Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Gamalreyndur sjávarútvegshöldur sagði í nýlegri blaðagrein að fimm draugar hefðu sótt að sjávarútveginum að undanförnu. Spurning er: Hverjir vöktu upp þessa drauga og hvernig verða þeir kveðnir niður? Við skulum virða fyrir okkur draugagalleríið.
    Fyrsti draugur: Minni afli. Annar: Lækkandi verð á erlendum mörkuðum. Þriðji: Skuldsetning frá fyrri tíð, einkum frá þriggja ára einstæðu góðæri. Fjórði: Óhóflegur fjármagnskostnðaur. Fimmti: Heimatilbúin verðbólga langt umfram verðbólgu í viðskiptalöndum.
    Það fer ekki fram hjá neinum sem hlýðir á þessar umræður að forustusauðir Sjálfstfl. þykjast nú vera miklir særingameistarar. Þeir fara í tíma og ótíma með sömu særingarþuluna. Patentlausnin er ný gengisfellingarkollsteypa, allra meina bót. Annað hafa þeir ekki til málanna að leggja.
    Ég minnist þess hins vegar að þeir voru svo draughræddir undir lokin í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að þeir máttu þar vart vatni halda. Formaðurinn lagðist undir feld í Flórída. Varaformaðurinn gróf sig í sand á Kýpur. Heimkomnum ofbauð þeim svo draugagangurinn að þeir hrukku fyrir borð. Ég veit ekki hvort er háðulegra, draughræðslan þá eða mannalætin núna.
    En kíkjum nú framan í fortíðardrauga þeirra sjálfstæðismanna og prófum hversu gefst særingarþulan.
    Fyrsti draugur, aflasamdráttur: Ekki bætir gengisfelling úr því. Við honum þarf að bregðast með því að sækja aflann með minni tilkostnaði, t.d. með úreldingu fiskiskipa eins og frv. sjútvrh. gerir ráð fyrir. Að þessu á að vinna fyrst og fremst á vettvangi fyrirtækjanna, en í samstarfi við stjórnvöld.
    Annar draugur, lækkandi fiskverð erlendis: Gengislækkun fjölgar að vísu krónum í vasa útflytjenda, --- í bili. En á móti kemur að hún hækkar höfuðstól skulda skuldsettra fyrirtækja. Hún hækkar verðbólgu, vexti og verð á innfluttum aðföngum jafnóðum. Sumsé: Skottulækning við óbreyttar aðstæður.
    Sjálfstæðismenn tala heldur ekki hátt um það að gengisfellingarkollsteypan þeirra mundi rústa lífskjör fólksins í landinu og þar með rjúfa vinnufriðinn sem ríkisstjórnin er nú að tryggja með hóflegum kjarasamningum. Það væri þokkalegt ráð núna í miðjum kjarasamningum að grípa til slíkra óyndisúrræða. Ríkisstjórnin hefur vissulega ekki fylgt fastgengisstefnu. Hún hefur aðlagað gengið í áföngum, án þess þó að efna til kollsteypu eins og forsrh. lagði áherslu á, sem mundi ríða skuldsettum fyrirtækjum að fullu. Markmið hennar er að lækka raungengi í áföngum, þ.e. tilkostnað fyrirtækja í samanburði við keppinauta. Það er vandrataður meðalvegurinn að tryggja viðunandi rekstrargrundvöll og fulla atvinnu, án þess að níðast á lífskjörum þeirra sem verst eru settir.
    Ríkisstjórnin hefur reynt að þræða þennan gullna meðalveg með hóflegri gengisaðlögun, með lengingu

lána, með lækkun vaxta, með fjárhagslegri endurskipulagningu o.s.frv. Sum fyrirtæki voru svo grátt leikin af draugagangi fortíðar að þeim verður ekki bjargað. Önnur eru að komast á lygnari sjó í rekstri eins og þær tölur tala sínu máli um, sem forsrh. nefndi, um framlegð og afkomu.
    Meðaltöl um afkomu í sjávarútvegi eru fyrir margra hluta sakir villandi. Manni sem stendur með annan fótinn í sjóðheitu vatni en hinn frosinn upp að hnjám er býsna kalt --- að meðaltali. Afkomutölur taka ekki nægilegt tillit til verðbóta sem greiddar eru á frystan fisk, til skuldbreytinga, til lækkunar vaxta, fyrir utan það að fyrirtæki sem raunverulega eru orðin gjaldþrota draga meðaltölin niður.
    Þriðji draugurinn á listanum var skuldsetning fyrirtækjanna frá fyrri tíð --- í góðærinu. Leysir gengisfelling þann vanda? Nei, hún mundi ríða mörgum skuldugum fyrirtækjum að fullu. Hún hækkar höfuðstól skuldanna, hún hækkar fjármagnskostnaðinn og hún mundi framkalla þvílík átök á vinnumarkaði að ekki þyrfti um sárt að binda: Sumsé, skottulækning.
    Fjórði draugur var óhóflegur fjármagnskostnaður. Gengisfelling þýðir óðaverðbólgu og vaxtasprengingu. Hún mundi því sannanlega gera illt verra. Ríkisstjórnin vinnur samkvæmt áætlun að endurskipulagningu fjármagnsmarkaðar og lækkun raunvaxta. Ríkið gengur á undan með góðu fordæmi í samningum við lífeyrissjóði og með lækkun raunvaxta á spariskírteinum ríkissjóðs úr tæplega 10% í 7,5% og boðar lækkun í 5% innan skamms. Verðbréfafyrirtækin hafa neyðst til þess að lækka vexti. Með lækkandi verðbólgu er stefnt að afnámi verðtryggingar. Með nýrri gengis- og verðbólgukollsteypu mundum við fjarlægjast þessi markmið endanlega. Ráð Sjálfstfl. í þessum efnum eru því líka óráð. Hann reyndist illa í ríkisstjórn og hann reynist óráðhollur í stjórnarandstöðu.
    Í þjóðsögunni fitnaði púkinn á fjósbitanum af illum munnsöfnuði, samanber barlóm og bölmóð stjórnarandstöðunnar. Í veruleika samtímans hafa fjármagnseigendur leikið þetta hlutverk púkans á fjósbitanum. En hverjir vöktu upp þann draug og þorðu síðan ekki að horfast í augu við hann? Sá gæfusnauði Galdra-Loftur býr í Valhöll og kennir sig við frjálshyggjutrúboðið.
Forustumenn Sjálfstfl. eru nefnilega alltaf að rugla saman frjálslyndi og stjórnleysi. Þeim tókst að virkja verstu öfgar frjáls markaðar í þjónkunarþörf við hagsmuni fjármagnseigenda. Þeir komu óorði á frelsið eins og rónarnir forðum á brennivínið.
    Fyrirhyggjuleysið í góðærinu endaði í frjálshyggjuslysi sem atvinnulífið hefur síðan sopið seyðið af. Vextir voru gefnir frjálsir, án þess að sett væri löggjöf um starfsemi verðbréfa- og fjármögnunarleigufyrirtækja; án þess að bankakerfið væri endurskipulagt til þess að draga úr vaxtamun; án þess að sjálfstæðismenn gerðu sér grein fyrir því að hér væri um að ræða lokaðan fákeppnismarkað, þar sem óseðjandi eftirspurn eftir lánsfjármagni mundi

sprengja vexti upp yfir öll okurlög; án þess að þeir sjálfstæðismenn gerðu sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna: Að ávöxtunarkröfur fjármagnsins urðu að lokum langt umfram það sem heilbrigður atvinnurekstur getur skilað eigendum sínum í arði. Og svo kalla þeir þetta þjóðnýtingu fyrirtækjanna bakdyramegin.
    Fyrir nokkrum árum var borgaraleg ríkisstjórn í Svíþjóð. Hún þjóðnýtti meira á fjórum árum en sænskir jafnaðarmenn á 40 árum. Frjálshyggjuliðið í Sjálfstfl. ber alla ábyrgð á fjörbrotum þessara fyrirtækja. En þeir ættu að sjá sóma sinn í því að hafa hægt um sig meðan aðrir sinna björgunarstörfum á slysstað. Það var nefnilega ekki bara að þeir sinntu ekki slysavörnum; þeir bjuggu til slysagildrur. Þeir ættu því ekki að nefna þá snöru í hengds manns húsi sem fjármagnskostnaðurinn er í Valhöll íhaldsins.
    Fimmti draugurinn er verðbólgan. Allir vita að gengisfelling virkar sem olía á eld verðbólgu svo að enn reynist særingarþula íhaldsins óráð hið mesta. Verðbólga verður ekki kveðin niður nema með samræmdum aðgerðum á mörgum sviðum, t.d. með því að koma jafnvægi á hinn ginnheilaga peningamarkað og opna hann fyrir erlendri samkeppni.
    Alþfl. mun að sönnu láta frýjunarorð þeirra sjálfstæðismanna um stefnubrigð sem vind um eyru þjóta. Við munum ekki hlaupast frá borði þótt eitthvað bjáti á um sinn. Það hvarflar ekki að okkur að leggjast í hugsýki með barlómskórnum. Við munum ótrauðir vinna áfram að því að leysa fjárhagskreppu útflutningsfyrirtækjanna með samstarfsaðilum okkar, án þess að fórna markmiðum um stöðugleika í efnahagsumhverfinu með ótímabærum gengiskollsteypum. Við gerum þetta með skuldbreytingum, með fjárhagslegri endurskipulagningu og samruna fyrirtækja eða endurskipulagningu fjármagnskerfisins og opnun þess og með lækkun vaxta.
    Ríkisstjórnin vinnur að því í kyrrþey þessa dagana að skapa forsendur fyrir hóflegum kjarasamningum sem ætlað er að draga úr kaupmáttarfallinu, án þess að stofna atvinnuöryggi í hættu. Þau markmið mundu fjúka út um gluggann ef nú yrði efnt til gengiskollsteypu.
    Ég segi, verkin sýna merkin. Málafjöldinn á borðum ykkar hv. þm. sannar að hér er að verki dugleg, athafnasöm umbótastjórn sem hugsar fram í tímann, þótt stjórnarandstaðan vilji æðrast í fortíðinni. Besta dæmið um þetta er húsbréfafrv. félmrh.
    Hringlandaháttur Sjálfstfl. í því máli segir allt sem segja þarf um vinnubrögð hans í stjórnarandstöðu. Við undirbúning málsins studdu sjálfstæðismenn húsbréfakerfi dyggilega. Þegar þeir héldu að þeir gætu komið höggi á ríkisstjórn, jafnvel banahöggi, þá hlupu þeir frá sannfæringu sinni. Hvað varðaði þá um þjóðarhag eins og einu sinni var sagt? Hvað varðaði þá um neyð húsbyggjenda ef hægt var að koma fram pólitískum hermdarverkum? En sjaldan er hönd höggi fegin eins og sennilega mun koma á daginn.
    Kostir húsbréfakerfisins eru ótvíræðir og það er

þýðingarmikið að allur almenningur geri sér grein fyrir því. Aukin innri fjármögnun fasteignaeigenda skapar svigrúm fyrir aukin fjárframlög til félagslega kerfisins. Aukinn hluti íbúðarverðs fæst að láni með tryggum hætti á einum stað. Hin rándýra skammtímafjármögnun hverfur úr sögunni og þar með lækkar greiðslubyrðin. Afgreiðslutími styttist úr allt að 37 mánuðum í 2--3 vikur. Niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar færist yfir í skattakerfið. Vaxtabætur koma þeim einkum til góða sem eiga engar eða litlar eignir fyrir og búa við lágar tekjur, þannig að húsbréfakerfið er tekjujöfnunaraðgerð. Fasteignaviðskipti verða mun einfaldari fyrir fólk á landsbyggðinni þar sem unnt er að fela bönkum á staðnum alla nauðsynlega fyrirgreiðslu. Í stað þess að híma aftast í biðröðinni getur unga fólkið komist að. Hinir eldri geta losnað við skuldlitlar eignir sínar á öruggan hátt. Það nýtir aftur mun betur fjárfestingu í rótgrónum hverfum.
    Þeir sem bera ábyrgð á hinu gamla og gjaldþrota húsnæðiskerfi reyna að hræða fólk frá húsbréfakerfinu með tröllasögum um afföll og fóður fyrir gráa markaðinn. Þeir gleyma því hins vegar að staðreyndin er sú að lánsloforð gamla kerfisins, þeirra sem nú eru í biðröðinni löngu, eru seld með miklum afföllum. Hins vegar hafa verið gerðar margvíslegar ráðstafanir til að tryggja að húsbréfin stuðli að lækkun vaxta og hafi jákvæð áhrif á peninga- og fjármagnsmarkað. Húsbréfin seljast á svipuðum vöxtum og spariskírteini ríkissjóðs. Þau eru örugg þar sem þau eru ríkistryggð.
    Byggingarsjóður ríkisins og Seðlabanki eru ávallt kaup- og söluaðilar og
verðbréfamarkaðinum er óheimilt að kaupa og selja undir opinberlega skráðu gengi. Seljandi húsnæðis getur því strax eftir fasteignaviðskipti selt húsbréf án affalla. Þess vegna er lögfesting húsbréfafrumvarpsins nú þjóðarnauðsyn.
    Gamla kerfið hleður upp valköstum af lánsloforðum án tillits til forgangshóps og þarfa og verður fyrr en varir búið að binda milljarða kr. fram til ársins 1991, verði það ekki stöðvað. Lögfesting nú eyðir óvissu kaupenda, seljenda og byggingaraðila. Það væri hins vegar skynsamlegt og vel ásættanlegt að skipa milliþinganefnd þar sem fulltrúar allra flokka hafi áhrif á undirbúning og framkvæmd, enda er það ekkert framsal til framkvæmdarvaldsins og styðst við góð fordæmi frá fyrri ríkisstjórn varðandi undirbúning staðgreiðslu- og virðisaukaskattslaga.
    Virðulegi forseti. Þótt sjálfstæðismenn hafi reynst um of draughræddir í ríkisstjórn og særingarþulur þeirra reynst máttlausar í stjórnarandstöðu, þá vona ég alla vega að þeim takist ekki að draga þjóðina með sér ofan í hyldýpi þunglyndiskasts.
    Það kemur stundum fyrir góð keppnislið, eins og núv. ríkisstjórn er, að falla svolítið í hugsýki í hálfleik, ef menn hafa orðið að spila varnarleik. Réttu viðbrögðin við því eru hins vegar að endurskipuleggja liðið og bregða á sóknarleik; hvetja liðið til dáða, þannig að það einbeiti sér að því að vinna í seinni hálfleik eins og við munum gera.

    Ríkisstjórnin mun sitja út kjörtímabilið, enda ríkir þar góður vinnuandi. Þetta er umbótastjórn sem á mörgum verkum ólokið. Alþfl. má vel við una sína verkaskrá hingað til. Við höfum náð því að lögfesta staðgreiðslukerfi skatta; við komum á samræmdum söluskatti með hækkun skattfrelsismarka og stórlega auknum fjölskyldubótum. Við náðum fram lögfestingu virðisaukaskatts. Við höfum lögfest kaupleiguíbúðir. Húsbréfamálið er að komast í höfn, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga stendur til bóta með nýju frv.; sömuleiðis tekjustofnar sveitarfélaga. Við höfum komið lögum yfir fjármagnsmarkaðinn. Fyrir liggur frv. um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds og á okkar forræði er að vinna kerfisbundið að lækkun vaxta.
    Þessi ríkisstjórn hefur náð árangri við erfið skilyrði. Við höfum komið í veg fyrir stöðvun fyrirtækja og fjöldaatvinnuleysi sem frjálshyggjuliðið spáði upp á 10--15 þúsund manns á þessum vordögum. Það hefur tekist í stórum dráttum að tryggja fólki fulla atvinnu. Fram undan eru risavaxin verkefni, stór umbótamál. Fram undan bíður það í ríkisfjármálum að taka upp nýja og réttlátari skattlagningu fjármagns- og eignatekna og leiðrétta þá skattlagningu á eignum, að vinna kerfisbundið að upprætingu skattsvika sem ég treysti eftirmanni mínum, núv. fjmrh. og formanni Alþb., vel til og síðan að vinna kerfisbundið að lækkun ríkisútgjalda. Ótrúlegt nokk, þá hef ég trú á því að það takist betur í þessu stjórnarsamstarfi en hinu fyrra. Við þurfum að koma á nýju, manneskjulegu húsnæðislánakerfi. Við þurfum að vinna að því að sameina lífeyrissjóðina og koma á samræmdum lífeyrisréttindum. Við þurfum að vinna hægt og bítandi að endurskipulagningu í sjávarútvegi, með aflamiðlun, markvissri fiskvinnslustefnu og öflugu markaðsstarfi, í samstarfi okkar innan EFTA og EB. Við eigum að reka sjálfstæða utanríkisstefnu, leggja höfuðáherslu á verndun á umhverfi hafsins og taka frumkvæði að afvopnun á og í höfunum, eins og nýlega hefur verið rætt hér ítarlega á Alþingi.
    Virðulegi forseti. Það er í erfiðleikunum sem reynir á menn og flokka. Alþýðuflokksmenn eru staðráðnir í því að hlaupast ekki frá verkum sínum í miðjum klíðum. Það er hlutskipti þessarar ríkisstjórnar að skipuleggja varnarbaráttu við erfiðar kringumstæður, þegar aðrir hlupust frá. Hingað til hefur okkur tekist það stóráfallalítið. Við höfum komið í veg fyrir stöðvun útflutningsgreinanna og við höfum komið í veg fyrir atvinnuleysi. Við eygjum nú vissulega margvísleg batamerki og bjartari tíð fram undan. Hingað til hefur ríkisstjórnin orðið að einbeita sér að lausn skammtímavandamála. Á næstunni gefst betra ráðrúm til þess að undirbúa framkvæmd þeirra þýðinarmiklu umbótamála sem ég nefndi sum hver hér rétt áðan. Þannig mun þessi ríkisstjórn snúa vörn í sókn og sigla skipi sínu heilu í höfn, eftir viðburðaríka og sögulega sjóferð.