Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt. Frv. felur það í sér að felldar verði úr gildi núverandi takmarkanir á erlendum vörukaupalánum vegna innflutnings. Núgildandi ákvæði kveða á um að ekki megi flytja vörur til landsins nema greiðsla hafi verið innt af hendi eða tryggð með öðrum hætti svo sem með lántöku eða greiðslufresti.
    Kristín Halldórsdóttir og Ingi Björn Albertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir nál. skrifa auk mín Guðmundur G. Þórarinsson, Ragnar Arnalds, Einar Kr. Guðfinnsson og Árni Gunnarsson.
    Þetta frv. er þingmannafrv. flutt af þeim Guðmundi G. Þórarinssyni og Inga Birni Albertssyni og efni þess er sem sagt það að heimilt skuli að flytja vörur til landsins án þess að greiðsla hafi verið innt af hendi, að heimilt verði að beita þar lántökum eða greiðslufresti.