Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki gefið nein fyrirmæli um að hafa einhverja sérmeðferð á málum ríkisstjórnarinnar. Hér var reyndar um skýrslu að ræða en ekki lagafrv. þannig að það er kannski enn þá minni ástæða til þess að hafa svo mikið við að hafa langa þingskapaumræðu.
    Ég var ekki einn af þessum átta sem voru í húsinu þegar sá atburður varð sem menn eru að ræða hér um og veit ekki nákvæmlega hvernig orð féllu og ætla mér ekki að blanda mér í það. Ég hygg hins vegar að það hafi verið álitamál hvort forseti hefur kveðið upp réttan úrskurð. Forseti hefur nú þegar lýst yfir að hún muni láta athuga hvort farið hafi verið að þingsköpum. Reynist svo vera að niðurstaða athugunar verði slík að forseti hafi ekki farið rétt að hefur úrskurður forseta ekki fordæmisgildi og það er meginmálið. Forseta ber á hverjum tíma að kappkosta að fylgja nákvæmlega þingsköpum og um það held ég að ekki sé neinn ágreiningur og við séum öll sammála um það.
    Út af orðum hv. 1. þm. Suðurl. minnist ég atburða frá þinginu 1977--1978 þar sem a.m.k. sumum sjálfstæðismönnum þótti tími til kominn að athuga hvort ekki væri rétt að beita takmörkun á ræðutíma. Ég held að málfrelsi sé afar mikilvægt og við eigum að standa vörð um það á Alþingi. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að umræður fari skipulega fram og með öguðum hætti.