Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Þegar dregur að þinglausnum er venjan sú að fram fari almennar stjórnmálaumræður á Alþingi. Svo er nú gert í kvöld og gerðir upp reikningarnir við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.
    Það er ekki úr vegi að hefja umræðuna nú með því að taka hæstv. forsrh. á smáupprifjunarnámskeið. Það er gagnlegt fyrir hann sjálfan og líka fyrir kjósendur. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur nú setið að völdum í sjö mánuði. Hvað hefur breyst? Hefur íslenskum atvinnuvegum vegnað betur? Hefur kaupmáttur launafólks vaxið? Hefur verið friður á vinnumarkaði? Hafa skattar lækkað? Hefur atvinna aukist? Svarið við öllum þessum spurningum er nei, eitt stórt nei.
    Hæstv. forsrh. flutti hér svonefnda stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar þann 3. nóv. sl. Sú ræða var orðagjálfur, lýsing á ástandi, tal um það sem miður hafði farið í stjórn efnahagsmála og yfirleitt í landsstjórninni. Hann var þar að þvo hendur sínar. Framsókn hafði að vísu verið í stjórn síðustu 17 árin og Steingrímur ráðherra síðustu 10 árin, en þetta hafði bara allt farið öðruvísi en framsókn vildi. Þeir höfðu á hreinu ástæðurnar fyrir því í haust sem leið, þeir Steingrímur og Jón Baldvin, hvers vegna ekki var hægt að starfa með Sjálfstfl. áfram. Sjálfstfl. hafði nefnilega hafnað niðurfærsluleiðinni. Mér er spurn: Hvers vegna var sú leið ekki farin eftir að Sjálfstfl. var ekki lengur í veginum?
    Ríkisstjórnin hefur á undanförnum mánuðum glatað ört trausti þjóðarinnar. Um það eru skýrar vísbendingar úr almennri umræðu og skoðanakönnunum. Innbyrðis sundurlyndi hefur birst í sífelldum uppákomum á stjórnarheimilinu og hafa stjórnarliðar lýst því ákaflega vel sjálfir hvaða trú þeir hafi á núverandi stjórn. Hver haldið þið, góðir hlustendur, að hafi mælt þessi orð? Það gerði Steingrímur J. Sigfússon 20. apríl 1988 hér á Alþingi. Ég ætla að gera þau að mínum núna 27. apríl 1989. Þau eiga einkar vel við réttu ári síðar. Þau eiga við ríkisstjórn sem þessi sami Steingrímur á sæti í ásamt félögum sínum Ólafi Ragnari og Svavari, stjórn sem *y2/3*y hlutar kjósenda kæra sig ekkert um og vilja að fari frá sem fyrst.
    Það minnir mig líka á að fylgi Alþfl. er nú talið um 8--9%, hefur fallið úr 15,2% frá því í kosningunum síðast. Þegar Jón Baldvin var að koma Kjartani Jóhannssyni úr formennsku Alþfl. 1984 sagði hann að þeir fyrir vestan hefðu alltaf skipt um skipper þegar viðkomandi hætti að fiska. Fer kannski að styttast í skipstjóratigninni hjá Jóni Baldvin eða verður haldið áfram að hrókera í utanríkisþjónustunni eða öðrum stofnunum ríkisins og koma þeim þannig frá sem eru fyrir?
    Já, það er innbyrðis sundurlyndi og uppákomur á stjórnarheimilinu, feigðarmerkin ljós, en flanið heldur áfram. Húsbréfafrumvarpið er ágætt dæmi. Hæstv. ráðherra Jóhanna er gerð út af örkinni. Hvaða mál hefur hún annars flutt án þess að fylgdi hótun um

afsögn ef ekki næði fram að ganga? Þetta er eitt þeirra. Ráðherrarnir hafa verið óttaslegnir af tilhugsuninni einni saman um að nú færi að styttast í ráðherradómi. En þeir þurftu aldrei að óttast neitt. Enn virðist það brot eftir í Borgaraflokki sem komið getur til bjargar ef í harðbakkann slær. Já, og svo er það Kvennalistinn, þetta heilsuhæli þeirra sem ekki hafa kjark til að taka afstöðu í pólitík, svo að notað sé aðeins mildara orðalag en gert var um sama efni í skemmtilegum sjónvarpsþætti fyrir skömmu. Frumvörpum má líka alltaf breyta til að þóknast öllum Stefánum Valgeirssonum og Ólum Þ. Þórðarsonum eða hvað þeir nú heita allir þessir sem öðru hverju þurfa að gera sig gildandi. Og auðveldast af öllu er það tvennt að framselja löggjafarvaldið til milliþinganefndar og svo lofa fjárframlögum á næsta ári þegar alveg er öruggt að þeir sem loforðin nú gefa þurfi ekki að standa við neitt vegna þess að þjóðin verður þá búin að afþakka þjónustu þeirra.
    Annað dæmi um sundurlyndið eru heræfingarnar væntanlegu í sumar. Þær eru tímaskekkja að dómi forsrh. Hann ræður engu um þær, mundi heldur ekkert eftir þessu, enda ekki um stórmál að ræða í augum utanrrh. En það er núv. utanrrh. sem ræður.
    Steingrímur J. Sigfússon lagði til í ríkisstjórninni að hætt yrði við æfingarnar. Jón Baldvin fækkaði í varaliðinu niður í um 800 og sagði þeim að byrja ekki fyrr en 20. júní. Þá var Alþb. ánægt. Með öðrum orðum: Alþb. lyppast niður, Alþfl. missir trúnað, Framsfl. er stikkfrí að vanda. Það er reisn yfir þessu.
    Nú standa yfir erfiðar kjaradeilur og staða fiskvinnslufyrirtækja er hrikaleg. Hvað hafa hæstv. ráðherrar til málanna að leggja? Forsrh. segir launakröfur háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna vitfirringu. Fjmrh. hækkar laun BSRB-manna með því einfaldlega að hækka skattana á móti og segir svo atvinnurekendum að semja við sitt fólk um leið og hann leggur drápsklyfjar skattahækkana á atvinnureksturinn í landinu. Sjútvrh. hlýðir á lýsingu forustumanna Félags sambandsfiskframleiðenda á ástandinu í sjávarútvegi. Að þeirri lýsingu fenginni dettur honum helst í hug að ganga út og hengja sig,
eins og hann sagði í ræðu hjá SÍS og sjónvarpað var í gærkvöldi. En það er einmitt það sama og Vilhjálmi Hjálmarssyni datt í hug eftir að hann hafði hlustað á tillögur Ólafs Ragnars í skólamálum meðan Ólafur var í framsókn. Samfellt í níu ár hafa þeir verið sjávarútvegsráðherrar, Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson. Er nú ekki kominn tími til að leysa þessa menn frá störfum áður en þeir grípa til voðaverka gagnvart sjálfum sér? Og nóg hafa þeir gert öðrum.
    Við vitum ekki enn hvenær þinglausnir verða. Forseti þingsins segir 6. maí. Sumir segja að það þurfi eina viku í viðbót, þ.e. til 13. maí. Sá hængur er á framlengingu að dómi sumra að forsrh. verður þá í opinberri heimsókn hjá vinum sínum í Ungverjalandi. ,,Við framsóknarmenn leggjumst ekki í ferðalög þegar vandi steðjar að,,, sagði Steingrímur í fyrra þegar til stóð að þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson færi í opinbera

heimsókn til forseta Bandaríkjanna. Þeirri heimsókn var frestað. Nú er annar maður forsrh. Engin vandræði á ferðum og heimsóknarlandið sennilega mikilvægara í augum forsrh. en Bandaríkin. Og svo virðist líka öllum standa á sama hvort hann fer eða verður og auðvitað fer hann.
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Hverjir eru kostirnir sem kjósendum eru boðnir? Annars vegar áframhaldandi vinstri stjórn þessara þriggja flokka með tilheyrandi yfirboðum, miðstýringu og fyrirgreiðslupólitík hinna opinberu sjóða og svo hrokafull framkoma ráðherranna. Hins vegar er stjórn Sjálfstfl., festa og stöðugleiki í efnahagsmálum, hógværð og frjálslyndi og félagslegt öryggi, trygg rekstrarstaða atvinnuveganna, forsenda allra framfara í landinu. Sjálfstfl. er það stjórnmálsafl sem gefur von um bjartari framtíð. Sú von verður að vissu því fyrr sem kosningar verða og Sjálfstfl. leiðir næstu ríkisstjórn.