Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Naumt er nú skammtað en ég skal enga athugasemd gera við það. Ég hafði nú hugsað mér að sýna forseta, þeim sjö þm. sem hér eru inni og þeim embættismönnum sem hér eru í hliðarherbergjum þá tillitssemi að vera afskaplega stuttorður.
    Ég kem hér upp vegna þeirrar viðkvæmni sem kom fram í máli hæstv. ráðherra vegna þeirrar athugasemdar sem ég gerði við ræðu sem flutt var í hans nafni á Vínarfundinum margumrædda. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs er sú tilraun hans að skýla sér á bak við ummæli þáv. hæstv. utanrrh., Geirs Hallgrímssonar, við setningu Stokkhólmsráðstefnunnar 1984. Þetta er mikill misskilningur og þetta er mikil, mér liggur við að segja ósvífni. Það sem Geir Hallgrímsson gerði réttilega var það að hann vakti athygli á þeirri hættu, þeirri umhverfishættu, mengunarhættu sem Íslendingum getur stafað af slysum vegna kjarnorkuslysa á höfunum. Það er kunnur sannleikur.
    Það sem ég var að gera athugasemd við var hins vegar, eins og ég tók fram, málsmeðferð, vinnubrögð í sambandi við þetta mál, ekki síst í ljósi þess sem ráðherrann segir sjálfur um hið pólitíska samráð innan Atlantshafsbandalagsins á bls. 18 í skýrslu sinni þar sem talað er um að nú sé verið að vinna að mótun allsherjarstefnu í afvopnunarmálum. Hvernig væri þá að reyna að koma þessu máli þar inn, hæstv. ráðherra?
    Ég er hérna með þessa ræðu Geirs Hallgrímssonar og önnur gögn í þessu máli, en ég fæ ekki tóm til þess að koma nánar inn á þetta. En ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan: Gerum greinarmun á umhverfismálum og öryggismálum. Við skulum ekki vera með neina myrkfælni í þessu. En hvernig stendur á viðkvæmni utanrrh.? Er það vegna þess, eins og svar hans bendir til, að hann hafði ekkert samráð um þetta? Hann vísar bara í almennar yfirlýsingar forvera sinna þriggja um þetta, samanber það sem ég segi um Geir Hallgrímsson, en hann hefur ekki haft neitt samráð um þetta við aðildarríkin innan Atlantshafsbandalagsins á réttum vettvangi og hann er eitthvað viðkvæmur fyrir því að það hefur eitthvað verið ýtt í hann út af þessu máli. Hann hefur fengið einhverjar athugasemdir sem greinilega hafa farið fyrir brjóstið á honum og út af fyrir sig skil ég það vel.