Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég er fylgjandi frv. eins og það hefur verið lagt fram og fram hefur komið hér fyrr við afgreiðslu þessa máls, en því miður lét ég undir höfuð leggjast, þegar verið var að fjalla um þetta fyrr, að ræða um ákveðin atriði í sambandi við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem ég tel alveg nauðsynlegt að taka hér upp við 3. umr. og vekja alveg sérstaka athygli á.
    Þannig er mál með vexti, virðulegi forseti, að ég lagði fram fsp. í Sþ. til fjmrh. um það hvort hann hefði ekki í hyggju að leggja fram frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða. Þó að það sé e.t.v. ekki viðeigandi í þessari deild að kvarta undan því að svar hafi ekki borist við þessari fsp. verð ég samt, virðulegi forseti, þar sem þetta er mín deild, að minnast á þetta mál. Hér er um mjög stórt mál að ræða sem tengist óneitanlega afgreiðslu þessa frv. því eins og við vitum hefur verið í bígerð undanfarin ár að lagt yrði fyrir hið háa Alþingi frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem felur í sér ákveðnar grundvallarbreytingar í lífeyriskerfi landsmanna. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri og varpa því fram og óska eftir því við virðulegan forseta hvort hann geti ekki á fundum forseta þingsins, deilda og Sþ., fyrir hönd þessa deildarþingmanns lagt áherslu á það og ýtt verði við því að hæstv. fjmrh. svari þessari fsp.
    Ég vek alveg sérstaka athygli á því að mikil umræða hefur verið um lífeyrissjóðsmál á liðnum vetri. Í þeirri umræðu hefur verið, vil ég segja, vegið oft og tíðum mjög að þeim lífeyrissjóðum sem starfa úti í hinu svokallaða frjálsa atvinnulífi og fólki verið talin trú um það að þeir mundu ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Það kann að vera rétt í sumum tilvikum, en einmitt umrætt frv., sem ekki hefur enn verið lagt fram og mun liggja í skúffu fjmrh., vekur athygli á eða réttara sagt bendir á leiðir til þess að mæta þessu vandamáli. En það vandamál snýr ekki aðeins að þeim sem eru úti í atvinnulífinu heldur ekki síður að ríkinu.
    Við erum að afgreiða frv. sem felur í sér auknar skuldbindingar fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, vekja athygli á því að þegar verið er að fjalla um þessi mál erum við að auka á skuldbindingar og skyldur hins opinbera til þess að greiða lífeyrisbætur til viðbótar þeim skuldbindingum sem nú þegar eru fyrir hendi.
    Ef farið er fljótt yfir sögu er óhætt að segja það að lífeyriskerfi þjóðarinnar sé þríþætt. Það eru almannatryggingar sem þeir eiga aðgang að sem hafa engar lífeyrissjóðstryggingar. Það eru lífeyrissjóðir atvinnulífsins, þ.e. þess fólks sem starfar á samningssviði ASÍ annars vegar og Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar og svo er það lífeyriskerfið sem snýr að opinberum starfsmönnum, hvort sem það eru starfsmenn sem starfa á vegum ríkisins eða á vegum sveitarfélaga eða banka. Það kerfi er algjört toppkerfi miðað við það sem er hjá

öðrum. Í sambandi við þessa fullyrðingu mína vekja athygli á því að með því fyrirkomulagi sem tíðkast í sambandi við lífeyrisgreiðslur til opinberra starfsmanna á grundvelli samninga þeirra við ríkið er samþykkt hér á Alþingi á hverju þingi í fjárlögum að greiða verulegar uppbætur á þennan lífeyri. Eins og hv. þm. muna var samþykkt í fjárlögum á þessu þingi að greiða með Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna hvorki meira né minna en 1100 millj. kr. vegna þessara skuldbindinga. Á sama tíma er mjög fjallað um það, ég vek athygli á því, í ýmsum stjórnarblöðum sérstaklega, og ráðist að þeim sem eru í forsvari fyrir lífeyrissjóðum atvinnulífsins, að það vanti mikið upp á að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar og þess vegna skuli þeir líka hafa sig hæga og ganga að samningum við ríkið í einu og öllu í sambandi við það fjárframlag sem þessir sjóðir sérstaklega leggja til húsnæðismála þjóðarinnar.
    Til þess að mæta þessum skuldbindingum, ef það ætti að gerast á sama grundvelli og við verðum að gera sem erum úti í atvinnulífinu og tökum okkar lífeyrisrétt þar þegar þar að kemur, þá vil ég vekja athygli á því að til þess að Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna gæti starfað á hliðstæðum grundvelli þyrftu iðgjöld vegna skuldbindinga Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna að vera 25% en eru í dag 10%. Sem sagt, niðurgreiðslur, eða það sem greitt er með þessum skuldbindingum í fjárlögum hverju sinni, fela í sér hvorki meira né minna en 150% hærri iðgjöld. Á sama tíma verður verkafólk, verslunarmenn og annað launafólk úti í atvinnulífinu að búa við lífeyrissjóði sem það greiðir 10% iðgjöld til og miðað við 3*y1/2*y% ávöxtun má gera ráð fyrir því að í suma sjóðanna vanti allt að 30% til þess að þeir geti staðið við sínar lágmarksskuldbindingar sem eru mun lægri en umsamdar skuldbindingar sem ríkið verður að greiða til opinberra starfsmanna.
    Þetta eru atriði, virðulegi forseti, sem hefði verið æskilegt að ræða á hinu háa Alþingi áður en það fer heim og ég harma það að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa séð sér fært að svara því hvort hann ætlar að leggja fram umrætt frv. þannig að hið háa Alþingi geti fjallað um þessi veigamiklu mál. Ég nefni það sérstaklega vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir fólkið úti í atvinnulífinu
sem býr við lakari kjör hvað væntanlegar lífeyristryggingar áhrærir að það fái að vita hvernig þessum málum er háttað og hvað felist í þessu frv. til þess að leiðrétta þetta misrétti sem ég gat um áðan.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, leggja áherslu á það --- þó það sé kannski ekki alveg viðeigandi undir þessum lið, og þó, við erum að fjalla um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og auknar skuldbindingar vegna hans, og þá er ég ekki að tala á móti því að umræddir aðilar sem hér eru á ferðinni njóti fullra réttinda eins og aðrir opinberir starfsmenn --- að það er nauðsynlegt að fara að fjalla um þessi mál á hinu háa Alþingi í samhengi. Það gengur nefnilega ekki lengur, virðulegi forseti, að verið sé að kroppa í þessi mál eins og hér er gert. Ég hef því

ákveðnar athugasemdir við það að hæstv. ríkisstjórn skuli vera að leggja fyrir þingið einstök stjórnarfrv. sem lúta að lífeyrisréttindum og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins án þess að þetta veigamikla frv., sem er raunverulega grundvallarplagg í allri umfjöllun þessara mála, skuli ekki vera lagt fyrir hið háa Alþingi. Ég endurtek þess vegna ósk mína til virðulegs forseta um það að hann ýti nú við hæstv. fjmrh. um það að hann svari minni fsp. þannig að við þingmenn getum þá gert viðeigandi ráðstafanir ef hæstv. fjmrh. ætlar að hundsa það að svara fsp. og ég tala nú ekki um að leggja fram þetta frv. sem er búið að vera í Stjórnarráðinu, í skúffum fjmrh., í tæplega tvö ár.