Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er tekið til umræðu frv. til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Það er auðvitað fagnaðarefni sem slíkt að taka stjórnarskrá lýðveldisins til umræðu hér í þinginu. En þau vinnubrögð sem hér hafa verið höfð í frammi eru með þeim hætti að það verður ekki sagt að ætlast sé til þess að fjallað sé um þetta mál með vönduðum og góðum hætti. Þessu er nú dembt yfir okkur af hv. þm. nú í lok þings aðallega til þess að tefja hér þingstörf. Og það svona hvarflaði að manni að hv. þm. Páll Pétursson vilji afhenda þjóðinni stjórnarskrána úr föður hendi og megi búast við bronsstyttu af hv. þm. í Húnavatnssýslunni ef breytingin færi í gegn. En hitt er víst að allir vita að til þess að samþykkja stjórnarskrá verður að rjúfa þing og eiginlega verður að líta á þetta sem vantraust á ríkisstjórnina og segir okkur það að þingmenn stjórnarinnar sem hér eru flm. eru að ýja að því að þeir vildu gjarnan losna við þessa ríkisstjórn og ég fagna því.
    Ég vil minna á það að þetta frv. hefur fengið alveg sérstaka umfjöllun í dagskrá umfram önnur þmfrv. Ég minni á það að við sem áttum hér nokkur önnur þmfrv. urðum að tala fyrir þeim að næturlagi hér eina nóttina því að okkur var ekki ætlað annað rými til að ræða þau frv., en nú er þetta tekið inn með alveg nýstárlegum hætti og hér á besta tíma dagsins þegar menn ættu að vera að afgreiða helstu frv. ríkisstjórnarinnar og tekið inn með þeim hætti að það mætti ætla að þetta væri aðalmál þingsins.
    Ég vil ekki að öðru leyti segja neitt um framlagningu þessa frv. að þessu leyti. Ég ítreka hér að við erum með elsta löggjafarþing á byggðu bóli og það er því óþarfi fyrir okkur að vera að lepja upp þingsköp og reglur frá einhverjum öðrum löndum eins og t.d. Norðurlöndunum, sem mér sýnist aðallega vera farið í smiðju til, því að við eigum að skapa okkur sérstöðu, halda okkar hefðum og byggja á okkar gömlu stjórnarskrá. Við eigum að hafa í heiðri okkar stjórnarfar og ekkert vera hræddir við að hafa það öðruvísi en hjá öðrum þjóðum. Það er því algjörlega óþarfi að vera að gjörbreyta þessum reglum bara til þess að geta líkst löndum hér í nágrenninu.
    Auðvitað má breyta ýmsu í stjórnarskránni, en það er þá miklu nær að við lítum á okkar sérstöðu, okkar hefðir, höldum þær í heiðri og flönum ekki að því að breyta hér í eina málstofu af því að núna um stundir er ástandið þannig að menn eru hræddir við að stuðningsforeldrar ríkisstjórnarinnar kynnu að svíkja.
    Það er auðvitað svo að það náttúrlega gleymist hér ýmislegt. Ég vil benda á það að ef breytt væri yfir í eina málstofu og ráðherrar teknir utan stjórnar, þá yrði auðvitað að fækka þingmönnum allverulega og ég er meðmæltur því. Þá yrði að fækka þeim a.m.k. ofan í 50 þannig að ráðherrarnir kæmust fyrir hér í þingsalnum --- nema flm. þessa frv. hafi hugsað sér að byggja nýtt þinghús.
    Hér hafa mörg mál verið tekin til umræðu í þessu

frv. og m.a. færð rök fyrir því að fastanefndum fækki vegna þess að það verður aðeins ein deild. Það má að sjálfsögðu færa rök fyrir því þó að það verði ekki endilega til þess að bæta neitt vinnubrögð því að ef ég skildi 1. flm. rétt, þá þótti honum brýn nauðsyn á því að hægt væri að reka mál með ægihraða í gegnum þingið. Miðað við þau vinnubrögð sem eru í dag í nefndum og hér í þinginu, þá yrðu nú ýmis lög afgreidd á mjög skömmum tíma og án þess að þau fengju nokkra eða góða málsmeðferð. Það er ekkert sjálfgefið að vinnubrögð muni batna við þessar breytingar. Og það er heldur ekki sjálfgefið að það verði einfaldari málsmeðferð á þingi við þessar breytingar. Þó að í Danmörku og Svíþjóð hafi verið gerðar breytingar með þessum hætti, þá þurfum við ekki að hlaupa á eftir þeim eins og hundur í bandi. Það er alveg óþarfi. Út af fyrir sig er það kannski rétt að tími ráðherranna mundi nýtast betur ef þeir væru ekki þingmenn en það bendir allt til þess að þetta frv. sé gert til þess að fjölga þeim mönnum sem eru hér við störf, þ.e. þá yrðu þingmenn, ráðherrar plús varaþingmenn og þá er verið að fjölga hér allverulega. Ég er efins í því að það sé til bóta.
    Hér er líka rætt um það að koma eigi á fót sérstakri stjórnsýslunefnd til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Auðvitað getur þingið gert þetta í dag en ég er hræddur um að það sé ærið erfitt í ekki stærra landi en þetta að koma hér á fót slíkum nefndum sem eiga að fara að rannsaka hitt og þetta í nágrenni við okkur og ég hef miklar efasemdir um það að við getum framkvæmt það þó að í Bandaríkjunum séu slíkar nefndir, í því stóra og mikla þjóðfélagi. Það er 1 íbúi hér á móti 1000 þar og allt önnur aðstaða.
    Svo er hér talað um að með þessu muni ríkisstjórninni verða veitt meira aðhald í setningu bráðabirgðalaga en nú er. Það þarf ekkert að breyta stjórnarskránni til þess. Spurningin er sú hvort þingmenn ríkisstjórnar hverju sinni láta það ganga yfir sig að ríkisstjórn setji bráðabirgðalög með þeim hætti sem er í dag. Það er spurningin. Eða eru þeir bara viljalaust verkfæri í höndum þeirrar ríkisstjórnar sem situr hverju sinni? Þetta er auðvitað spurningin um sjálfstæði þingmanna. Þetta er ekki spurning um lagasetningu.
Þessi ákvæði eru í dag í stjórnarskránni. Ef þingmenn segja hingað og ekki lengra við framkvæmdarvaldið, þá gildir það.
    Síðan er hér talað um þá breytingu að þingmaður sem skipaður yrði ráðherra skuli láta af þingmennsku meðan hann gegnir ráðherrastörfum. Það er auðvitað í sjálfu sér ágætt. Ég held að það væri að sumu leyti til bóta. En ég vil benda á að við erum að fjölga hér starfsmönnum þá miklu meira og í staðinn fyrir það mundi ég segja að það þyrfti að fækka þingmönnum þannig að hér væru a.m.k. ekki fleiri en 60 menn með ráðherrum í þinginu hverju sinni. Ég held að það væri til mikilla bóta.
    Ég vil líka koma hér inn á það sem hér hefur verið rætt æði oft. Það er um aukafjárveitingar og þær

fjárveitingar sem eru veittar af framkvæmdarvaldinu á milli þinga. Í stjórnarskránni í dag eru skýr ákvæði um þetta, en viljaleysi þingmanna og þá sérstaklega stjórnarþingmanna hverju sinni hefur verið svo mikið að þeir hafa ekki viljað taka á þessu. Þó eru skýr ákvæði um það í núverandi stjórnarskrá. Það er auðvitað voða fallegt að taka ýmis ákvæði og setja inn í stjórnarskrá og lítur afskaplega vel út gagnvart almenningi. En það er alveg tilgangslaust að hafa falleg og góð ákvæði í stjórnarskrá ef ekkert er farið eftir þeim. Ég ítreka að það eru mjög skýr ákvæði í núverandi stjórnarskrá um ýmsa þessa þætti en það er bara ekkert farið eftir þeim. Og það er ekki stjórnarskránni að kenna, það er þingmönnunum að kenna. Það er þeirra sök. Það hefur verið gagnrýnt hérna þennan stutta tíma síðan ég kom hér á þingið að það væru ekki haldin ákveðin ákvæði stjórnarskrárinnar. En þau hafa verið sniðgengin og þingmenn hafa látið það ganga yfir sig alveg átölulaust og ég held að það yrði svo áfram.
    Ég vil hins vegar koma hér að því sem er meginefni við gerð stjórnarskrárinnar og við framkvæmd hennar. Það er auðvitað þrískipting valdsins í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Það er búið að afgreiða hér töluvert mikið af lögum síðan ég kom sem ganga á svig við þessa þrískiptingu valdsins.
    Ég minni á það að hér hafa verið afgreidd lög, t.d. svokölluð kvótalög, þar sem ráðuneyti og ráðherra er bæði falið lögregluvald og dómsvald og framkvæmdarvald, allt í senn. Það er náttúrlega ekki út af því að stjórnarskráin sé svo slæm. Það er af því að þingmenn hafa verið viljalausir hér og þar á meðal flm. þessa frv., þeir hafa látið þetta ganga yfir sig. Það sama má segja um ýmis ákvæði sem hér hafa verið samþykkt sem lög, ég hef margoft komið inn á þau ákvæði. En ég vil undirstrika það hér að stjórnarskráin verður aldrei betri en þingmennirnir sem sitja á Alþingi.
    Ég vil að lokum koma inn á það að hér er verið að tala um ýmsar breytingar á stjórnarskrá, en þá þurfum við líka að líta á stærsta málið og það varðar kjósendur, það er kosningarrétturinn. Það er krafa manna um eitt atkvæði á móti einu atkvæði. Og það er einnig spurningin um það hvort við eigum að hafa hér einmenningskjördæmi eða ekki. Það er mjög mikilvægt að menn hafi atkvæðisrétt með sama hætti um allt land, það sé eitt atkvæði á móti einu atkvæði og það séu ekki þingmenn kosnir hér með einum á móti fimm í atkvæðum. Ég vil sérstaklega ítreka þetta. Án þess að þessi atriði séu tekin til meðferðar, þá er þetta alveg tilgangslaust.
    Ég vil ítreka það, hæstv. forseti, að stjórnarskráin verður aldrei betri en þingmennirnir sem sitja hér. Vilji þeir ekki halda þau ákvæði sem þegar eru í henni í dag þá þýðir ekkert að vera að setja ný ákvæði.