Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Þegar mér varð litið upp úr því annríki sem síðustu dagar þingsins bjóða og hugleiddi hvað segja skyldi hér í kvöld kom margt upp í hugann. Mér varð litið til þingsins, þessa starfsvettvangs þar sem við kvennalistakonur höfum unnið sl. sex ár. Margt má gott um þingið segja og þau sem hér vinna, en vinur er sá er til vamms segir.
    Þrátt fyrir breytt þingsköp og ýmsar umbætur ríkja hér enn að ýmsu leyti forneskjuleg og ómarkviss vinnubrögð. Þau eiga ekkert skylt við virðingu fyrir gömlum og góðum gildum en bera fremur vitni um einangrun Alþingis sem stofnunar í þjóðfélaginu. Starfshættir hér mótast einnig af þeim leikreglum stjórnmálanna sem byggja á valdabaráttu, sundurlyndi og sigri hins sterka. Þetta leiðir til tímasóunar því að stjórnarandstaða á oft ekki annarra kosta völ en að beita málþófi til að tefja eða stöðva mál. Þrátt fyrir það eru á hverju þingi gerðar tilraunir, oft vel heppnaðar, af hálfu stjórnarmeirihlutans til að keyra í gegnum þingið sínar breytingar á stórum málaflokkum. Frumvörpin eru allt of oft vanbúin, jafnvel hroðvirknislega unnin og hefur ekki verið gætt að afleiðingum þeirra eða samhengi við önnur mál. Í skjóli meirihlutavalds ná þau oft fram að ganga óbreytt en þingheimur berst um í tímaþröng og lætur neyða sig til óvandvirkni. Flestir þingmenn viðurkenna að vinnulagið sé ótækt og þinginu til vansa en samt er engu breytt. Það er rannsóknarverkefni í sjálfu sér hvers vegna menn sækja í þennan óvana eða láta hann yfir sig ganga.
    Það vekur undrun margra og þykir mótsagnakennt að hér skuli menn að hefðbundnum hætti hefja mál sitt með því að ávarpa ýmist háttvirta eða hæstvirta áheyrendur sína en hnakkrífast síðan við þá og húðskamma. Hér þruma menn hver yfir öðrum, eins og ég geri nú, úr háskipuðum ræðustól en tala of lítið saman eins og fólki er eiginlegt og hlusta ekki nógu vel hver á annan. Óviðunandi er einnig að hér skuli menn allt of oft tala fyrir hálftómum sölum eða daufum eyrum og flytja þannig vandaðar og vel undirbúnar ræður um sín hjartans mál. Þetta á ekki síst við um konur.
    Þingstörfin eru að vísu margvísleg og einungis hluti þeirra fer fram hér í þingsölum. Ef til vill eru þó fjarvistir þingmanna gleggsta og beinasta gagnrýnin á þetta samskiptaform og í raun óbein krafa um breyttar áherslur í framtíðinni. Alþingi má ekki einangrast og verða líkara safnhúsi gamalla og ólýðræðislegra starfshátta en farvegi virkra skoðanaskipta í anda þess þingræðis og lýðræðis þar sem menn hlusta á og taka tillit til sjónarmiða annarra. Slíkt þykir vænlegra til farsælla málalykta á öðrum vinnustöðum, þ.e. að hópar reyni að leysa mál sín með samvinnu fremur en togstreitu.
    Þingmenn geta talað um hið háa Alþingi og hæstvirt eða háttvirt hver annan að vild. En hin margumrædda virðing Alþingis festir hvorki rætur né vex í hugum fólks ef alþingismenn virða ekki þá ábyrgð og þær skyldur sem fulltrúahlutverk þeirra

færir þeim. Sama máli gegnir um aðra þá er gegna opinberum stöðum eða embættum. Það er eðlilegt að til þeirra séu gerðar þær kröfur að hegðun þeirra varpi ekki skugga eða tortryggni á þá stöðu sem þeir gegna eða grunur falli um að þeir misnoti aðstöðu sína.
    Aðstoðarmaður Noboru Takeshita, forsætisráðherra Japans, svipti sig lífi á dögunum þegar yfirmaður hans sagði af sér eftir að hann hafði orðið uppvís að aðild að fjármálahneyksli. Þessi voðaatburður vekur umhugsun um það hvernig menn skilja og hvernig menn taka misjafnlega alvarlega hugtökin heiður og siðferðileg ábyrgð. Hér á landi hafa þeir atburðir orðið á sl. árum sem grafið hafa undan trausti almennings á stjórnmálamönnum og ýmsum þeim er gegna opinberum stöðum. Það sem fólki finnst oft erfiðast að kyngja er að þrátt fyrir stórfelld mistök, svo að ekki sé fastara að orði kveðið, virðast ráðamenn víkja sér undan ábyrgð en almenningur ber tjónið. Það er erfitt og þarf hugrekki til að takast á við siðspillingu í kunningjaþjóðfélagi. Því er nauðsynlegt að hafa skýrar reglur um heimildir manna og rétt þannig að slíkt sé ekki túlkunaratriði heldur ótvírætt.
    Sá hefðbundni vandi sem þingmenn og einkum ríkisstjórn glímir við virðist fremur vaxa í höndum manna en minnka. Það er erfitt fyrir ósköp venjulegan Íslending að skilja að nú eftir hvert metaflaárið á fætur öðru og hið síðasta ætíð betra en það sem á undan fór skuli fiskvinnslan hrunin, eins og fram kom á fundi fiskframleiðenda nýlega. Sú ríkisstjórn sem nú situr var þó beinlínis mynduð í skyndingi á haustdögum einmitt til að bjarga fiskvinnslunni. Þó að verkefnið sé ekki auðleyst hlýtur eitthvað meira en lítið að vera athugavert við hugmyndaflug, vinnubrögð og ákvarðanir manna þegar svona illa spilast úr góðærunum ár eftir ár. Stjórnmálamenn hafa með réttu verið sakaðir um að leggja allt of þungar áherslur á efnahagsmálin í umræðum og þá á fræðimáli með hugtökum sem öllum þorra manna eru framandi og óskýr. Þessi einblíning stafar e.t.v. af kvíða gagnvart efnahagsvandanum sem ævinlega virðist óleysanlegur. Því heyrist mönnum fremur sem bókhaldaragrátur berist úr stjórnmálaumræðunni en ómur af hugsjónatali. Á hinn bóginn verður efnahagsvandinn eða vandi atvinnulífsins aldrei leystur einn og sér án samhengis við aðra
grundvallarþætti og þarfir þjóðfélagsins. Vinnubrögð sem ráðast af þeirri hugsun sem leitast við að hólfa og einangra vandamál og beita skammtímalausnum hafa tíðkast um of á kostnað þeirra lausna sem leiða af heildarsýn og miða við framtíðarþarfir.
    Það eru óvissutímar í stjórnmálum og sú ríkisstjórn sem nú situr nýtur óvanalega lítils trausts samkvæmt skoðanakönnunum og það þrátt fyrir tímamótasamninga í þágu kvenna sem hæstv. fjmrh. nefnir svo og státar sig óspart af. Nú sakna ég hans hér í salnum því að mig langar að segja nokkur orð í tilefni af orðum hans. Það er alrangt að Kvennalistinn hafi barist gegn konum sem staðið hafa í samningagerð eða náð samningum. Það höfum við hvorki gert á þingi eða utan. Hins vegar höfum við

efast um endingu og ágæti samninganna en tíminn mun skera úr um það. Hæstv. fjmrh. geislaði þó af sjálfumgleði meðan hann marglofaði þessa manndómsfullu stjórn sem hefur fundið til svo mikillar vinsemdar gagnvart konum. Mér datt í hug meðan ég hlustaði á hann tala: Dramb er falli næst. Það vakti líka athygli mína hvað hann þakkaði samráðherrum sínum hjartanlega fyrir samveruna. Það var hægt að láta sér detta í hug að hann væri á förum. Slíkt gæti reyndar orðið fyrr en varir því að ríkisstjórnin glímir einnig við þann vanda að hafa nauman og óvissan meiri hluta á þingi og innbyrðis sundurþykkja eykur á veikleika hennar.
    Ríkisstjórnin lætur sér lynda óviðunandi hátt verð á matvælum, hærra verð en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þessi óhjákvæmilegi kostnaður hverrar fjölskyldu er auðvitað grundvallaratriði við gerð kjarasamninga en hann er orðinn svo íþyngjandi fyrir launafólk að víða kreppir að. Skattlagning til að afla fjár til sameiginlegra velferðarmála er sjálfsögð, en öllu máli skiptir hvernig staðið er að slíkri skattlagningu. Skattlagning á grundvallarþarfir eins og matvæli er bæði röng og óréttlát. Kvennalistinn krefst þess að matarskatturinn verði afnuminn og skorar á Alþb. að standa við stóru orðin og ég beini þessum orðum mínum sérstaklega til hæstv. fjmrh. því að málið er í raun á hans valdi.
    Það eru sex ár síðan kvennalistakonur voru kosnar á þing. ,,Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur? Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg?`` spurði Jónas Hallgrímsson. Svar mitt er hiklaust já. Kvennalistinn hefur ekki einungis lifað af tvennar kosningar heldur vaxið og dafnað. Við höfum tvöfaldað kosningafylgi okkar á tímabilinu og verið eina stjórnmálaaflið sem hefur haldið meira en ríflegu kosningafylgi í öllum skoðanakönnunum síðan vorið 1987 svo að ekki sé minnst á ótrúlegar sveiflur upp á við um hríð. Við höfum flutt tæp 300 þingmál á þessum tíma, þar af reyndar 164 fyrirspurnir en oft getur ein fyrirspurn orðið afdrifaríkari en frumvarp eða þingsályktunartillaga. Þó hafa einungis 11 þingmál okkar fengist samþykkt.
    Með virkri þátttöku í umræðum og umfjöllun um mál á þingi hefur okkur stundum tekist að hafa áhrif til breytinga en miklu varðar að sjónarmið kvenfrelsis, kvennabaráttu og valddreifingar hafa verið virkur þáttur í stjórnmálaumræðunni þennan tíma. Þó að margt hafi borist af þeim vettvangi til þjóðarinnar og víða megi finna vönduð vinnubrögð hjá fjölmiðlungum er þó enn á brattann að sækja fyrir konur eins og nýlegar kannanir sýna og líklega enn langt að bíða þar til aldarandinn og almennt fréttamat dæmir skoðanir og viðfangsefni kvenna jafnáhugaverð og merkileg til frásagnar og karla.
    Stjórnmálaflokkarnir hafa brugðist á ýmsan hátt við tilkomu Kvennalistans m.a. með því að veita konum öruggari sæti þannig að nú eru fleiri konur á Alþingi en nokkru sinni fyrr eða 13 í stað þriggja þegar Kvennalistinn kom til sögunnar. Ekki er hægt að segja að kjör kvenna hafi almennt batnað á þessum tíma.

Konur eru enn aðeins rúmlega hálfdrættingar á við karla í launum þrátt fyrir langan vinnudag. Hins vegar hefur launamisréttið og annað misrétti verið betur skilgreint og fleiri konur eru meðvitaðar um rétt sinn en áður og hugur þeirra, samstaða og baráttuvilji hefur vaxið.
    Reynsla og rannsóknir á dreifbýli á Norðurlöndum hafa sýnt að þaðan sem konur flytja burt og karlar verða einir eftir leggst byggð fljótlega af. Konurnar eru einfaldlega ómissandi. Sama má segja um stjórnmálin. Það er að renna upp fyrir æ fleirum að konur og lífsgildi þeirra eru ómissandi í stjórnmálum og annars staðar við ákvarðanatöku um hag samfélagsins. Með konum býr nú án efa sterkasta hreyfiafl til jákvæðra framfara í þjóðfélaginu og vaxandi þátttaka kvenna mun valda straumhvörfum. Hins vegar eru karlar nær óvirkjuð orkulind til heimilis- og umönnunarstarfa og blasa þar við ótrúlegir virkjunarmöguleikar á næstu árum og áratugum. Konur munu breyta vinnubrögðum og áherslum í stjórnmálum, á Alþingi og í þjóðfélaginu öllu í átt til meira réttlætis fyrir bæði kynin og ekki síst fyrir börnin.
    Kvennalistinn er ung hugsjónahreyfing. E.t.v. héldu einhverjir að við mundum breyta heiminum á sex árum. Svo bjartsýnar vorum við ekki. Breyting hugarfarsins tekur lengri tíma, en þátttaka í stjórnmálum miðar að því að koma hugsjónum í framkvæmd. Kvennalistakonur mátu það svo tvisvar á sl. ári eftir vandlega íhugun og víðtæk samráð sín á milli að hafna stjórnarþátttöku. Við mátum það svo að pólitískur styrkur okkar væri ekki nægur, skilyrðin
óaðgengileg, tíminn einfaldlega ekki réttur og við einar getum metið slíkt. Það má ekki jafna því við ábyrgðarleysi ef samtökum eða einstaklingum eru hugsjónir svo dýrmætar að þær verði ekki framseldar, allra síst í skiptum fyrir óvissuna eina. Það er ekki síður ábyrgðarhluti að standa vörð um hugsjónir sínar og vera þeim trúr en alltaf er mikilvægt að þekkja sinn vitjunartíma. Kvennalistakonur eru tilbúnar í kosningar og þær geta orðið fyrr en varir. Þá munum við ótrauðar kynna stefnu okkar og vinnubrögð eins og áður og leita þess fylgis sem veitir okkur brautargengi til að koma hugsjónum okkar í framkvæmd með þátttöku í ríkisstjórn.
    Ég þakka áheyrnina og býð öllum landsmönnum gleðilegt og gjöfult sumar.