Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Í 38. gr. þingskapalaga er forseta gefin heimild til, ef umræður dragast úr hófi, að úrskurða ræðutíma hvers þingmanns og hvenær umræðum skuli ljúka. Forseti hefur aldrei gripið til þessarar heimildar fyrr, en með tilliti til þeirra anna sem fram undan eru á morgun og þess að hér eru inni hv. þm. sem eiga að vera komnir hingað aftur kl. 8 í fyrramálið mun forseti nú úrskurða að þessum umræðum skuli lokið kl. 20 mínútur yfir 3. Þeir hv. þrír þingmenn sem beðið hafa um að gera athugasemd hafa tvær mínútur til þess og fyrstur tekur til máls hv. 17. þm. Reykv.