Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þegar fyrsta vetri á valdatíma þessarar ríkisstjórnar er að ljúka, þá er rétt að rifja það upp hvernig umhorfs var þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var að hrökklast frá og Sjálfstfl. og hin grimma og harða frjálshyggja hafði skilið eftir sig sín spor í íslensku þjóðfélagi. Forsvarsmenn atvinnulífsins voru sammála um þann spádóm að við blasti atvinnuleysi 15--20 þúsund manna upp úr áramótum. Á gráa markaðnum geisuðu gróðavindar óheftir og miklu fjármagni var rakað saman til fjármagnseigenda. Bankar og lánastofnanir tóku til sín gróða sem talinn var í mörgum milljörðum. Við blasti stórfelld gengisfelling eða hrikaleg kjararýrnun almennings í landinu, flótti frá landsbyggðinni allt í kring, stöðvun atvinnulífsins hvar sem litið var. Það var við þessar kringumstæður sem Alþb. tók þá ákvörðun að ganga til liðs við tvo flokka úr fyrri ríkisstjórn, flokka sem höfðu gefist upp á hinni hörðu frjálshyggju peningaaflanna og voru nú reiðubúnir að taka með okkur nýjum tökum íslenskt þjóðfélag, tökum félagshyggju og hagsmuna launafólksins í landinu.
    Þessi ríkisstjórn kom sér saman strax í upphafi um skýra og afmarkaða verkáætlun. Sú verkáætlun fólst í þremur köflum. Fyrsti kafli hennar var sex mánaða tími verðstöðvunar og -bindingar. Til þess að leysa burtu verstu ógnanirnar sem hin harða frjálshyggja hafði skapað, að strá græðandi smyrslum í hin djúpu sár sem frjálshyggjan hafði skapað í íslensku þjóðfélagi. Þessum fyrsta sex mánaða kafla í verkáætlun ríkisstjórnarinnar er nú lokið með ótrúlega góðum árangri sem ég mun nú koma að innan tíðar.
    Annar kaflinn er nú nýhafinn, kafli aðhalds og undirbúnings undir langtímauppbyggingu atvinnulífs á Íslandi, félagslegra framfara og nýrrar sóknar til bættra lífskjara. Þessi millikafli sem við höfum nú hafið nýlega mun að öllum líkindum standa í 6--9 mánuði og gera okkur kleift að undirbúa fyrir árin 1990 og 1991 efnahagsstefnu stöðugleika og nýrra framfara. Þessi ríkisstjórn ætlar sér að skila góðu verki. Hún hefur á sex mánuðum náð ótrúlega miklum árangri. Það miklum árangri að ef lesnar eru hrakspárnar sem Sjálfstfl., Verslunarráðið og Vinnuveitendasambandið fluttu hér mánuðum saman á sl. vetri, þá hljóma þær sem hreinar öfugmælavísur. Og það er nú einu sinni þannig að verkin og staðreyndirnar tala í þessu efni mjög skýru máli.
    Í fyrsta lagi: Hvað hefur gerst í atvinnumálunum? Atvinnuleysi 15--20 þúsund manna hefur verið forðað. Hér var myndaður sérstakur skuldbreytingasjóður sem farið var um háðulegum orðum á fyrstu mánuðum en hefur nú sannað svo gildi sitt að enginn dirfist í dag að hallmæla honum. Hann hefur þvert á móti tryggt áframhaldandi starfsemi 80--90 fyrirtækja allt í kringum landið. Hann hefur forðað því mikla atvinnuleysi sem frjálshyggjan hafði skapað. Og í kjölfar hans nýr Hlutabréfasjóður sem á að breyta eignarhaldi fyrirtækjanna, flytja fjármagn frá bönkum og sjóðakerfi þar sem gróðinn hefur verið á

undanförnum árum og yfir í atvinnulífið sjálft. Á sama tíma hefur verið knúin fram stórkostleg endurskipulagning í atvinnuvegunum, á sjávarútvegi og fjölmörgum öðrum greinum sem er þegar farin að skila það miklum árangri að framlegð fjölmargra frystihúsa hefur nú breyst úr 6% fyrir áramót í 20--30% nú.
    Í öðru lagi vextirnir. Hverjir muna ekki vaxtafárviðrið hér á lokamánuðum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar þar sem grái markaðurinn malaði til sín stórfelldan gróða? Nú hrynja vextirnir á gráa markaðinum úr 17% í 10%. Hver man ekki 11--12% raunvexti í bankakerfinu og opinbera sjóðakerfinu? Þeir eru nú þegar komnir niður í 7% og nýlega voru gerðir samningar við lífeyrissjóðina sem tryggja að nú þegar eru komnir á 5% raunvextir á þeim hluta lífeyrissjóðafjármagnsins sem tengdur er við raunvextina á evrópskum peningamarkaði.
    Og ríkisfjármálin. Vissulega urðum við að leggja á nýja skatta til þess að snúa við hallarekstrinum og erlendri skuldasöfnun sem Þorsteinn Pálsson og Sjálfstfl. höfðu staðið fyrir. En nú þegar er árangur þessa starfs að koma í ljós. Niðurstaðan úr rekstri ríkisins á fyrstu þremur mánuðum ársins sýnir það að ríkissjóður hefur skilað á þessum fyrstu þremur mánuðum 800 millj. kr. umfram í jákvæða niðurstöðu en áætlanir sögðu til um, þ.e. tekjurnar hafa verið um 800 millj. kr. meiri á sama tíma og útgjöldin hafa staðið í stað. Ég er ekki að segja að árið allt verði með svona jákvæðum hætti. En þetta er alla vega góð byrjun á þeirri tilraun að snúa þessari þróun við.
    Í þriðja lagi kjaramálin. Alþb. hefur á undanförnum árum barist fyrir launastefnu sem fælist í því að það fólk sem lægst hefði launin hefði forgang, barist fyrir launastefnu þar sem kjör hinna fjölmennu kvennastétta í landinu væru leiðrétt. Og það er ánægjulegt að okkur hefur nú þegar tekist að gera kjarasamnnga við yfir 20 þúsund launamenn á Íslandi sem staðfesta þessa launastefnu, launastefnu þar sem fólkið með lægstu launin hefur forgang, launastefnu sem staðfestir að kvennastéttirnar á Íslandi hafa fengið mestu réttindin og hagstæðustu bæturnar. Og það er napurt að Kvennalistinn skuli hafa kosið þessa stund til þess að mótmæla slíkum kjarasamningum og krefjast hér á Alþingi sérstakra umræðna utan dagskrár til að berjast gegn þeim
kjarasamningum sem fært hafa því fólki með lægstu launin og hinum fjölmennu kvennastéttum á Íslandi mestu kjara- og réttindabót á undanförnum árum. En konurnar í samtökum launafólks hafa talað. Þær hafa samþykkt þessa samninga með 85--95% atkvæða á sama tíma og Kvennalistinn berst gegn þessum konum hér á Alþingi og utan þings. Og það er ánægjulegt að í dag tókst að gera kjarasamning við Félag háskólakennara, kjarasamning sem enn frekar staðfestir þessa launastefnu en felur líka í sér framtíðarumbætur í rannsóknarstarfi, vísindaiðkunum og starfsháttum Háskólans sem lengi munu nýtast þessari þjóð og verða atvinnulífinu og framförunum til góða.
    Ég vona að það ágæta fólk háskólaborgara í öðrum

stéttarfélögum sem undanfarið hefur háð harða launadeilu muni horfa á þennan samning og í samvinnu við okkur ná þeim árangri á næstu dögum að staðfesta þessa launastefnu sem yfir 20 þúsund manns hafa nú þegar samþykkt, en jafnframt nota tímann til þess að tryggja framtíðaruppbyggingu á sínu eigin starfssviði eins og háskólakennarar ákváðu að gera í dag.
    Þannig mætti lengi telja. Þetta er niðurstaðan úr fyrstu sex mánuðunum á þriggja ára verkáætlun þessarar ríkisstjórnar. Það er rétt sem félagar mínir í þessari ríkisstjórn og samstarfsflokkunum hafa sagt hér í kvöld. Það er góður vinnuandi í þessari ríkisstjórn. Þetta er vinnusöm ríkisstjórn sem ætlar sér að ná árangri. Auðvitað eru alltaf mismunandi áherslur eins og ætíð verður þegar þrír flokkar vinna saman. En innan ríkisstjórnarinnar er nægilegur drengskapur, nægilegur heiðarleiki, nægilegur manndómur til að leysa þann ágreining þannig að upphlaupin sem fjölmiðlarnir keppast við að segja frá í hverri viku gleymast innan tíðar og stjórnin heldur áfram viku af viku, mánuð frá mánuði, ári til árs að vinna sín verk með dugnaði, einbeitni og atorku.
    Ég vil nota þetta tækifæri hér í kvöld til þess að þakka samstarfsaðilum okkar í ríkisstjórn fyrir góða og drenglundaða samvinnu í þessari ríkisstjórn. Ég vil þakka forsrh. þessarar ríkisstjórnar fyrir góða verkstjórn og góða samvinnu við okkur. Og ég vil þakka forustu Alþfl. einnig fyrir heiðarleika og myndarskap í samvinnu við okkur þótt ágreiningsefnin hafi á stundum verið nokkur. Þannig er það rétt sem utanrrh. sagði hér í kvöld. Við erum staðráðin í því að þessi ríkisstjórn haldi áfram að stjórna landinu. Hún hefur nú þegar lokið fyrsta kaflanum í sinni verkáætlun. Annar kaflinn er nýhafinn og við upphaf nýs áratugar munum við festa þriðja kaflann í sessi. Þá mun þjóðin sjá að hún mun ekki vilja Sjálfstfl. á ný til forustu. Þá mun koma í ljós að fylgi Sjálfstfl. í skoðanakönnunum nú verður jafnskammvinnt og fylgi Kvennalistans í skoðanakönnunum fyrir ári síðan vegna þess að þjóðin vill jafnréttisríkisstjórn sem hefur manndóm og einurð til að veita þessari þjóð nýja forustu inn í traustari framtíð og inn í nýja öld. --- Takk fyrir.