Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Ég tel það stórhættulegt lýðræðinu og nauðsynlegum skoðanaskiptum ef ræðutími er takmarkaður á þann hátt sem hér var gert. Ég vildi líka gera þá athugasemd að ég kannast ekki við að það hafi einungis verið vegna athugasemda aðeins tveggja þingmanna sem samkomulag var gert um að kvöldfundurinn yrði á þriðjudagskvöldið í stað mánudagskvöldsins eins og upphaflega var að stefnt. Sjálf var ég viðstödd og gerði athugasemd við þetta líka eftir að hafa haft samráð við hv. 12. þm. Reykv. sem er fulltrúi Kvennalistans í utanrmn. og var hún mér sammála um að skynsamlegra væri að byrja hina almennu umræðu á þriðjudagseftirmiðdaginn í stað þess að byrja þessar umræður að kvöldlagi. Ég kannast heldur ekki við að samið hafi verið um lengd ræðutíma hvers og eins. Hins vegar var um það rætt og að því stefnt að ljúka umræðum um utanríkismálaskýrsluna áður en næsti þingfundur hefðist og það var þó ekki fyrr en eftir hádegi næsta dag.