Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna undangenginna athugasemda skal þetta tekið fram:
    Um þennan fund hafði verið samið við formenn allra þingflokka. Eins og menn rekur minni til hafði þessi umræða átt að fara fram daginn áður. Það reyndist ekki unnt vegna athugasemda tveggja þingmanna og um það var samið að þessari umræðu lyki þess vegna á einum degi í staðinn fyrir á tveimur dögum. Forseti hefur óumdeilanlegan rétt til, ef fundir dragast úr hófi fram, að takmarka ræðutíma. Um það held ég að enginn geti deilt. Það segir í 38. gr. laga um þingsköp: ,,Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.``
    Klukkan var að ganga fjögur um nóttina þegar forseti greip til þessa ráðs. Þá voru hér í húsinu átta hv. þm. Allir höfðu þeir talað einu sinni og ljóst var að þeir gætu aðeins hugsanlega talað einu sinni til. Oftar en tvisvar hafa þeir ekki heimild til að tala.
    Forseti kvað upp þann úrskurð þegar klukkan var að halla í fjögur að menn takmörkuðu ræðutíma sinn við tvær mínútur. Því mótmælti enginn og því áleit forseti að þetta væri ákveðið með samþykki hv. þm. Forseta var jafnljóst að séu ákveðin fundarlok ber að bera það undir atkvæði. Atkvæðamagn reyndist ekki nóg þar sem átta manns voru í húsinu. Forseti leit því svo á þegar enginn mótmælti því heldur að fundarlok væru ákveðin að hv. þm. sættu sig við þennan úrskurð.
    Ég harma ef hér hafa verið brotin fundarsköp á hv. þm. Ég skal láta athuga hvort svo er. En um fyrri athugasemdina eru engin áhöld. Þar hafði forseti alla heimild. Það kann vel að vera að leita þurfi atkvæða, en þá skulu hv. þm. vita að til þess þurfa þeir að vera í húsinu. Um það var ekki að ræða.
    Um ræðulengd hv. 2. þm. Austurl. hef ég ekkert að segja. Hún var að sjálfsögðu brot á samkomulagi við þingflokkana um lengd ræðutíma.
    Ég mun hins vegar fela starfsmönnum Alþingis að kanna hvort brotið hafi verið á þessum átta þingmönnum. Hafi svo verið er forseti vitaskuld fús til að biðjast afsökunar á því og mun það gert ef svo reynist.