Náttúruvernd
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Ég vildi við þessa umræðu vekja athygli á því að fyrir nokkru heimilaði landbrn. samkvæmt tillögu Grétars Unnsteinssonar, skólastjóra við Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi, að stofnuð skyldi ný braut við skólann, umhverfisbraut og hún tók til starfa á sl. hausti. Markmiðið með þessari braut er að mennta fólk í umhverfisfræði og veita fræðslu í kynnum mannsins á umhverfinu. Námið býr fólk undir að taka að sér starf við umönnun, fræðslu, eftirlit og landvörslu á útivistarsvæðum, stórum sem smáum, í þéttbýli og dreifbýli. Eitt þessara starfa er það sem hér er fjallað um í frv., landvarsla í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum.
    Með þessu framtaki Garðyrkjuskóla ríkisins hefur það sannast einu sinni enn að það eru þeir sem erja landið sem fyrst og fremst sýna í verki áhuga fyrir verndun umhverfis og gróðurs. Viðunandi árangri á því sviði verður ekki náð án atbeina þeirra og forustu. En sérstaklega vildi ég vekja athygli á þessu framtaki nú þar sem í frv., eins og það var lagt fram í Nd., var ákvæði um að haldin skyldu námskeið í þessu skyni en vegna þessa frumkvæðis Garðyrkjuskóla ríkisins ætti þess ekki að vera þörf, enda var það ákvæði fellt niður í Nd.