Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sagði af sér sögðu ráðherrar í þeirri ríkisstjórn að ástandið í efnahags- og atvinnumálum væri orðið svo alvarlegt að ekki mætti dragast nema nokkra daga að ný ríkisstjórn settist á valdastóla til að gera ráðstafanir í efnahagsmálum því annars mundu hjól atvinnulífsins stöðvast víða um land. Þetta var grafskriftin sem ráðherrar í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar tilkynntu þjóðinni samtímis því að þeir sögðu af sér. Ég hygg að þess séu engin dæmi í allri Íslandssögunni að slíkur dómur hafi verið upp kveðinn yfir eigin verkum.
    Það er undrunarefni að heyra málflutning sjálfstæðismanna nú með hliðsjón af viðskilnaði fyrrv. ríkisstjórnar sem formaður Sjálfstfl. bar fyrst og fremst ábyrgð á þó að allir þrír flokkarnir sem stóðu að þessari ríkisstjórn séu samábyrgir fyrir verkum hennar. Á sama hátt berum við ábyrgð á ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem studdum hana til valda og skrifuðum undir sáttmála um hvernig ætti að komast út úr gjaldþroti frjálshyggjunnar, ríkisstjórn sem margir bundu vonir við, ríkisstjórn sem kenndi sig við jafnrétti og félagshyggju og sem sagðist ætla að skera á okurfjötrana, koma í veg fyrir atvinnuleysi og tryggja atvinnuvegunum sómasamlegan rekstrargrundvöll og síðast en ekki síst jafna lífskjörin og lífsaðstöðuna í þjóðfélaginu.
    Hafa athafnir fylgt orðum? Ég sé ekki betur en að tími sé kominn til, og þó fyrr væri, að bretta upp ermar og taka á málum svo að hægt sé að segja með sanni að ríkisstjórnin standi undir nafni sem stjórn jafnréttis. Það er að vísu stórt spor og lofsverð breyting til réttlætisáttar sem stigið var með þeirri kerfisbreytingu að taka upp sömu krónuhækkun á öll laun. Þar rættist 15 ára gamall draumur minn. En hvað um lágtekjufólkið sem sættir sig nú við sömu krónuhækkun og BSRB-fólkið samdi um? Ég vil ekki trúa því að það þurfi að sækja slíka launabót með verkfallsaðgerðum. Það er ekki nóg að skuldbreyta hjá þeim þó að það sé góðra gjalda vert hjá atvinnuvegunum. Það verður að gera ráðstafanir til þess að rekstrargrundvöllur þeirra sé tryggður, annars nær skuldbreytingin ekki tilgangi sínum.
    Ég mun ekki ræða um húsbréfin hér. Ég held að allir hv. alþm. ættu að skilja að lágtekjufólkið getur ekki tekið við markaðsvöxtum á þau lán.
    Í kosningablaði okkar samtaka sem var gefið út fyrir síðustu alþingiskosningar var því heitið að við mundum endurmeta stefnu okkar í öllum meiri háttar málum miðað við aðstæður í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Þessi vinna hefur nú farið fram á síðustu vikum í ýmsum nefndum, með það í huga að verða við óskum ýmissa aðila, að gera tilraun til þess að fylkja liði með það að markmiði að bjóða fram í öllum kjördæmum.
    Ég hef skýrt frá því á opinberum vettvangi að t.d. ýmsir þjóðarflokksmenn vildu stuðla að slíku framboði og á síðasta aðalfundi þeirra hafi verið kosin nefnd til þess að taka upp viðræður um slíkt framboð við

okkur og fleiri aðila. Mér hefur verið borið það á brýn í fjölmiðlum að ég fari með fleipur eitt um áhuga þjóðarflokksmanna um framboð með okkur í næstu alþingiskosningum. Í Dagblaðinu 25. apríl stendur þetta: ,,Sveinbjörn Jónsson, oddviti á Suðureyri og annar maður á lista Þjóðarflokksins í síðustu kosningum, sagði í samtali við Dagblaðið að þjóðarflokksmenn á Vestfjörðum mundu berjast með oddi og egg fyrir samstarfi við Samtök um jafnrétti og félagshyggju. ,,Ef kosningar yrðu á næsta ári legðum við allt í sölurnar til að ná samstarfi við Stefán Valgeirsson. Það var samþykkt á síðasta aðalfundi okkar að hefja viðræður við aðra flokka og til þess kosin nefnd. Samtök um jafnrétti og félagshyggju hafa nánast sömu stefnu og við fyrir utan nokkra áherslupunkta. Og það yrði slys ef við yrðum ekki í sameiginlegu framboði í komandi kosningum.```` Þetta sagði Sveinbjörn Jónsson, oddviti á Suðureyri. Og í fleiri þjóðarflokksmenn væri hægt að vitna.
    Ég vil fara yfir nokkur atriði úr okkar stefnuskrá, með leyfi forseta.
    Gildismat og þjóðfélagssýn:
    Samtökin vilja nýjan hug inn í íslensk stjórnmál sem byggir á heildarsýn og aukinni vitund og viðurkenningu á raunverulegum verðmætum okkar og samábyrgð gagnvart landi og þjóð. Verðmæti okkar liggja fyrst og síðast í okkur sjálfum og tengslum okkar hvers við annað og náttúruna umhverfis okkur. Það þjóðfélagskerfi sem við höfum búið okkur endurspeglar viðhorf okkar og samskiptamáta hvers við annað. Kreppa ríkir í íslensku þjóðfélagi og birtist í ýmsum myndum, jafnt í innviðum þess sem hjá æðstu valdastofnunum. Fleiri og fleiri eru að átta sig á að hefðbundnar leiðir stjórnvalda duga hvergi til að leysa þennan vanda þjóðarinnar.
    Mikilvægt er að greina rætur vandans til þess að verða betur fær um að sjá hvað þarf að gera til að bæta mannlífið og hvaða leiðir við getum notað. Rætur vandans liggja hjá okkur sjálfum og í samskiptum hvers við annað. Við vantreystum og vanmetum okkur sjálf, látum hlutina yfir okkur ganga eða festumst í samkeppni, skammsýni og gróðahyggju, hvert á okkar bás, án tengsla við þjóðarsálina í heild eða raunverulegan lífstilgang. Þetta leiðir til margs
konar kreppuástands. Dæmi: Misrétti milli kynja, þjóðfélagshópa og landshluta. Fjölskyldan, grunneining þjóðfélagsins, er vanmetin og vanrækt og úr tengslum við hið ytra kerfi. Skortur á heildarsýn, stöðug skammtímaúrræði án tillits til hvaða áhrif þau hafa innbyrðis hvert á annað og á framtíðarmarkmið. Miðstýring og forræðishyggja, samsöfnun peninga og valds á fárra hendur, okurvextir. Mikið vinnuálag beggja foreldra, vaxandi félagsleg og andleg vandamál. Fólksflótti af landsbyggðinni og verðhrun á eignum. Gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja. Aukið vonleysi og minnkandi traust og virðing á stjórnvöldum. Þverrandi siðferðiskennd, ábyrgðarleysi, óheiðarleiki, firring, lífsblekking.
    Þrátt fyrir alla þessa skugga eigum við mikinn auð í sjálfum okkur, menningu okkar og náttúru. Við

búum yfir fjölbreyttri þekkingu og hæfileikum sem mikilvægt er að rækta og samhæfa. Vitundarvakning er greinilega hafin meðal þjóðarinnar og kallar á nýjan hug, nýjar leiðir í stjórnmálum og öllu okkar þjóðfélagskerfi.
    Grundvallarmarkmið samtakanna er jafnrétti milli einstaklinga og byggðarlaga sem byggir á heiðarleika og virðingu í samskiptum fólks, heilbrigð þjóð sem hlúir að börnum sínum, menningu og náttúru, og stuðlar að friði og framþróun í samskiptum þjóðarinnar. Grunntónninn í öllum markmiðum samtakanna felst í að efla menntun, menningu og heilbrigði sem leiðir til bættra tengsla, frelsis og getu einstaklingsins til ábyrgðar gagnvart sjálfum sér, fjölskyldu, heimabyggð og samfélaginu. Við viljum að þekking og grundvallarforsendur til betra mannlífs verði ekki lengur í höndum fámennra sérfræðihópa eða hagsmunahópa, heldur verði almenningseign. Samtökin leggja áherslu á stöðugt endurmat á stefnu og leiðum í virku starfi kvenna og karla við ólík störf með lífssýn samtakanna og framtíðarmarkmið að leiðarljósi.
    Ýmis grundvallaratriði:
    Enn sem fyrr leggjum við höfuðáherslu á jafnréttis-, byggða- og fjölskyldumál. Jafnréttismálin tengjast öllum öðrum málaflokkum sem einn grundvallarþáttur í lífssýn og stefnu samtakanna. Jafnrétti byggist á heilbrigðum samskiptum, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og hæfni og frelsi til að taka ábyrgð á eigin lífi og samfélagi. Vinna verður að jafnrétti kynja, þjóðfélagshópa og byggðarlaga með samhæfðum leiðum sem taka jafnt til menntunar, menningar og uppeldismála sem félagslegra og efnahagslegra aðgerða. Efnahagslegar aðgerðir mega aldrei spilla auðlindunum, hvorki fólki né náttúru.
    Byggðamál, markmið:
    Við viljum stuðla að svipaðri búsetu í landinu og nú er og efla hana með skipulögðum hætti til að nýta skynsamlega auðlindir og fjárfestingu og til að draga úr ofnýtingu og staðbundinni mengun og til að skapa mannlegt og fjölbreytt mannlíf. Þess vegna verðum við að stöðva og snúa við fólksflóttanum af landsbyggðinni. Það gerist ekki á meðan fjármagnið deilir og drottnar og okrið heldur áfram hömlulaust með þeim afleiðingum að framleiðslan býr við hallarekstur sem leiðir svo af sér að fyrirvinnufólkið í þjóðfélaginu býr við launakjör sem eru undir fátæktarmörkum. Þess vegna viljum við tryggja atvinnustarfseminni á landsbyggðinni fjárhagslegan grundvöll svo að hún geti borgað sambærileg laun og gerist og gengur í þjóðfélaginu og fólk eigi þess kost að fá atvinnu í heimabyggð. Enn fremur viljum við deila völdum svo að þegnarnir verði virkari í ákvörðunartöku í sinni heimabyggð. Gera þarf átak í samgöngumálum með það í huga fyrst og fremst að tengja saman byggðarlög innan landshlutanna. T.d. er ljóst að byggð á Vestfjörðum og Austfjörðum þróast ekki sem skyldi nema til komi jarðgangagerð í báðum landshlutum.
    Í umhverfismálakaflanum segir m.a.: ,,Stjórnun

umhverfismála verður ekki skilin frá stjórnun og nýtingu auðlindanna.`` Og þetta hvort tveggja verði sem mest í höndum heimamanna svo að best verði staðið að verndun og nýtingu hvers konar auðlinda.
    Í kaflanum um fjölskyldumál segir: ,,Við viljum styrkja einstaklinginn og fjölskylduna sem grunneiningu þjóðfélagsins með öllum tiltækum ráðum. Sterkar og heilbrigðar fjölskyldur mynda sterkt og heilbrigt þjóðfélag. Við fæðumst öll sem hluti af fjölskyldu og hún hefur grundvallaráhrif á heilsu okkar og þroska og samskipti hvers við annað. Þess vegna verður hún að vera brennidepill ef við viljum bæta okkar mannlíf.``
    Í húsnæðiskaflanum segir: ,,Samtökin telja samfélaginu skylt að auðvelda ungu og eignalitlu fólki kaup eða afnot af viðunandi íbúðarhúsnæði. Samtökin vilja stuðla sem mest að því að menn eigi íbúðir sínar sjálfir með því að halda við og efla gamla húsnæðiskerfið. Samtökin vilja auka byggingar verkamannabústaða og kaupleiguíbúða.``
    Um bankamál segir m.a.: ,,Lánskjaravísitalan verði aflögð sem aðalviðmiðun í lánsviðskiptum. Vextir lækki þegar í stað og verði aldrei hærri en að eðlilegur atvinnurekstur geti staðið undir fjármagnskostnaði. Lánstími til atvinnurekstrar verði með þeim hætti að hann geti staðið undir afborgunum og vöxtum. Koma verður í veg fyrir vaxtatöku sem gerir upp á milli þjóðfélagsþegnanna, þ.e. svokallaða kjörvexti. Aukið verði sjálfstæði
útibússtjóra ríkisbankanna á landsbyggðinni að því marki að þeir geti ráðstafað því fjármagni sem verður til heima í héraði. Enda beri hver þeirra ábyrgð á sínu útibúi. Ríkisbankarnir verði efldir svo þeir geti gegnt hlutverki sínu.``
    Um sjávarútveginn segir: ,,Við viljum nýta auðlindir sjávar á skynsamlegan hátt og skapa sem mesta og tryggasta atvinnu á sjó og í landi. Jafnframt skal stefna að fullnýtingu sjávaraflans með það að markmiði að gera hann sem verðmætastan. Skapa verður sjávarútvegi viðunandi rekstrarskilyrði, enda undirstaða íslensks efnahagslífs.`` Og enn segir: ,,Marka skal nýja sjávarútvegsstefnu sem tekur mið bæði af veiðum, vinnslu og sölu fiskafurða.``
    Í landbúnaðarkaflanum segir m.a.: ,,Til að hindra frekari byggðaröskun má ekki draga meira úr búvöruframleiðslu en þegar hefur verið gert fyrr en búið er að byggja upp aðra atvinnustarfsemi á viðkomandi svæðum. Þau héruð og einstakar jarðir sem erfiðast eiga með að fara út í búháttabreytingar eða fá aðra atvinnu og eru best fallin til sauðfjárræktar, sitji fyrir með þá framleiðslu að því marki að viðunandi afkoma náist og byggðaröskun verði ekki vegna lágra rauntekna.`` Og enn segir: ,,Framleiðsluréttur verði fyrst og fremst aukinn hjá þeim sem hafa minnstan framleiðslurétt þegar tekið er tillit til fjölskyldustærðar og fjármagnsbyrða.``
    Um sveitarstjórnarmál segir: ,,Samtökin leggja áherslu á stóraukið sjálfstæði sveitarfélaganna og aukin áhrif íbúanna á stjórn þeirra. Samtökin vilja breyta tekjuöflun opinberra aðila þannig að tryggt sé að

sveitarfélögin geti sinnt málum sem þeim verða falin. Samtökin leggja áherslu á nýskipun sveitarstjórnarmála og vilja að lýðræðislega verði staðið að breytingum og þær bornar undir íbúa í viðkomandi sveitarfélögum eða þjóðar með þjóðaratkvæði til staðfestingar.``
    Við viljum nýjan hug inn í okkar stjórnmál sem byggir á heildarsýn og aukinni vitund og viðurkenningu á raunverulegum verðmætum okkar og samábyrgð gagnvart landi og þjóð. Ég býð öllum hlustendum gleðilegt sumar og vona að sumarið komi sem allra fyrst. Stefnuskrá okkar verður hægt að fá á skrifstofu minni í Þórshamri.