Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann. En ég vil að gefnu tilefni, virðulegi forseti, taka fram: Í sambandi við hugmyndir um sérstakt innanríkis- og öryggismálaráðuneyti varpaði hæstv. utanrrh. því fram hvort verið væri að ýja að því að stofna innlendan her. Ég svara þessu alfarið neitandi. En ástæðurnar fyrir því að ég minntist á það að til greina kæmi að tengja þetta löggæslu og dómsmálum eru þessar:
    Í fyrsta lagi: Löggæslan er í niðurníðslu. Það er mjög alvarlegt mál. Dómsmál, framkvæmd þarfnast endurskoðunar. Það getur verið rökrétt að sameina í einu ráðuneyti dóms-, löggæslu- og varnarmál. Það er margt skylt með þessum málaflokkum og þau varða sérstaklega vernd og öryggi borgaranna, bæði inn á við og út á við.
    Virðulegi forseti. Í sambandi við varaflugvöll og forkönnun, þá vil ég undirstrika það sem hæstv. utanrrh. sagði orðrétt: ,,Ég geri ráð fyrir því að veita þessa heimild, en ég mun ekki gera það í bráð.`` Þar með hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir sem handhafi þessa valds í núv. ríkisstjórn að hann muni láta framkvæma þessa forkönnun.
    Í þriðja lagi, virðulegi forseti, vil ég taka það fram í sambandi við þau orð hæstv. ráðherra þegar hann talaði um fækkun meðaldrægra eldflauga á meginlandi Evrópu að það er augljóst mál og hefur komið fram í yfirlýsingum og ræðum áhrifamanna erlendis innan NATO-ríkjanna að þá muni vægi varna færast norður á bóginn, þ.e. út á höfin eins og kom fram í ræðu ráðherra. Þetta er atriði sem við Íslendingar verðum að gera okkur ljóst.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, segja það að ég er því fylgjandi að samráð sé gott á milli Norðmanna og Íslendinga í sambandi við þróun varnar- og öryggismála í Norður-Atlantshafi.