Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur. Það vildi ég að við stæðum hér og töluðum til ykkar við allt aðrar og betri aðstæður en raun ber vitni. Að ástandið í þjóðfélaginu hefði gjörbreyst frá síðasta eldhúsdegi. En því miður, sú er ekki raunin. Vissulega höfum við stigið skref í rétta átt, útlitið er betra núna en það var þegar ríkisstjórnin tók við sl. haust og við blasti gífurlegt atvinnuleysi og lokun fyrirtækja og þá sérstaklega í útflutningsgreinunum. Það eru að vísu til menn á hv. Alþingi sem mála skrattann á vegginn, ólmast hér í ræðustól og segja að ástandið sé verra nú en það var við ríkisstjórnarskiptin og mest eru lætin í beinni sjónvarpsútsendingu.
    Staðreyndin er hins vegar sú að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og peningamálum hafa skilað árangri sem kemur fram í lækkun vaxta á lánsfjármarkaðnum, meira að segja vextir á gráa markaðnum hafa lækkað verulega. Raunvextir af verðtryggðum útlánum bankanna hafa lækkað úr rúmum 9% í septemberlok í 7,25% þar sem þeir eru lægstir. Stefnt er að því að þeir verði enn lægri um mitt sumar. Nafnvextir voru í lok september 30% af óverðtryggðum skuldabréfum. Þeir lækkuðu í kjölfar verðstöðvunar niður í 12% í lok desember. Það er hins vegar ljóst að eftir að verðstöðvun lauk og verðbólga jókst hafa nafnvextir hækkað aftur og við því verður að bregðast. Nýgerður samningur við lífeyrissjóðina stuðlar að enn frekari vaxtalækkun. Lækkun vaxta er mikil kjarabót fyrir heimilin í landinu. Og fyrir mörg fyrirtæki er þetta spurning um líf eða dauða. Ríkisstjórnin verður því að leggja höfuðáherslu á áframhaldandi vaxtalækkun.
    Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að stofna Atvinnutryggingarsjóð til að bjarga illa stöddum fyrirtækjum frá gjaldþroti og lokun og koma þannig í veg fyrir að þúsundir manna misstu atvinnu sína. Þessi bráðabirgðaráðstöfun ríkisstjórnarinnar var gagnrýnd harðlega. Nú eru þessar raddir að þagna, enda veitti sjóðurinn 70 fyrirtækjum aðstoð frá því hann var stofnaður og fram til 15. mars. Skuldbreytinga- og hagræðingarlán sjóðsins námu á þessum tíma 2536 millj. kr. sem þýðir að hvert þessara 70 fyrirtækja hefur fengið að meðaltali um 36 millj. kr. Frá 15. mars er auk þess búið að afgreiða önnur 40 fyrirtæki hjá sjóðnum. Af þessu má sjá að það eru háar upphæðir sem farið hafa til þess að bjarga atvinnulífinu frá því hruni sem við blasti í haust. En björninn er ekki unninn. Ef okkur á að takast að reisa atvinnulífið varanlega við þá verður ríkisstjórnin að halda vel á spöðunum og horfa til framtíðar, hafa þar að leiðarljósi þá stefnu Alþb. að horfa á landið sem heild og skipuleggja atvinnulífið eftir svæðum í samræmi við landkosti og þá möguleika sem bjóðast á hverjum stað.
    Skammtímasjónarmið og skammtímalausnir hafa einkennt vinnubrögð stjórnvalda allt of lengi. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur horft á vanda atvinnulífsins, vanda heimilanna, byggðaröskunina og boðið upp á lausnir til eins árs í senn. Tíminn sem þá

hefur unnist til þess að skipuleggja til framtíðar og hefja aðgerðir sem hafa varanlegan bata að markmiði hefur aldrei verið notaður. Þetta er ástæðan fyrir því að fyrirtækin hanga á horriminni. Efnahagsástand þjóðarbúsins er afskaplega bágborið. Og þetta er verkefnið sem núverandi ríkisstjórn hefur til úrlausnar. Hún verður að horfa til framtíðar og vinna samkvæmt því. Það hafa verið stigin skref í rétta átt en mikið verk er óunnið.
    Það er í rauninni aldeilis makalaust hvernig tekist hefur á undanförnum árum að sigla málum í strand eins og við búum í góðu og gjöfulu landi sem býður upp á möguleika til fjölbreyttrar atvinnu.
    Góðir áheyrendur. Það hefur tekist á undanförnum mánuðum að koma í veg fyrir það gífurlega atvinnuleysi sem við blasti. Vextir fara lækkandi og unnið er að því af krafti að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækjanna og koma atvinnulífinu á réttan kjöl.
    Á undanförnum vikum hafa verið gerðir kjarasamningar sem vissulega ber að fagna. Þar er þó verki ólokið. Félagar í Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eru enn í verkfalli og því miður hefur lítið hreyfst í átt að samkomulagi. Stjórnvöld eru að semja við fólk sem gegnir mikilvægu hlutverki í mennta-, heilsugæslu- og rannsóknakerfi landsins í krafti þeirrar menntunar sem það hefur aflað sér. Það þarf ekki að orðlengja mikilvægi þess að samningar náist sem báðir aðilar geta verið sáttir við. Það blasa líka við enn frekari átök á vinnumarkaðnum ef ekki tekst að semja við launþega innan Alþýðusambands Íslands á næstu dögum. Þar er það fólk sem vinnur við sjávarútveginn og aðra undirstöðuatvinnuvegi okkar. Fram kemur í fréttum að afkoma fiskvinnslufyrirtækja hafi aldrei verið eins slæm og á síðasta ári. En þar er ekki launum verkafólksins um að kenna. Reyndar hefur það gerst æ ofan í æ að fiskvinnslufólk hefur orðið að sjá af hluta af launum sínum vegna aðgerða stjórnvalda. Þurft að leggja sinn skerf af mörkum til þess að halda fyrirtækjunum gangandi. Það er almennur rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna sem er rangur og á það ber að horfa. Og það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að
vinna að úrlausnum og bæta skilyrði fyrirtækjanna til rekstrar. Vandamálið er ekki það að fólk fái greidd of há laun fyrir vinnu sína. Því er það rangt að segja að fyrirtækin þoli ekki hækkun launa verkafólks í fiskvinnslu eða annars staðar til jafns á við það sem samningur BSRB við ríkið kveður á um. Með bættum rekstrarskilyrðum og áframhaldandi lækkun vaxta og fjármagnskostnaðar geta fyrirtækin greitt hærri laun. Það sama gildir um ríkið gagnvart starfsmönnum sínum.
    Verði áframhaldandi árangur af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum þá eykst svigrúm til launahækkana. Því er það eitt af meginmarkmiðum þessarar ríkisstjórnar að bæta rekstur ríkisfyrirtækjanna og tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækja í landinu öllu.
    Ég óska ykkur gleðilegs sumars og þakka áheyrnina.