Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Of skammt er liðið til þess að hafa söguskýringar um stjórnmálaþróunina í landinu síðasta árið þótt vissulega hafi það verið viðburðaríkt. Það er réttara að horfa fram á veginn en til baka. Þó get ég ekki annað en minnt á það hér í upphafi máls míns hvers vegna leiðir skildi í samstarfi Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. um stjórn landsins. Leiðir skildi vegna þeirrar sannfæringar sem ræður í Sjálfstfl., að markaðsöflin geti stjórnað af fullkomnu réttlæti í þessu þjóðfélagi. Þetta var og er vitlaus kenning.
    Markaðsöflin hafa aldrei stjórnað af réttlæti þar sem þau hafa fengið að leika lausum hala. Þau hafa ávallt mismunað þjóðfélagsþegnunum. Í okkar tilfelli voru þeir sem lánuðu peninga og versluðu með verðbréf með hávöxtum og afföllum í náðinni, en framleiðsluatvinnuvegirnir urðu undir í glímunni. Þessum leik var ekki hægt að taka þátt í. Þess vegna varð ný ríkisstjórn til og Sjálfstfl. valdi sér það hlutverk að fara í stjórnarandstöðu. Þrisvar hefur sést með stjórnarandstöðunni lífsmark sem skylt er að greina frá.
    Fyrsta lífsmarkið var barátta fyrir hallarekstri á ríkissjóði og ádeilur á ríkisstjórnina fyrir skattaálögur. Þó að sjálfstæðismenn telji mest viðskiptavit saman komið í sínum flokki einkaframtaksins er þeim fyrirmunað að skilja að tekjur og gjöld ríkissjóðs verða að standast á ef vel á að fara. Séu ekki lagðir á skattar verður að skera niður útgjöld. Enginn hefur séð marktækar tillögur þar um. Ég nefni þetta hér vegna þess að núverandi ríkisstjórn þurfti að vinna það óvinsæla verk á haustdögum að tryggja rekstur ríkissjóðs á yfirstandandi ári.
    Þá er komið að því lífsmarki stjórnarandstöðunnar að berjast ötullega gegn þeim sjóðum sem komið hefur verið á laggirnar til fjárhagslegrar endurskipulagningar útflutningsgreina. Haldið var uppi þrætubók hér á Alþingi um þjóðnýtingu og skussasjóði, en þó er það staðreynd að starfsemi þessara sjóða hefur verið lykilatriði í þeirri baráttu sem háð hefur verið á síðustu mánuðum um að leysa mjög erfið vandamál atvinnufyrirtækja um land allt. Þessi barátta stendur enn og henni er ekki lokið. Það er fullvíst að ef ekki hefði verið gripið í taumana á haustdögum hefðu framleiðsluatvinnuvegir landsmanna stöðvast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þrátt fyrir mjög erfið staðbundin vandamál í fiskvinnslu og mikla óvissu ýmissa útflutningsfyrirtækja hefur tekist að halda uppi útflutningsframleiðslunni. Og þá er komið að þriðja lífsmarki stjórnarandstöðunnar, en það lífsmark var það að berjast gegn þeim lagafrumvörpum sem hafa verið til meðferðar hér í vetur og hafa þann tilgang að vera verkfæri til þess að hafa stjórn á vaxtaþróun í landinu. Orustan um vextina og fjármagnskostnaðinn hefur staðið linnulaust og framtíð þessarar ríkisstjórnar veltur á því að hún vinnist.
    Á síðustu árum hefur þróunin orðið sú að flutningar fólks frá landsbyggðinni á

höfuðborgarsvæðið hafa aukist. Þessi þróun er þjóðarheildinni í óhag, bæði landsbyggðinni og ekkert síður höfuðborgarsvæðinu. Það veltur á um farsæla framtíð þessarar þjóðar að það takist að koma hér jafnvægi á. Við sem stöndum að þessari ríkisstjórn höfum einsett okkur að ná því marki. Sjónarmið manna sem álykta að upphaf mannlífs sé í ráðhúsgrunninum hér fyrir utan og endirinn í glerhúsi uppi á Öskjuhlíð mega ekki ráða. Þeim mönnum verður að skiljast að auknir mannflutningar hingað þýða aðeins óeðlilega spennu og sveiflur í fjárfestingum og á vinnumarkaði, fjárfestingu í skólamálum, heilbrigðismálum og umferðarmannvirkjum, auk hvers konar þjónustu og byggingu íbúðarhúsnæðis. Eftir standa þau mannvirki sem fólkið fer frá, illseljanleg, illa nýtt og e.t.v. auð. Byggðamál verða aldrei skilin frá annarri þróun í þjóðfélaginu. Baráttan um það hvort hægt verður að endurskipuleggja fjárhagsstöðu atvinnufyrirtækjanna í landinu og skapa þeim rekstrarstöðu er upphaf og endir byggðamála.
    Við Íslendingar höfum þá sérstöðu meðal nágrannaþjóða okkar að við byggjum á sjávarafla fyrst og fremst. Sú atvinnustarfsemi fer fram frá byggðarlögum hringinn í kringum land í nálægð við þessar auðlindir. Þungamiðja framleiðslustarfseminnar er ekki í borgum eins og gerist hjá hinum sterku iðnaðarþjóðum sem við viljum svo oft miða okkur við. Þessi framleiðslustarfsemi er undirstaða þjónustu úti á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu. Verði grafið undan þessari framleiðslustarfsemi með verðbólgu og þar með hækkandi fjármagnskostnaði hrynur öll sú yfirbygging eins og spilaborg. Það skyldu menn hafa í huga, ekki síst nú þegar átök standa um það hversu miklar kostnaðarhækkanir á að leggja á þessar undirstöður.
    Á herðar þessarar kynslóðar er lögð mikil ábyrgð. Við höfum notið tækniframfara ásamt þeirri afkastaaukningu sem þeim fylgir. Við höfum tæki í höndunum til að gjörnýta okkar auðlindir. Þetta leggur okkur þá skyldu á herðar að taka ekki um of, ganga ekki of nærri auðlindum lands og sjávar. Framtíð þjóðarinnar er undir því komin að hófsemd og öfgaleysi ráði í þessum efnum. Makrmiðið á ekki að vera það að finna sökudólga heldur að sameina alla þjóðfélagsþegna um skynsamlega nýtingu auðlindanna.
    Afkoma landbúnaðarins í landinu og afkoma hinna dreifðu byggða verður ekki aðskilin. Ekki má hvika frá þeirri stefnumörkun að við eigum að framleiða sjálfir okkar landbúnaðarvörur fyrir innanlandsmarkað. Allar þróaðar þjóðir reyna að varðveita sinn landbúnað. Skammtímasjónarmið um skjótfenginn gróða af innflutningi landbúnaðarafurða mega ekki ráða. Samdráttur síðustu ára hefur komið þungt niður í sveitum landsins. Sem betur fer eru möguleikar þar fyrir hendi. Fyrir Alþingi liggur nú frv. um skógrækt sem gjörbreytir aðstöðu til skógræktar á bújörðum verði það að lögum. Hér er verkefni sem sameinar þá þrjá mikilvægu þætti að bæta landið, leggja gull í lófa framtíðarinnar og veita mikilvæga atvinnu í sveitum

sem yrði til að styrkja það samfélag sem þar er og sporna við eyðingu byggðar.
    Ójafnvægið í byggðum landsins stafar ekki síst af því hlutverki Reykjavíkur að vera þjónustumiðstöð landsmanna og miðstöð stjórnsýslunnar. Þetta gerir það að verkum að atvinnutækifæri eru fjölbreyttari og meiri möguleikar til að fá atvinnu í samræmi við menntun hvers og eins. Það er þó ekkert náttúrulögmál að allir þræðir stjórnsýslu liggi hér um miðbæinn. Með bættum samgöngum og bættum fjarskiptum gjörbreytast möguleikarnir í þessu efni. Upplýsingar berast á milli landshluta á örskotshraða og af því leiðir að forðast verður vanahugsun og íhaldssemi í staðsetningu stofnana. Flutningur aðalstöðva Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað er prófmál sem mundi marka tímamót ef framkvæmdur yrði.
    Vandamál dagsins í dag í þjónustustarfsemi á landsbyggðinni er skortur á áhættufjármagni fyrir það fólk sem vill fara nýjar leiðir. Erfiðir tímar í undirstöðuatvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi, hafa gert það að verkum að fyrirtæki í þeim greinum eru ekki aflögufær til þess að taka þátt í nýjum fyrirtækjum. Þetta býður heim hættu á kyrrstöðu og því er það brýnt verkefni í kjölfar aðgerða í útflutningsgreinum að huga að þessum þætti. Aldrei verður snúið við þeirri búsetuþróun sem verið hefur að undanförnu nema öflug nýsköpun eigi sér stað í þjónustustarfsemi á landsbyggðinni. Sem betur fer skortir ekki bjartsýnt og dugandi fólk úti á landi sem vill takast á við ný verkefni.
    Samgöngumál eru einn af þeim þáttum sem talidir eru grundvallaratriði byggðar. Það hefur mikið áunnist í þeim efnum en stór verkefni eru fram undan. Samgöngubætur framtíðarinnar verða að miða að því að stækka atvinnu- og þjónustusvæði og auðvelda aukið samstarf og verkaskiptingu milli byggðarlaga. Á sama hátt og með stjórnsýsluna er brýnt að menn ánetjist ekki of mikilli íhaldssemi í slíkum samskiptum og hafi augun opin fyrir breytingum sem bættar samgöngur hljóta að hafa í för með sér.
    Góðir tilheyrendur. Tími minn er nú á þrotum og vil ég láta það verða mín lokaorð að það fylgja því fjölmargir kostir að búa úti á landsbyggðinni. Í fámenni hefur hver einstaklingur stórt hlutverk. Því hlutverki fylgir lífsfylling ef bjartsýni ræður og trú á þá möguleika sem fyrir hendi eru til framfara fyrir alla þjóðina.
    Ég óska landsmönnum öllum góðs og gjöfuls sumars. --- Góða nótt.