Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir ummæli þeirra tveggja þingmanna sem báru fram kvartanir um úrskurðinn aðfaranótt miðvikudagsins. Það er alveg ljóst að þar voru þingsköp brotin og það þurfti ekkert að gera það jafnvel þó að umræður ættu ekki að standa nema í nokkrar mínútur í viðbót. Ég hafði tjáð hæstv. forseta að ég væri knúinn til að bera fram ósk til hæstv. utanrrh. um að hann aðstoðaði mig um að fá upplýsingar varðandi viðræður í Ráðstjórnarríkjunum, í Moskvu um fiskveiðiheimildir innan íslenskrar efnahagslögsögu. Fyrir kl. 7 á þriðjudaginn þegar umræðan stóð hafði ég óskað þess við forseta að hæstv. fjmrh. kæmi í þingið og gerði grein fyrir þeim viðræðum sem hann hefði átt í Moskvu um viðskiptamál og og fiskveiðiréttindi. Það var leitað að honum fram til klukkan að ganga fjögur, að ég hygg, hann var víst, ég efa það ekki, við áríðandi skyldustörf einhvers staðar og fannst ekki. Ég hafði borið fram ósköp einfaldar spurningar sem ég bað forseta að koma á framfæri. Annars vegar um hvort það væri rétt að þessi mál hefði borið á góma í þessum viðræðum í Moskvu og hins vegar hverju hann hefði þá til svarað, hæstv. ráðherra. Einfaldara gat málið ekki verið. Þessu beindi ég sem sagt til hæstv. utanrrh. þarna klukkan að ganga fjögur, hvort hann mundi geta komið þessum óskum á framfæri og jafnframt því að utanrmn., sem lögum samkvæmt á að bera öll utanríkismál undir, fengi greinargerð þá, sem hæstv. fjmrh. hefði afhent ríkisstjórninni, í hendur og við fengjum sem bráðast þá greinargerð. Ég skildi það svo að hæstv. utanrrh. mundi koma þessu á framfæri við hæstv. fjmrh. og átti þess vegna von á að við fengjum þessa greinargerð í gær. Það varð ekki, en vonandi kemur hún í dag.
    En ég endurtek: Þarna var rangur úrskurður upp kveðinn og algjörlega að tilefnislausu því allir þeir þrír sem á mælendaskrá voru höfðu lofað að tala örstutt.