenn fóru með bæði samgöngumál og utanríkismál, að þeir létu ekki þessa könnun fara fram og hvernig á því stóð að þáv. samgrh. Matthías Bjarnason tók, af ástæðum sem mér er ókunnugt um hverjar voru, þá ákvörðun að verja 1 millj. kr. til þess að láta fara fram könnun hér innan lands á vegum innlendra aðila. Ég held a.m.k. að þeir sem ætla að hafa uppi stór frýjuorð í minn garð geti sparað sér þau. Ég gekk nefnilega hreint til verks í þessu máli og í ljósi þeirra orða sem í stjórnarsáttmála standa, og slík orð ber að virða og standa við, að ekki skuli í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar efnt til meiri háttar nýrra hernaðarframkvæmda, þá gekk ég úr skugga um það að afla allra upplýsinga sem fáanlegar væru um þetta mál og m.a. rækilega að fara ofan í saumana á því hver væru skilyrði Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins og Atlantshafsbandalagsins yfirleitt. Og ég hef fært á það sönnur sem ekki hafa verið hraktar að þetta mannvirki, ef byggt yrði, yrði ekki notað nema sem venjulegt samgöngumannvirki á friðartímum. Um það færi síðan á ófriðartímum svo að um það yrði gerður samningur og það þýðir að þetta mannvirki yrði notað á ófriðartímum á nákvæmlega sama hátt og flest önnur samgöngumannvirki og flest önnur mannvirki sem við kunnum upp að telja. Þetta hef ég gert. Þetta var ekki gert í stjórnartíð sjálfstæðismanna og þar með er borðið hreint að því leyti að það er ekki verið að brjóta neinn stjórnarsáttmála þótt forkönnunin yrði heimiluð.
    Er þetta partur af einhverri Norðurlandaáætlun Gorbatsjovs? Nei. Hvað gerist ef niðurstaðan yrði sú að þetta yrði ekki heimilað? Það gerist það eitt að Atlantshafsbandalagið mundi þá byggja þetta mannvirki annars staðar. Það mundi ég harma ef svo færi. Ég met málið svo að mannvirkið yrði þar miklum mun verr komið.
    Um heræfingar. Er hann nú byrjaður að bogna? Er hann að láta undan? Boðar það einhver sinnaskipti? Er verið að slá af? spyrja sjálfstæðismenn. Hvers vegna svona spurningar? Af hverju svona fáfengilegar spurningar? Staðreyndir málsins eru ósköp einfaldlega þessar: Bandaríkjamenn höfðu uppi áform um það að hér færu fram heræfingar þar sem virkir utanaðkomandi þátttakendur væru 1040 manns, 800 í varaliði og 240 úr stórfylki fastaliðs Bandaríkjanna í
Kaliforníu. Þar fyrir utan margir eftirlitsaðilar og stjórnendur.

    Áformin voru auðvitað löngu kynnt og voru þekkt úr tíð forvera minna. Spurningin var hins vegar sú hvort við ætluðum að leggja eitthvert sérstakt mat á það sjálfir hvort þessar æfingar færu fram, hvenær þær færu fram, hvar þær færu fram, hvernig þær væru skipulagðar, hvaða markmiðum þær þjónuðu o.s.frv. Mér skilst að af hálfu forvera minna hafi aldrei verið lagt sjálfstætt mat á það heldur hafi vinnubrögðin verið þau að áformin hafi verið tilkynnt og vinnureglan síðan verið sú, og hún er algeng innan NATO, að ef ekki eru gerðar athugasemdir þá er litið á það sem ákvörðun eða samþykki. Og eftir því sem ég best veit hafa aldrei verið gerðar athugasemdir eða framkvæmt sérstakt mat á slíkum áformum eða beiðnum fyrr en nú.
    Ég vitnaði til þess áðan að sjálfstæðismenn hafa haft orð á því að þeir vildu að við fylgdum sjálfstæðri utanríkisstefnu, hefðum til þess burði að leggja sjálfstætt mat á svona hluti. Til þess vildum við koma okkur upp sérfræðingum. Ég er algjörlega sammála því. En hvers vegna þá að gagnrýna það þegar slíkt mat er framkvæmt og íslenskur utanrrh. kemst að slíkum niðurstöðum? Ákvörðunin var sú að breyta tímanum. Það mál vel vera að ég hefði haft uppi óskir um að breyta honum enn frekar og ég hefði haft lengri aðdraganda að því máli, en það var ljóst að það var ekki unnt nema með því að kollvarpa þá öllu því mikla undirbúningsstarfi sem hafði verið lagt í þetta mál. Það vildi ég ekki gera. Ég fækkaði þátttakendum eftir að hafa kannað það mjög rækilega hvort slík fækkun mundi í nokkru raska eða koma í veg fyrir að tilgangur, markmið æfinganna gæti skilað sér. Hvers vegna að vera að fækka? Jú, hvers vegna ekki? Ef æfingarnar geta farið fram og skilað sínum árangri þrátt fyrir fækkun, hvers vegna ekki að verða við óskum sem eru bornar uppi hér af samstarfsaðilum og á Alþingi um það að Íslendingar gefi slíkt merki frá sér að það verði reynt að hafa hóf og hemil á slíkum æfingum jafnvel þó að þær séu að vísu svo smáar í eðli sínu að þær séu ekki tilkynningaskyldar? Ja, það er allt í stakasta lagi, heyri ég.
    Það hefur eiginlega vakið athygli mína að það hefur lítið sem ekkert verið rætt um samskiptin við varnarliðið út frá því sem þarna hefur verið sagt í skýrslunni um Aðalverktaka. Þar var þó undantekning hv. þm. Benedikt Bogason sem vék að því máli. (Gripið fram í.) Já, er það. Ég harma það að ég hef misst af hinni merku ræðu formanns utanrmn.
    Ég hef lýst þeirri skoðun minni að núverandi fyrirkomulag verktöku í þágu varnarliðsins sé óeðlilegt og ég hygg að það séu ekki pólitískar forsendur í landinu fyrir því að halda því kerfi óbreyttu mikið lengur. Þetta mál hefur lengi verið til umræðu. Ég minnist þess að við alþýðuflokksmenn beindum mjög mörgum og ítarlegum spurningum til þáv. hæstv. utanrrh. um Aðalverktaka á sínum tíma. Þá var lögð fram hér skýrsla um það mál. Í tíð forvera minna hefur verið unnið að tillögugerð um hvað skuli gera, hvaða breytingar eigi að framkvæma og ég hef að sjálfsögðu notað tímann til þess að skoða þær tillögur

allar og kynna mér starfsemi Aðalverktaka, reyna að leggja mat á það hvernig ástandið er, hvernig kerfið er og þær tillögur sem fram hafa komið um breytingar.
    Aðalverktakar eru risavaxið fyrirtæki, fjárhagslega voldugt. Það er sameignarfyrirtæki samsteypuverktaka, Sameinaðra verktaka, annars verktakafélags sem Reginn heitir og kennt er við samvinnumenn og ríkisins. Ríkið á einungis fjórðung í þessu fyrirtæki. Þetta fyrirtæki hefur hlaðið upp miklum auð í skjóli milliríkjasamnings, samnings sem íslenska ríkið gerði við annað ríki. Eiginfjárstaða þess er gríðarlega sterk. Það á geysilega fjármuni víða í hinu íslenska fjármálakerfi. Þeir menn sem þessu fé stýra hafa gríðarlegt vald og það getum við kannski kallað dulið vald og spurning hvort það er ábyrgt vald. Tillögurnar sem uppi hafa verið um að breyta þessu hafa verið margar, allt frá tillögum t.d. verktaka um það að það eigi að afnema svona kerfi og opna verktakamarkað sem formaður Sjálfstfl. lýsti sem t.d. sínum hugmyndum. Það hafa líka verið tillögur um það að skipta þessu fyrirtæki upp, að slíta þessu sameignarfyrirtæki, að stofna almenningshlutafélag um þetta. A.m.k. hafa menn verið að leita að leiðum til þess að opna þetta fyrirtæki, annaðhvort fyrir þátttöku almennings í landinu nú eða opna það með eðlilegum hætti fyrir starfsemi annarra verktaka o.s.frv. Hér hefur aðeins verið gert tvennt að svo stöddu eftir sex mánaða aðdraganda og það er að tekist hefur samkomulag um það að ríkið fær tvo fulltrúa í stjórn og jafnframt er kunnugt að það er gert ráð fyrir því að ríkið ráði sérstakan forstjóra að þessu fyrirtæki. Jafnframt hefur verið bókað að aðilar séu sammála um að taka upp viðræður um breytingar á eignaraðild og eignarhlutföllum í þessu fyrirtæki. Þar með er málið komið nokkuð á rekspöl og það gæti orðið upphaf að breytingum sem eru löngu, löngu tímabærar og skipta mjög miklu máli. Ég held að gallinn við þá skoðun sem formaður Sjálfstfl. lýsti, að opna bara þarna fyrir almennan verktakamarkað, sé svo augljós að það sé ekki unnt að leysa málið á þeim grundvelli.
    Ég hef þegar svarað fyrirspurnum hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar um
viðræður við Sovétmenn þar sem þeir hafa sett fram sínar hugmyndir um veiðiheimildir í íslenskri lögsögu og svör við því. Að því er varðar hafréttarmálin, þar sem kom fram gagnrýni að við hefðum ekki fylgt nægilega vel eftir því frumkvæði sem við höfum haft annars vegar á norðurslóðum, þ.e. varðandi það að ná samkomulagi um skiptingu gráa svæðisins þar og svo hins vegar að því er varðaði Rockall, þá vil ég samt sem áður taka það fram að þetta mál hefur ekki legið í láginni, sbr. það sem um það er sagt í skýrslunni og sbr. bréfaskriftir forsrh. við forsrh. Breta.
    Að því er varðar boðaða og áformaða fundi með embættismönnum og sérfræðingum út af norðurslóðamálinu, þá er það svo að ég ræddi það mál t.d. við Uffe Elleman Jensen í opinberri heimsókn og viðræðum við danska utanríkisráðherrann sem m.a. taldi sig þá vera í erfiðri stöðu meðan deilur þeirra og

Norðmanna væru í gangi. Upplýst hefur verið af forsrh. að Norðmenn væru nokkuð hikandi í þessu máli, m.a. vegna þess að þeir eiga í nokkuð erfiðum viðræðum við Sovétmenn á Barentshafi og það hafi nokkur áhrif á þetta.
    Að því er varðar Rockall, þá er það svo að ein ástæðan fyrir því að fundi nr. 2, milli embættismanna um það mál, var frestað er sú að samkvæmt mati vísindamanna okkar sjálfra, þá liggja ekki fyrir endanlegar niðurstöður sem þeir eru að bíða eftir, ég er að vitna í Guðmund Pálmason hjá Orkustofnun, en þeirra sé hins vegar að vænta. En þær þurfa að liggja fyrir áður en embættismannafundur verður haldinn aftur. Ég vil því árétta að það er kannski ekki alveg sanngjarnt að segja að menn hafi lagt upp laupana. Málunum hefur verið haldið vakandi og ég held að ég geti fullyrt að þau verði ekki látin niður falla. Hins vegar má kannski segja að drátturinn að því er þetta varðar á því að íslenskir vísindamenn telji sig tilbúna til þess að setjast þarna að samningaborðinu nægilega vel undirbúnir, það er þá okkar verkefni núna að reka á eftir því.
    Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hreyfði þeirri hugmynd hvort ekki væri orðið tímabært að Íslendingar gerðust aðilar að Vestur-Evrópusambandinu, West-European Union sem er m.a. sameiginlegur umræðuvettvangur um varnarmál. Það mál hefur verið rætt í ráðuneytinu og ég mundi jafnvel orða það svo að það væri í skoðun. Ég er því sammála að það væri vafalaust þarft. Spurningin er hins vegar sú hvort við erum að dreifa kröftunum um of vegna þess að verkefnin sem við er að fást eru ærin.
    Að því er varðar spurningar hv. þm. Geirs H. Haarde, þá hef ég þegar svarað þessum spurningum um varaflugvöll.
    Spurningar sem varða atkvæðagreiðslur í Sameinuðu þjóðunum, ég hef svo oft fjallað um það að ég held ég þurfi ekki að rekja það í löngu máli.
    Fyrirvara að því er varðar Oslóaryfirlýsingu. Því hefur þegar verið svarað.
    En þá er eftir hið stóra mál sem varðar afvopnun í höfunum þar sem mér var borið á brýn að við hefðum farið fram afar ógætilega og reyndar kannski jafnvel rofið trúnað við samstarfsaðila okkar með þeim orðum sem látin voru falla í ræðu utanrrh. í Vín sem embættismaður flutti. Það kemur skýrt fram í skýrslu utanrrh. að það var samkomulag bæði innan Atlantshafsbandalagsins og reyndar við Varsjárbandalagið um grundvöll afvopnunarviðræðnanna í Vín, þ.e. að þær skyldu snúast um afvopnun að því er varðaði heri og venjulegan vopnabúnað. Það er skýrt tekið fram í skýrslunni að við erum ekki að gera ágreining um það eftir á. Það sem við gerðum hins vegar var það að segja: Það er augljóst lífshagsmunamál Íslendinga að næsti áfangi afvopnunarviðræðna snúist um afvopnun á og í höfunum. Það var skýrt tekið fram í þessari ræðu að við gerðum okkur fulla grein fyrir þeim mun sem er á Varsjárbandalagi og Atlantshafsbandalagi að

því er varðar það að annað er fyrst og fremst meginlandsbandalag, hitt er byggt á sjóflutningum milli tveggja heimsálfa og má þess vegna kalla Atlantshafið líflínu þar á milli, full grein gerð fyrir þeirri sérstöðu. En engu að síður var því haldið fram að lífshagsmunir Íslendinga krefðust þess að Atlantshafsbandalagið, þó það hafi ekki verið sagt í þessari ræðu, að Atlantshafsbandalagið eða við í samstarfi við bandamenn okkar legðum á það áherslu að næsti áfangi afvopnunarviðræðna snerist um þessi mál. Hvers vegna vera að orða þetta við upphaf afvopnunarviðræðna sem ekki snerust um þetta? Það er vegna þess að í hinum almennu ráðherraræðum voru menn ekki bara að fjalla um afvopnunartillögurnar sem fyrir lágu. Menn töluðu um fjöldann allan af öðrum þáttum afvopnunarmála. Þannig ræddi t.d. utanríkisráðherra Sovétríkjanna um aðgerðir Sovétmanna að því er varðaði eiturefnavopn. Það gerði utanríkisráðherra Bandaríkjanna líka. Hann hélt sig ekki við þetta eina umræðuefni þannig að við það var út af fyrir sig ekkert að athuga.
    Það sem mér finnst skrýtið er það að þegar fullur þriðjungur af ræðu utanrrh. snýst um þetta mál, og ræðan nokkuð löng, og þegar þessum málum eru gerð svona rækileg skil í skýrslu utanrrh., þá skuli viðbrögðin vera fyrst og fremst þau að spyrja hvort það hafi verið brot á formalisma að einhver orð voru uppi höfð í ræðu í Vín, þar sem ekki var reyndar annað sagt heldur en að við óskuðum eftir því að í náinni framtíð yrði þetta meginmálið.
    Við erum hér að fjalla um gríðarlega stórt mál. Og sá sem segir: Við viljum leggja sjálfstætt mat á íslenska hagsmuni, hann getur ekki sagt: Við framseljum það í hendur öðrum þótt bandamenn séu og sættum okkur við það að láta slík mál niður falla, ræða þau ekki. Ég vitna til þess að forveri minn, Geir Hallgrímsson, fyrrv. utanrrh., hafði árið 1984 uppi sterkari orð en ég gerði þarna af þessu tilefni um að það væri sérstakt áhugamál og hagsmunamál Íslendinga. Spurningin um það hvernig við ætlum að fara fram í þessu máli, hvort við ætlum að gera það í samvinnu við bandalagsþjóðir okkar, þetta stendur alveg skýrum stöfum í mínum málflutningi og minni skýrslu, að við eigum að taka þetta mál upp innan Atlantshafsbandalagsins. Og af því að þar er verið að vinna að endurskoðun á varnarmálastrategíu Atlantshafsbandalagsins undir hugtakinu Comprehensive Concept, þá ber okkur að sjálfsögðu skylda til að koma þeim hugmyndum á framfæri.
    Ég spyr fulltrúa Sjálfstfl. sem fyrst og fremst hafa uppi þennan málflutning: Hver er þeirra stefna í þessu máli? Hvaða afstöðu hafa þeir til þess máls sem snýst um traustvekjandi aðgerðir á höfum og afvopnun á og í höfunum? (Gripið fram í.) Ég spyr að gefnu tilefni. Hefur Sjálfstfl. mótað sér afstöðu í þessu efni? Talar Sjálfstfl. einum rómi í þessu máli? (Gripið fram í.) Ég spyr sjálfstæðismenn, talsmenn Sjálfstfl. í þessari umræðu: Hver er afstaða Sjálfstfl. til þessa máls? Og ég vek athygli á því ... ( GHH: Hvernig væri að svara spurningum ...?) Já, ég var að svara þeim. Og ef ég

þarf að endurtaka það, þá skal ég gera það.
    Í fyrsta lagi er því yfirlýst að við munum vinna að undirbúningi að stefnumótun í samstarfi við samstarfsmenn.
    Í annan stað var það sagt í þessari ræðu, og ekki brot á neinum reglum, að við óskuðum eftir því og legðum á það áherslu að í náinni framtíð yrði þetta næsti áfangi afvopnunarmála.
    Síðan var spurt: Hefur hæstv. utanrrh. kannski fengið einhverjar athugasemdir? Það kom nefnilega fram í ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde að hann hefði verið spurður út um þetta af fulltrúa ríkis sem ekki var nefnt. Já, það er nefnilega rétt. Það hafa verið gerðar athugasemdir við þetta. Það er ekki fullkomin eining um þetta mál og ekkert óeðlilegt við það.
    Ég er t.d. spurður, svo að ég víki að tengdu máli: Hver er afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar til spurningarinnar um endurnýjun skammdrægra kjarnavopna? Og í skýrslu minni stendur að við teljum það ekki útilokað. Hver eru tengslin þarna á milli?
    Í fyrsta lagi er það ljóst að af hálfu vestur-þýskra stjórnvalda og í Vestur-Þýskalandi hefur verið lýst miklum áhyggjum út af þessu máli af þeirri einföldu ástæðu að verði þessar flaugar endurnýjaðar, þá er ætlunin að þær verði á þýsku landi. Ríkisstjórn Kohls kanslara er veik og hún hefur haft uppi málflutning um það að það eigi ekki að taka afstöðu til þessa máls strax. Vel má vera.
    Ef afvopnunarviðræðurnar í Vín skila árangri í samræmi við þær vonir sem vaktar hafa verið þegar tillögur beggja bandalaga liggja nú fyrir og ef sá árangur verður fyrr heldur en svartsýnustu menn ætla, þá hefur það auðvitað áhrif á þessa spurningu. Því að hvers vegna þarf Atlantshafsbandalagið og hefur þurft hingað til að reiða sig á kjarnavopn og þá m.a. skammdræg kjarnavopn? Það er vegna hinna massívu yfirburða Varsjárbandalagsins í hefðbundnum vopnum sem eru byggð m.a. á árásarherfræði, þ.e. þetta er vopnabúnaður, bæði yfirburðir að magni og mannafla byggður á kenningu um leiftursókn, töku lands og það að halda landi. Ef sá tími er kominn og hann verður staðfestur í afvopnunarsamningunum í Vín, að það takist að ná jafnvægi í hefðbundnum vopnabúnaði, þá breytir það auðvitað þessum þætti hernaðarstrategíu Atlantshafsbandalagsins. Þess vegna er það ósköp rökrétt að við segjum: Það á ekki að byrja á því í þessum samningaviðræðum að segja: Þær verða ekki endurnýjaðar. Það á að áskilja sér réttinn til þess að meta það þegar búið er að leggja prófstein á afvopnunarvilja Sovétríkjanna í Vín.
    Og Íslendingar eiga sérstaklega að fylgjast vel með þessu máli vegna þess að ef því er yfir lýst að þær verði felldar niður, þá skulu menn ekki velkjast í vafa um það að hætta er á því að ef ekki þessum flaugum sjálfum heldur þá öðrum skammdrægum flaugum verði komið fyrir í höfunum. ( GHG: Það er yfirlýst.) Nei, nei, það er ekkert yfirlýst. ( GHG: Jú. Það hefur víst komið fram.) Ja, það hefur margt komið fram í því máli. Ég get út af fyrir sig vitnað í tiltölulega nýlegt viðtal við Johann Jörgen Holst, varnarmálaráðherra

Noregs, í Arbeider-blaðinu í Noregi í fyrri viku þar sem hann vitnar til þess að af hálfu þýskra stjórnvalda --- hann vitnar að vísu í opinbera embættismenn --- þá hafi því sjónarmiði verið hreyft að nær væri að koma þessum flaugum fyrir í hafinu.
    Til þess að ekkert fari nú á milli mála í þessu máli, þá vil ég endurtaka: Utanrrh. Íslands lét sendiherrann í afvopnunarviðræðunum í Vín hafa uppi þessi orð til þess að það yrði heyrum kunnugt að við teldum að næsti áfangi í afvopnunarviðræðum ætti að fjalla um þessi mál. Var búið að greina
starfsbræðrum utanrrh. frá þessari tillögu? Svarið við því er þetta: Forverar mínir þrír hafa innan Atlantshafsbandalagsins og annars staðar á alþjóðavettvangi og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna lýst þessu sem megináhugamáli og hagsmunamáli Íslendinga. Og það er rétt að það komi fram líka að í viðræðum mínum við utanríkisráðherra Bandaríkjanna í ársbyrjun var þetta eitt af helstu umræðuefnum okkar, þar sem ég lýsti því mjög ákveðið yfir að þetta væri sérstakt hagsmuna- og áhugamál Íslendinga. Og fram kom af hans hálfu að þrátt fyrir alla eðlilega fyrirvara Bandaríkjanna að því er varðaði takmörkun á flotauppbyggingu Atlantshafsbandalagsins miðað við líflínu Atlantshafsbandalagsins, þá teldi hann ekkert því til fyrirstöðu að kanna vissa þætti þess máls eins og t.d. takmarkanir á Cruise Missiles um borð í kafbátum. Að sjálfsögðu um leið og athugasemdir bárust eða fyrirspurnir um það í hverju þessi stefnumótun væri fólgin, þá var þeim fyrirspurnum svarað rækilega innan Atlantshafsbandalagsins og ég veit ekki betur en þau svör hafi þótt fullnægjandi.
    Ég varði miklum hluta af ræðu minni til þess að fjalla um þessi mál. Ég vitnaði m.a. í Johan Jörgen Holst, varnarmálaráðherra Noregs, og ég vísa til þess sem um það sagði í minni ræðu, þar sem ég vitnaði í fyrirlestur sem hann flutti í Kanada þar sem hann gerir grein fyrir mörgum hugmyndum sem þurfi að kanna um þessi mál. Ég hika ekkert við að segja að það er eðlilegt að land eins og Ísland og að land eins og Noregur sinni þessum málum sérstaklega, hafi af þeim meiri áhyggjur en kannski önnur lönd, hafi með sér náið samráð um að skiptast á skoðunum um þessi mál og leggi jafnvel jafnframt fram vinnu sérstaklega til þess að meta rækilega allar fram komnar hugmyndir og tillögur sem eru skoðunar verðar um þetta.
    Þetta er allt unnt að gera án þess að rjúfa samstöðu innan Atlantshafsbandalagsins eða kollvarpa nauðsynlegu öryggi Atlantshafsbandalagsins á Norður-Atlantshafsleiðinni. Að sjálfsögðu --- og það kemur skýrt fram í mínu máli --- gerist það því aðeins að hér verði um að ræða gagnkvæma samninga og lausnin getur ekki byggst á svæðisbundnum lausnum. En ég minni á að í ræðu minni er lýst hugmyndum og tillögum sem fram hafa komið eitthvað 10--15 talsins og ég vitna í fyrirlestur Johans Jörgens Holst, viðtöl við hann. Það er reyndar hægt að vitna í annað. Það er hægt að vitna í ályktun

þingmannasambands NATO, sem ég man ekki betur en hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson segði að væri mjög virt stofnun. ( GHG: Já.) Já, mjög virt stofnun og ályktar sérstaklega um nauðsyn þess að ... (Gripið fram í.) Það stendur í ályktun þingmannasambandsins, án þess að ég sé að þýða það: ,,Urges the North-Atlantic Alliance to explore naval confidence building measures.`` Og auðvitað eigum við að gera það. ( GHG: Það er undirnefnd í þessu meira að segja.) Einmitt. Gott. Þá er það fram komið.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen fann að því að í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar væru ekki upp talin þau alþjóðasamtök sem eru nánast ramminn utan um milliríkjasamstarf okkar og þar á meðal er Atlantshafsbandalagið ekki nefnt á nafn. Það er alveg rétt. Það er ekki nefnt á nafn. En Sameinuðu þjóðirnar eru heldur ekki nefndar á nafn og Norðurlandaráð, m.a.s. sjálft Norðurlandaráð er ekki nefnt á nafn, hvað þá heldur samtök eins og Fríverslunarsamtök Evrópu eða þess háttar. Það er bara ekki talað um svoleiðis. Það liggur hins vegar alveg ljóst í orðanna hljóðan að við ætluðum okkur að halda áfram að starfa í þessum samtökum, Atlantshafsbandalaginu, Sameinuðu þjóðunum, Norðurlandaráði, Fríverslunarsamtökunum og m.a.s. ýmsum öðrum alþjóðasamtökum þannig að það er nú ekki mikill mælikvarði á stefnuna.
    Ég held að frýjuorð sem hann fór með um það að hæstv. fyrrv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, hafi sko ekki látið beygja sig í samstarfi við Alþb. þegar það var með kröfur um að stöðva nýframkvæmdir, eigi ekki sérstakt erindi við mig. Ég beini enn þeirri spurningu til baka til þeirra sjálfstæðismanna: Hvað dvaldi orminn langa þegar þeir fóru með utanríkis- og samgöngumálin og ákváðu af einhverjum mér óskiljanlegum ástæðum að breyta þeirri könnun þá sem snerti varaflugvöll í 1 millj. kr. framkvæmd og innlenda framkvæmd. Þeir sem hafa uppi frýjuorð nú mættu líta í eigin barm.
    Athugasemd hæstv. fyrrv. utanrrh. um undirmálskarfann hans Uffe Ellemans Jensen fannst mér í hæsta máta ósmekkleg vegna þess að þegar íslenskur utanrrh. segir það fullum fetum í viðtali við danska fjölmiðla að hann hafi ekki orðið var við stuðning danskra stjórnvalda eða ríkisstjórna Norðurlanda við málstað Íslendinga eða norðurhjarabúa í hvalveiðimálum er svarið að danskur utanríkisráðherra leggur á borð undirmálskarfa í öskju og segir það sem tákn um stuðning dönsku ríkisstjórnarinnar við íslenskan málstað. Og hann fékk reyndar verðug svör. Hann fékk þau svör að við þessari smánargjöf væri ekki tekið af þeirri einföldu ástæðu að ég vissi ekki til þess að danskur utanríkisráðherra hefði nokkurn kvóta í færeyskri fiskveiðilögsögu, fyrir utan það að við sem atvinnumenn þægjum ekki undirmálsfisk, sem ætti að fleygja fyrir borð, af amatörum sem væru að gutla kvótalausir út um Ballarhaf og dugði
það svar bærilega. Og ef hæstv. fyrrv. utanrrh. vildi með orðum sínum taka undir málflutning Dana í þeim

málum, þá veit ég ekki hvert hann var að fara. Ég held að hann hafi ekki vitað það sjálfur.
    Ég hef þegar svarað spurningum hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar að því er varðar varaflugvöll. Spurninguna um það hvort mér sé kunnugt um Murmansk-ræðu Gorbatsjovs og hvað í henni fólst, þá er svarið já. Hv. þm. hefur gert grein fyrir því sjálfur.
    Spurningunni um utanríkisviðskiptin, hvort til standi að gera utanríkisviðskiptaskrifstofuna í utanrrn. að einhverju bákni, þá er svarið nei. Þar starfa núna í fullu starfi fjórir menn. Einn sinnir einkum og sér í lagi Austur-Evrópuviðskiptum, einn sinnir einkum og sér í lagi EFTA- og EB-málum og er jafnframt ritari EB-nefndar, einn sinnir einkum og sér í lagi veitingu útflutningsleyfa og einn almennum störfum. Þetta er nú ekki mikið bákn. Það eru ekki áform um að gera þetta að neinu bákni. Það eru uppi áform um það að útflutningsleyfin eða öllu heldur stýringin ef hún á einhver að vera á útflutningi á gámafiski og ferskum fiski fari úr ráðuneytinu. En þar hefur verið lýst ýmsum hugmyndum um aflamiðlun. Það hefur líka verið lýst eftir fiskvinnslustefnu. Að þessu máli er unnið innan ráðuneytisins í samstarfi við sjútvrn. og aðra aðila. Engu að síður er gert ráð fyrir því að leyfaveitingin sjálf sé í höndum ráðuneytis og svo er hérna enn spurningin um eflingu á eftirliti. Ég tel það mjög æskilegt að stuðla að auknu útflutningsfrelsi og það hafa verið stigin ákveðin skref í þá átt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að reynslan kenni mönnum oft að það er verið að stýra mörkuðum og það kann að þurfa að gera það. Hitt er svo niðurstaðan af skipulagshugmyndum okkar að það er brýn nauðsyn á því að efla þann þátt í starfi viðskiptaskrifstofunnar sem lýtur að stefnumótun og að því er stefnt með skipulagsbreytingunum.
    Hvernig er ætlunin að auka starf að varnar- og öryggismálum? spurði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Það er í fyrsta lagi gert með því að væntanlegur er heim starfsmaður, sérstakur varnarmálafulltrúi, sem hefur orðið nokkra starfsreynslu í störfum sínum á vegum Atlantshafsbandalagsins. Í annan stað með því að auka sérhæfingu í alþjóðaskrifstofu og fela þar sérstökum starfsmanni að fást við afvopnunarmál.
    Hvernig hyggjumst við taka þátt í afvopnunarviðræðum? Sérstakur sendiherra hefur sinnt þeim sem aukastarfi hingað til. Áform eru uppi um það að fela sérstökum starfsmanni hjá fastanefnd Íslands hjá NATO að sinna þeim málum framvegis.
    Hvaða skoðun hef ég á þeim hugmyndum sem hv. þm. hefur lýst varðandi stofnun sérstaks varnarmálaráðuneytis eða nýjum hugmyndum sem hann nú lýsti um sérstakt sameinað ráðuneyti innanríkis- og öryggismála, þar með talið löggæslu- og dómsmál? Ég hef ekki tekið fyrir fram afstöðu til þess. En ef ég er spurður hvort núverandi kerfi dugi, þ.e. að einn maður geti út af fyrir sig sinnt þeim verkefnum sem utanrrh. nú sinnir, þá er ég þeirrar skoðunar að öllu samanlögðu að það geti hann vel.

Það geti hann hins vegar með því að framkvæma þær hugmyndir sem lýst hefur verið um endurskipulagningu og meiri sérhæfingu.
    Í raun og veru má hins vegar spyrja ef verið er að hreyfa hugmyndum um sérstakt varnar- og öryggismálaráðuneyti: Þarf ekki að ganga lengra? Er kannski verið að ýja að því að nauðsynlegt sé að taka upp stofnun á innlendum her eða innlendri varnarstarfsemi? Eða búa á bak við það einhverjar aðrar hugmyndir umfram þær sem ég hef þegar lýst um aukna þátttöku Íslendinga í varnarsamstarfinu?
    Hv. þm. Benedikt Bogason vék að verktökunni fyrir varnarliðið og spurði sérstaklega: Er ekki ástæða til þess að Íslendingar taki í auknum mæli í sínar hendur hönnun á framkvæmdum? Það er mál sem mér þykir vert að skoða en viðurkenni að athygli minni hefur ekki verið beint að því sérstaklega hingað til.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson lýsti þeirri skoðun sinni að miðað við upplýsingar um tilkostnað gæti verið skynsamlegt af Íslendinga hálfu að gerast fullgildir meðlimir að Mannvirkjasjóðnum og ég er reyndar sammála honum í þeirri skoðun.
    Ég er ekki sammála þeim sem létu þau orð falla að ræða hv. 2. þm. Austurl. væri einhver sérstök fornaldarspeki. Mér þótti ræðan á margan hátt athyglisverð, ítarlega rökstudd. Það er alveg ljóst að við erum ekki skoðanabræður í öllum málum, ég og hv. 2. þm. Austurl., en ég kann hins vegar vel að meta það þegar menn leggja mikla vinnu í sinn málflutning og reyna að færa rök fyrir sínum málum. Það sem hann sagði um endurmat á alþjóðamálum var um margt athyglisvert. Það gæti verið gaman að ræða það í góðu tómi með meiri tíma við hv. þm. en ég ætla að spara mér það í þetta skiptið.
    Ég vil vekja athygli á því af því að hv. þm. komst svo að orði að Alþb. væri sá flokkur sem ætti í ýmsum málum meiri samleið með krataflokkum, jafnvel meiri samleið heldur en Alþfl. íslenski. Þá vona ég að það stefni að því, það stefni hægt og örugglega í þá átt. Ég vek samt athygli hans á því að
flestallir jafnaðarmannaflokkar í Evrópu eru eindregnir stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins. Sama gildir reyndar um flokka sem ekki eru í alþjóðasambandi jafnaðarmanna. Það á við um ítalska Kommúnistaflokkinn. Einmitt vegna þess að þeir hafa tekið afstöðu sína til Sovétríkjanna til endurmats og gerðu það fyrir löngu síðan.
    Það er ákaflega fróðlegt fyrir jafnaðarmenn í Vestur-Evrópu að heyra það beint og milliliðalaust af vörum forustumanna kommúnistaflokka í Austur-Evrópu, hvort heldur er í Póllandi eða í Ungverjalandi eða jafnvel hjá sumum talsmönnum perestrojku í Sovétríkjunum, að þeir séu reyndar allir saman lýðræðissinnaðir jafnaðarmenn nú til dags. Það er hugmyndaþróun sem hv. þm. kannast við og það er ein meginástæðan fyrir því að það er svolítið friðvænlegra í heiminum. Og við getum gert okkur vonir um að undirrót kalda stríðsins, sem var kúgunarkerfið sovéska og ótti manna við það á Vesturlöndum, fari að breytast. Um það vona ég að

við hv. þm. getum verið að verulegu leyti sammála.
    Að því er varðar einstakar spurningar, þá hef ég þegar svarað spurningunni um afstöðu mína til endurnýjunar skammdrægra kjarnaflauga.
    Ég held að það sé ekki sérstök ástæða til þess að fara út í upprifjun á fyrri rökræðum um afstöðu til einstakra tillagna hjá Sameinuðu þjóðunum. Hv. þm. endurtók sínar röksemdir. Ég gerði rækilega grein fyrir því á sínum tíma hvaða rök væru fyrir minni afstöðu og ég hef ekki breytt þeirri afstöðu í neinu.
    Hv. þm. gaf í skyn, ef ég skildi hann rétt, að slysið um borð í Iowa hefði hugsanlega verið kjarnorkuslys. Ég hef ekki þær heimildir. Reyndar held ég að það sé hreinlega ekki upplýst. Ég held að það hafi verið sett upp nefnd til þess að kanna það mál. Hún hefur ekki skilað sínum niðurstöðum. En sjónar- og vitundarvottar voru einfaldlega ekki til frásagnar. Þetta var hörmulegt slys og óþarfi að orðlengja um það úr því að það hefur út af fyrir sig ekki verið upplýst.
    Að því er varðar spurninguna um incidents, sem svo hafa verið kallaðir, og varðar bandaríska flotann, þá höfum við svolítið skipst á skoðunum. Í ræðu minni vék ég að því máli og vitnaði þar í opinberar upplýsingar sem við höfðum óskað eftir að fá frá bandaríska flotanum, höfðu verið þýddar á íslensku og birtar í íslenskum blöðum. Þar er því haldið fram að þessir atburðir hafi verið mun fleiri en sagt var í grg. með þáltill., en hins vegar vantaði skilgreiningu þar á því til hvaða hluta þetta tæki. Nú hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson afhent mér heimild sína sem eru gögn frá fulltrúum félagsskapar sem heitir American Friend Service Committee, þ.e. frá félagsskap kvekara og einstaklingi í þeim félagsskap sem hefur fjallað um þessi mál og er, ef ég skil rétt, formaður friðarfræðslunefndar á vegum kvekara. Nú er það út af fyrir sig fróðlegt að kynnast því með hvaða hætti þessar upplýsingar frá bandaríska flotanum voru opinberaðar, en þær upplýsingar sem hér liggja fyrir breyta engu um það sem ég fullyrti eftir hinum opinberu heimildum, að það er ekki um að ræða neitt atvik sem getur kallast kjarnorkuslys í þeim skilningi að það hafi orðið til þess að spilla náttúrulegu umhverfi þannig að mælanleg áhrif hafi verið greind. Í þeim skilningi lít ég svo á að orðalag í grg. hv. þm. með tillögunni sé villandi vegna þess að það verður ekki lesið á annan hátt en þann að þarna hafi verið um að ræða meiri háttar slys og raunveruleg kjarnorkuslys þannig að ég held að við þurfum út af fyrir sig ekki að deila um þetta, ekki á grundvelli þessara upplýsinga sem enn eru fram komnar.
    Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort bandalagsríki okkar hefðu til þess heimild að beina flugvélum t.d. sem taka þátt í flotaæfingum yfir íslenskt land án heimildar íslenskra stjórnvalda eða að flytja inn í landið t.d. flugvélar til viðbótar við liðskost varnarliðsins. Fordæmið var það að t.d. við hina miklu flotaæfingu úti fyrir ströndum Noregs 1988, þá flugu flugvélar sem tóku þátt í þeim æfingum lágflug yfir Vatnajökul. Um það mál er það að segja að það var

tilkynnt á sínum tíma og ekki brugðist við á þann veg að gera athugasemdir. Þær flugu lágflug sem er óvenjulegt og það er mat embættismanna að að sjálfsögðu getum við synjað um slíkt, en verðum þá að gera það af sérstökum ástæðum, þannig að mitt svar er það að það sé ekki sjálfgefið að menn hafi slíkar heimildir og íslensk stjórnvöld hljóta að áskilja sér rétt til þess að hafa um það seinasta orðið.
    Þá spurði hv. þm. um hina svokölluðu hliðaræfingu, þ.e. það sem varðar það sem vikið er að í skýrslunni, þ.e. æfingu sem á að hafa það hlutverk að prófa fjarskiptakerfi og fjarskiptatengsl. Það er ekkert fleira um þá æfingu að segja. Hún hefur þetta hlutverk. Í henni felst samprófun á fjarskiptakerfum varnarliðsins og fjarskiptakerfi Almannavarna og hún fer fram á sama tíma og þær æfingar sem áður hefur verið greint frá. Að öðru leyti vísa ég til þeirra upplýsinga sem í skýrslunni eru um samþættingu eða tengsl varðandi viðbragðaáætlanir íslenskra stjórnvalda og samþættingu þeirra við samsvarandi áætlanir á vegum varnarliðs.
    Hv. þm. vék talsvert að skipulagi utanríkisþjónustunnar. Hann hefur lýst
þeirri skoðun sinni að hann telji að þar eigi ekki að vera við störf aðrir en svokallaðir karríer-diplómatar, þ.e. embættismenn, og að stjórnmálamenn eigi ekki erindi inn í utanríkisþjónustuna. Ég er algjörlega öndverðrar skoðunar. Ég held að utanríkisþjónustan hefði mjög gott af því að fá í sínar raðir menn með reynslu víðar að og mörg störf innan hennar séu af því tagi að þeim væri ekki síður sinnt með þeim hætti. Ég held að það þurfi hvort tveggja til og deili út af fyrir sig ekki frekar um það. Það er ósköp eðlilegur skoðanaágreiningur.
    Þá er að lokum spurningin um mannréttindamál og það að vera sjálfum sér samkvæmur og afstöðuna til Palestínu. Ég vek athygli á því að þegar Saudi-Arabía og fleiri ríki báru upp fordæmingartillögu seinast í tilefni af mannfórnum sem urðu í átökum á milli Ísraelshers og óvopnaðra borgara, þá gerðist það að minni ósk að fulltrúi Íslands flutti viðaukatillögu. Viðaukatillagan var efnislega á þá leið að skora á deiluaðila að forðast ofbeldisverk sem gætu spillt tilraunum til friðsamlegrar pólitískrar lausnar.
    Ég verð að segja fyrir mig að það er til marks um það hvílík harka og hvílíkt ofstæki er ríkjandi í málflutningi um þetta mál að slíkri tillögu skuli hafnað. Hún er auðvitað með vísan til ályktana og tillagna eiginlega allra þeirra aðila sem hafa komið að þessum deilumálum á undanförnum árum. Ég vísa til Evrópuráðs, ég vísa til utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Alþjóðasambands jafnaðarmanna. Tillagan er augljóslega ekki um annað en að skora á aðila í nafni mannúðar og umburðarlyndis að forðast ofbeldisverk til þess að spilla ekki ófriðvænlegu ástandi frekar en orðið er. Henni er hins vegar lýst sem einhliða fordæmingu, sem er óskiljanlegt og út í hött og tæplega 100 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna fella slíka tillögu. Það gefur mér til kynna að umræðurnar sjálfar og forsendurnar fyrir þessum

umræðum séu varla með felldu, varla eins og þær ættu að vera.
    Ég held að allar ásakanir um það að Íslendingar hafi á alþjóðavettvangi í afstöðu sinni til þess máls gert sig seka um tvöfeldni --- við erum reiðubúnir til þess að fordæma mannréttindabrot hver sem þau fremur, hvar sem er. En eins og ég hef sagt: Fordæmingin er ekki nóg. Ef menn vilja leysa slík mál, þá held ég að fordæmingarvaðallinn í málflutningnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna oft og tíðum sé síst af öllu til þess fallinn að leysa nokkurt mál. Þvert á móti held ég að hann verki oft sem olía á ófriðarelda.