Viðskiptabankar
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Það var reyndar fyrir mistök að þessu nál. var dreift svo seint og verður ekki öðru um kennt en önnum og öngþveiti hér og svona í samræmi við það þá er þetta stuttort og vonandi gagnort eins og hæfir nú á dögum.
    Nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. er á þskj. 946 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Annar minni hl. getur ekki fallist á þá meginbreytingu á lögunum sem lögð er til í 1. mgr. 3. gr. frv. að ákvörðunarvald um vexti og þjónustugjöld verði fært frá bankastjórn til bankaráðs. Slíkar ákvarðanir eiga alla jafnan að vera á ábyrgð daglegra stjórnenda bankans, eins og verið hefur, en umfjöllun um heildarstefnu og eftirlit með framkvæmd hennar í höndum bankaráðs. Heimild stjórnvalda, í 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands, til að hafa áhrif á vaxtaákvarðanir almennt ætti að vera nægilegur öryggisventill.
    Annar minni hl. leggur því til að 1. mgr. 3. gr. verði felld en styður aðrar greinar frv.``
    Undir þetta ritar Kristín Halldórsdóttir.
    Við þetta álit er ekki miklu að bæta nema kannski ítrekun á þeirri skoðun okkar að endanlegt faglegt mat og ákvörðunarvald skuli liggja hjá daglegum stjórnendum bankanna sem vegna stöðu sinnar og daglegra tengsla eiga að vera til þess bærastir.
    Það þarf ekkert að lýsa því fyrir þingheimi að bankaráð viðskiptabankanna eru skipuð pólitískt og engin trygging er fyrir því að þar ráði alltaf faglegt mat þótt vitaskuld verði að ætlast til þess. Bankaráð gegnir engu að síður mikilvægu hlutverki sem eftirlits- og ráðgjafaraðili og hefur alveg nægilegt vald að mínu mati, samkvæmt núgildandi lögum.
    Um aðra þætti frv. þarf ég ekki að vera margorð. Ég er sammála þeim breytingum sem hér eru lagðar til og miða að því að skýra e.t.v. nokkuð óljós ákvæði laganna, en auk þess er í 4. gr. frv. ákvæði sem á að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í meðferð mála. Það er nauðsynlegt ákvæði, að mínu mati, því að óvíða er í rauninni hættara við hagsmunaárekstrum en einmitt á þessu sviði, árekstrum sem geta haft víðtækar og alvarlegar afleiðingar. Þess vegna er þetta sjálfsagt og þarft ákvæði.