Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Kjósendur standa nú á krossgötum. Þeir standa frammi fyrir því að gera upp hug sinn til stjórnmálamannanna. Verk vinstri manna í núverandi ríkisstjórn segja alla söguna. Nú hafa menn nýtt val, frjálslynda og hægri flokkinn sem er ætlað að vera mótvægi við óslökkvandi þorsta vinstri flokkanna fimm í eignir almennings og fyrirtækja.
    Góðir áheyrendur. Máttleysi þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og aðstandenda hennar er dæmalaust. Þar ber fyrst að nefna stöðuna í kjaramálunum sem er slík að það er með eindæmum. Það er slæmt til þess að vita að vænna þykir ráðherrunum um stólana sína en fólkið og atvinnuvegina í landinu. Það er eðlilegt að svo sé því að það er afleiðing slæmrar stjórnunar í landinu eftir þá mánuði sem ríkisstjórnin hefur setið og ekki gert neitt sem mark er á takandi.
    Ef við lítum á stríðsyfirlýsingar eins og þær sem sjútvrh. gaf í gær þá vekja þær furðu. Þótt ég sé talsmaður frjálsra samninga verður ríkisstjórnin auðvitað að taka af skarið. Frumvinnslugreinarnar eru á þrotum. Hinar vinnandi hendur í frystihúsunum hafa æ minna á milli handanna og í mínu kjördæmi eru farir sjávarútvegsins hörmulegar á sl. ári. Það þýðir lítt fyrir hæstv. sjútvrh. að gefa yfirlýsingar um að fiskvinnslan geti ekki greitt hærri laun. Það er ekki fiskvinnslunni að kenna. Sökudólgurinn er ríkisstjórnin. Þessi stjórn hefur farið hamförum og lagt þvílíka skatta á þjóðina að með ólíkindum er. Þessu verður að linna. Ríkisstjórnin verður að aflétta sköttum af atvinnuvegunum og þá geta þeir greitt fólkinu í landinu hærri laun. Ráðstöfunartekjur munu hækka því að ef fólkið hefur ekki tekjur til að lifa sómasamlegu lífi lifir ekki ríkið.
    Það er hörmulega farið með gamalt fólk, einhleypa og fólk sem sinnt hefur ráðdeild í gegnum árin með álagningu eignarskatta. Hver ber ábyrgð á þessu? Hver ber ábyrgð á vaxtaokrinu? Skyldi það vera hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson eða man hann e.t.v. ekki eftir því? Er hann búinn að gleyma því, steingleyma því að hafa setið í ríkisstjórn allan þann tíma sem mesta vaxtaokur hefur verið á Íslandi? Hvað segir Stefán Valgeirsson sérlegur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar um það? Maðurinn sem fann huldumennina í Borgaraflokknum og aðstoðaði stjórnarflokkana við að stela stjórnmálaflokki? Hvað segja fulltrúar láglaunafólksins, verkafólksins, svokallaðir verkalýðsleiðtogar um vaxtaokrið? Fádæma úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar er hrollvekja og hringavitleysa.
    Það er staðreynd að það að hækka eignarskatta verulega mun til lengri tíma litið hækka ávöxtunarkröfur verðbréfa og auka vaxtaokrið sem var nóg fyrir. Vita menn hversu óvísindalega vaxtaákvarðanir á verðbréfamarkaði eru teknar? Þar ræður ekki framboð og eftirspurn. Það eru menn á bak við þung skrifborð sem ákveða vextina með spámennsku. Það er ekki fólkið á götunni. Ef hér væri frjáls verðbréfamarkaður kæmi fólkið á götunni og

byði í bréfin. Verðbréfamarkaðurinn er miðstýrður og vaxtaokrið heimatilbúið án nokkurra afskipta ríkisstjórnarinnar. Það verður að koma raunávöxtun í 4% sem er skikkanleg tala og það verður að létta af eignarsköttum. Þetta er lífsspursmál. Ríkisstjórnin verður að styðja við bakið á samningsaðilum og vinnumarkaði þannig að samningar geti náðst til lengri tíma eða a.m.k. til tveggja ára.
    Ég vil vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. sagði hér í umræðunni áðan að nú væri lokið fyrsta kafla í starfi ríkisstjórnarinnar með ótrúlega góðum árangri. Hver er þessi árangur? Í Þjóðviljanum í dag stendur: ,,Halldór hellir olíu á eldinn. Sjávarútvegsráðherra segir fiskvinnsluna ekki þola kauphækkun. BSRB-samningarnir og samningar ASÍ í fyrra allt of háir. Ásmundur Stefánsson: Átök ef ekki semst næstu daga. Björn Grétar Sveinsson: Furðuleg yfirlýsing og röng. Ólafur Ragnar Grímsson: BSRB-samningarnir samþykktir einróma í ríkisstjórninni.`` Þetta er staðan á stjórnarheimilinu. Svo segir hæstv. fjmrh. að það sé ótrúlegur árangur. Þetta er ótrúlegt árangursleysi og það er staðfest í viðtali við forstjóra stærsta atvinnufyrirtækis á Íslandi í dag, forstjóra SÍS, Guðjón B. Ólafsson, að atvinnuvegirnir eru algerlega í lamasessi. Í Morgunblaðinu í dag segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Ég get ekki fullyrt að það fyrirfinnist ekki einn einasti maður sem hefði ráðið við þær kringumstæður sem hér hafa ríkt og þá ekki síst í efnahagsumhverfinu sl. þrjú ár eða svo, enda sjáið þið fyrir ykkur að það er nánast búið að þurrka upp eigið fé úr fiskiðnaðinum á tveimur til þremur árum. Sama má segja um verslunina og ég þekki enga atvinnugrein á Íslandi sem er í lagi.`` Þetta er áfellisdómur forstjóra stærsta atvinnufyrirtækis á Íslandi yfir þeim stjórnmálamönnum sem sitja við völd. Þetta er áfellisdómur sem verður ekki gengið fram hjá.
    Hæstv. forseti. Afleiðingar stjórnleysis ríkisstjórnarinnar eru á öllum sviðum. Það líður senn að því að það verður kosið því að þessi ríkisstjórn mun ekki lafa nema til haustsins.
    Góðir áheyrendur. Guð gefi ykkur gleðilegt sumar. Þingmenn frjálslynda og hægri flokksins bjóða ykkur góða nótt. Hafið þökk fyrir áheyrnina.