Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Alþingi er hornsteinn frelsis og lýðræðis í landi okkar. Þá staðreynd ætti ekki að þurfa að hafa í frammi innan veggja þessarar stofnunar. Það er því skylda sérhvers alþingismanns að vinna af öllum mætti að því að efla og styrkja þessa stofnun svo að hún megi reynast því verkefni sínu vaxin að tryggja veg og virðingu lands og þjóðar á hverjum tíma. Það verður ekki gert nema tryggt sé að kjörnir fulltrúar og starfsmenn þingsins hafi aðstöðu til að sinna því verðuga verkefni svo að fullur sómi sé að.
    Því miður sýnast alþingismenn ekki hafa haldið vöku sinni við að halda vörð um virðingu Alþingis og mikilvægi þeirra starfa sem þar eru unnin ef marka má umræðu manna í milli um störf og starfsmenn Alþingis. Og allt of oft má heyra alþingismenn sjálfa tala með lítilsvirðingu um þingið án þess að leiða hafi verið leitað til þess að bæta störf þess og gera þau markvissari og árangursríkari til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.
    Öll höfum við rætt um ágalla í störfum þingsins okkar í milli því að vitanlega eru þeir til. En allt of sjaldan eru grundvallaratriði varðandi þrískiptingu valdsins, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, til umræðu í þingsölum og allt of oft er þess ekki gætt sem skyldi að Alþingi sé tryggt sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldi og dómsvaldi. Þó hefur nefnd til að endurskoða stjórnarskrána setið að störfum um langt árabil án þess að raunverulegur árangur hafi orðið að veruleika. Og þó að það frv. sem við höfum lagt fram hér nú yrði samþykkt eru verkefni stjórnarskrárnefndar ærin nóg. Umboðsmaður Alþingis hefur þegar á stuttum starfsferli ritað forsetum þingsins mikið rit um ágalla stjórnarskrár og laga varðandi ákvæði um mannréttindi. Mikið starf er óunnið varðandi þau og fjölmargt annað.
    Það frv. sem við höfum lagt fram hér tekur aðeins á fáeinum atriðum sem varða starfsramma þingsins og þau eru vissulega mikilvæg. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur rakið vel og skilmerkilega hin helstu þeirra og mun ég ekki endurtaka rök 1. flm. Ég er sammála honum í öllum þeim atriðum sem hann hér rakti. Ég tel mikilvægt að deildaskipting Alþingis verði afnumin og það starfi í einni málstofu. Ég held að það fyrirkomulag skapi meiri festu í störfum þingsins, auk þess sem einfaldur meiri hluti yrði betur tryggður. Ég held einnig að nefndir Alþingis mundu starfa markvissar og öruggar með þeirri skipan að þingið væri í einni deild því að það er alveg ljóst að mál hljóta fyrst og fremst umfjöllun í fyrri deild. Við vitum öll að meðferð mála í seinni deild er jafnan ófullkomnari og oft treyst þá á hinn bóginn, þ.e. telji menn við umfjöllun í fyrri deild að ekki hafi gefist nægur tími, þá er treyst á að umfjöllun verði nákvæmari í hinni síðari deild, en oft vilja verða nokkrir vankantar á því.
    Þá held ég að það sé hárrétt að tími ráðherra muni nýtast betur ef þingið starfar í einni deild og ég er sammála því að komið yrði á fót stjórnsýslunefnd sem hafi rétt til að rannsaka mikilvæg mál er varða heill

og velferð almennings.
    Ég held að þriðja meginbreyting frv. eigi rétt á sér sem er að veita ríkisstjórn meira aðhald um útgáfu bráðabirgðalaga. Skoðun mín er sú að þau eigi í fæstum tilvikum rétt á sér nema brýna nauðsyn beri til. Ég tel raunar að sá réttur hafi þráfaldlega verið misnotaður. Þá tel ég sjálfsagt ákvæði að bráðabirgðalög, hafi þau verið sett, verði gerð að lögum sem allra fyrst eftir að næsta þing kemur saman.
    Þá tel ég sjálfsagt einnig að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn heldur taki inn varamann þegar þeir taka við ráðherrastarfi. Þar með held ég að gleggri skil séu gerð á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það segir sig sjálft að það er afar ankannalegt að ráðherrar hafi atkvæðisrétt á löggjafarsamkomunni og er þar enn einu sinni dæmi um í okkar þjóðfélagi að menn séu settir í það hlutverk að sitja beggja megin borðsins.
    Önnur meginatriði þessa frv. hefur hv. 1. flm. getið um og hirði ég ekki um að eyða tíma hv. þm. í að endurtaka það. Meginástæðan til þess að ég er hingað komin í ræðustól er sú að ég vil vekja athygli á brtt. sem ég hef leyft mér að leggja fram við þetta frv., þó að ég sé einn af flm. þess, sem hér liggur frammi á þskj. 945. Við flm. ræddum þetta þegar frv. var í smíðum og ég lýsti áhuga mínum á að setja inn í frv. ákvæði þess efnis að hverju kjörnu þingi skuli skylt að sjá þjóðinni fyrir ríkisstjórn þau fjögur ár sem þingmenn eru kjörnir því að eins og við öll vitum er ákvæði 31. gr. kosningalaga frá 1984, þar stendur skýrum stöfum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.``
    Það er með öllu óeðlilegt, ekki síst á tímum þar sem ýmsir utanaðkomandi aðilar hafa veruleg áhrif á stjórnmál á hverjum tíma, t.d. sívaxandi fjöldi fjölmiðla, að þinginu sé gert kleift og stjórnmálaflokkunum, ef ég mætti nota það orð, að spekúlera hvenær kosningar skuli halda. Það segir mér enginn að menn freistist ekki til, ef byrlega blæs t.d. í skoðanakönnunum, að menn eygi möguleika á því að styrkja stöðu sína á Alþingi og telji hentugt að nú skuli
gengið til kosninga. Þetta er auðvitað bæði afar ólýðræðislegt og óheppilegt í alla staði. Með því að menn gerðu sér grein fyrir því að þeir væru kjörnir alþingismenn til fjögurra ára og þingið sæti þannig óbreytt þann tíma held ég að bæði fyndu þeir miklu sterkar fyrir ábyrgð sinni og það skapaði festu í störfum þingsins, og ekki síður held ég að kjósendur fyndu til meiri ábyrgðar þegar þeir ganga til kjörstaðar heldur en hafa það ævinlega á bak við eyrað að ef illa fari þá séu hæg heimatökin að sjá svo til að nauðsynlegt sé að rjúfa þing og efna til kosninga. Ég held að þetta væri miklu heppilegri kostur. Ef við viljum tala um svo hversdagslega hluti sem kostnað við kosningar þá vitum við öll að almennar kosningar í okkar litla landi eru kostnaðarsamt fyrirtæki, oft

mjög erfitt á ákveðnum tímum árs og kemur þar inn enn eitt ólýðræðislegt atriðið þar sem vera kann að fjölmargir landsmenn eigi erfiðara með að komast til kjörstaðar en aðrir og höfum við um það dæmi.
    Þá held ég að þeir þingmenn sem kjörnir hafa verið hverju sinni hikuðu frekar við að kljúfa sig út úr þeim fylkingum sem þeir voru kjörnir til Alþingis með og sætu af meiri ábyrgð í félagsskap við þá hópa sem þeir komu með inn á hið háa Alþingi þannig að ég held að flest mæli með því, ekki síst í svo fámennu landi sem okkar, að kosningar fari fram á fjögurra ára fresti og ekki þess á milli nema eitthvað alveg sérstakt komi til svo sem eins og t.d. breyting á stjórnarskránni.
    Þetta eru nú meginrök mín fyrir þessari brtt. Þeir hv. meðflm. mínir töldu ekki heppilegt að taka þetta ákvæði inn í það frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 829 og barðist ég ekki mikið fyrir því, enda ekki ástæða til. Ég býst við að allir hv. þm. séu samt sammála því að þetta frv. sé fyrst og fremst sett fram til að sýna, til að vekja umræðu og síðan hljóti það meðferð á lengri tíma.
    En ég held að hér sé reifað mjög mikilvægt mál sem sérhverjum alþingismanni er skylt að hugsa um mjög gaumgæfilega. Með frv. er frv. til nýrra þingskapalaga. Ég veit satt að segja ekki hversu mikil vinna var í það lögð, átti engan þátt í því og hef aðeins rennt yfir það augum. Eitt veit ég hins vegar af reynslu minni sem forseti þessa þings, að mikla nauðsyn ber til að endurskoða lög um þingsköp. Þau eru satt að segja afar ófullkomin í mörgum tilvikum og í þau vantar mörg ákvæði sem gera forsetum þingsins oft á tíðum mjög erfitt að stjórna þinginu. Er sannarlega ástæða til þess að endurskoða þau og það leiðir auðvitað af sjálfu ef breyting yrði á stjórnarskránni.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki orðlengja um þetta mál. Mér er það mikið áhugamál að þessi þýðingarmiklu mál verði tekin til gaumgæfilegrar endurskoðunar á þeim tíma sem ég á eftir að sitja á Alþingi Íslendinga. Ég hef leyft mér að halda því fram að ég beri virðingu fyrir þessari stofnun, ég tel mig skilja þýðingu Alþingis Íslendinga fyrir land og þjóð og ég mun reyna af öllum mætti að beita mér fyrir því að það verði hafið til þess vegs og virðingar sem það verðskuldar. Og þá er ekki nóg að ræða um hlutina heldur þurfa orðin að verða að verkum. Ég vil þess vegna þakka það frumkvæði sem hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur haft um flutning þessa frv., tel ekkert athugavert við að sýna það þó að það sé ekki stjfrv. eins og mér skilst að hér hafi verið kvartað yfir. Aðalatriðið er að þessi mál veki umræðu og ekki aðeins hér í þingsölum heldur meðal þjóðarinnar allrar. Því hversu gáleysislega sem hún leyfir sér oft á tíðum að tala um störf þessarar stofnunar þá má hún vita og verður að vita að án þessarar stofnunar er ekki um að ræða neitt lýðveldi eða lýðræði í þessu landi. Þess vegna held ég að framlagning þessa frv. sé af hinu góða og vona að allir hv. þm. taki þátt í þeim áhuga okkar að reisa störf Alþingis til þess vegs og

þeirrar virðingar sem þau verðskulda, jafnt er varðar hv. alþm. svo og starfsmenn Alþingis.
    Meira skal ég ekki eyða tíma í að segja á þessu stigi málsins. Ég hvet alla hv. alþm. til að taka þátt í þessari umræðu. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.