Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Frjálslyndi hægri flokkurinn er mættur til leiks. Það er sumarkoma í íslenskum stjórnmálum og gleðilegt sumar fyrir alla sem una frjálslyndir og víðsýnir við störf og leik.
    Hæstv. forseti. Heimilisböl núverandi ríkisstjórnar er þyngra en tárum taki. Þekkingarskortur ráðherra ríkisstjórnarinnar á rekstri og fjármálum er að sliga fólkið, heimilin, fyrirtækin, í landinu. Gælur við verkefni sem ekki eru til fjármunir fyrir. Þau eru leyst með hærri sköttum á tekjur sem ekki eru til. Óraunsæi endurspeglar forsendur kjarasamninga og sífelld átök gjósa upp í röðum stjórnarþingmanna. Þeir sem gleggst þekkja telja að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar muni springa í loft upp á haustdögum og jafnvel fyrr. Almenningur er orðinn þreyttur á að vera sífellt skattlagður til að standa straum af kostnaðarsömum verkefnum af óskalista ábyrgðarlausra stjórnmálamanna. Um þessar mundir er verið að afgreiða frá Alþingi Íslendinga nokkur frumvörp sem þýða að lágmarki 1 milljarð í aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Frjálslyndi hægri flokkurinn lýsir allri ábyrgð þessara samþykkta á hendur ríkisstjórninni og stuðningsforeldrum hennar. Skattaáþján, gleðigjafi vinstri manna, er að leggja atvinnulífið og heimilin í landinu í fjötra. Hylling skattastefnu núv. ríkisstjórnar á aðalstjórnarfundi Borgfl. nú nýverið er sorgleg. Sú skattahylling segir allt um ástandið á þeim bæ.
    Góðir áheyrendur. Húsnæðiskerfið er brostið og Alþfl. hefur hnuplað hugmynd okkar er stóðum að flutningi frv. um húsbankakerfi með húsbréfunum góðu á síðasta þingi og nú í haust aftur. Húsbréfakerfið sem nú er lagt fram sem stjórnarfrumvarp er þó aðeins léleg eftirlíking, líkt og úr sem götusalar selja gjarnan auðtrúa ferðamönnum. Íslenskir kjósendur láta ekki blekkja sig.
    Hæstv. utanrrh. ræddi hér áðan um varnarleik ríkisstjórnarinnar og sagði að hún mundi leika sóknarleik núna í seinni hálfleik. Það má minna hæstv. utanrrh. á að mesti sóknarleikur sem leikinn hefur verið af íslensku landsliði endaði 14:2 fyrir Dani. Best væri fyrir ríkisstjórnarliðið að selja liðið og kaupa nýja leikmenn sem geta leikið með árangri á vettvangi stjórnmálanna.
    Hæstv. forseti. Verkföll af mannavöldum hafa nú staðið hér um skeið, verkföll sem komast hefði mátt hjá ef núv. ríkisstjórn hefði kunnað til verka í fjármálum. Gífurleg aukning skatta á öllum sviðum, eingöngu til að standa undir óstjórn og bruðli ríkisins, er komin í algjört hámark. Kjósendur eru búnir að fá nóg. Þegar ég stóð að því að biðja um hækkun um nokkrar milljónir við afgreiðslu síðustu fjárlaga spurðu stjórnarmenn, þingmenn og ráðherrar: Hvar á að afla tekna? Þau rök gat ég fallist á og get enn. Um þrjár leiðir er að ræða, að leggja á meiri skatta, færa fjármagn til innan ramma fjárlaga eða spara í þeim rekstri sem fyrir er. Frjálslyndi hægri flokkurinn leggur áherslu á sparnað og tilfærslur á fjármagni og þar með lækkun skatta. En hvað gera stjórnendur ríkisins, ráðherrarnir, þegar þeir hafa farið marga

milljarða fram yfir heimildir fjárlaga? Þeir einfaldlega velta vandanum yfir á heimilin og fyrirtækin í landinu með því að auka skattpíninguna gífurlega. Og það er þetta sem ég kalla verkföll af mannavöldum. Ríkisstjórnin hefur neytt fólkið til verkfalla og gert fyrirtæki gjaldþrota. Ríkissósíalisminn er tekinn við völdum hér á landi á sama tíma og hann er á hröðu undanhaldi í löndum kommúnisma.
    Góðir áheyrendur. Ég þakka þeim er á hlýddu.