Hornafjarðarós
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Austurl. spyr: ,,Hvaða athuganir hafa farið fram að undanförnu á breyttum aðstæðum við Hornafjarðarós og hvaða aðgerðir telja hafnamálayfirvöld að helst komi til greina til að tryggja innsiglingu til Hafnar í Hornafirði?``
    Aðstæður við Hornafjarðarós eru breytilegar, en fylgja þó í aðalatriðum árstíðabundnum sveiflum. Þessar sveiflur geta orðið misstórar og fer það eftir árferði hverju sinni. Síðast sköpuðust svipaðar aðstæður og í vetur fyrir um tíu árum og reyndar þurfti í það skipti að fjarlægja haft sem myndast hafði. Í framhaldi af þessum breytingum á ósnum á árinu 1979 voru gerðar ítarlegar dýptarmælingar og botnrannsóknir á Suðurfjörutanga. Sjávarhæðarmæling var gerð í höfninni í rúmt ár og eins var mæld sjávarhæð út við ósinn auk annarra athugana, svo sem tímabundinna öldumælinga suðaustur af Hvanney.
    Lagðar voru fram tillögur til úrbóta til að tryggja innsiglinguna. Jafnframt varð ljóst að fylgjast þyrfti með ósnum til að skilja eðli breyttra aðstæðna. Allt frá þeim tíma, þ.e. frá 1979, hefur verið náið samstarf milli hafnsögumanna og starfsmanna Hafnamálastofnunar og hafa hafnsögumenn annast eftirlit með ósnum en starfsmenn Hafnamálastofnunar kanna ósinn öðru hverju.
    Aðstæður voru kannaðar af starfsmönnum hafnarinnar og Hafnamálastofnun 22. og 23. febr. sl. og fundur haldinn með hafnarnefnd þann 22. febr. Í framhaldi af þessari ferð var gerð bráðabirgðasamantekt á gögnum um endurbætur á ósnum.
    Fram undir þetta hefur ekki verið að fullu ljóst hversu breytingar á ósnum eru háðar veðurfari. Þeir umhleypingar sem hófust í byrjun desember eru hinir mestu um áratugi, meiri en umhleypingarnir um áramótin 1978/1979 þegar svipaðar aðstæður við ósinn mynduðust.
    Sunnanbrim við ósinn veldur röskun á náttúrlegu jafnvægi á fíngerðri möl á Austur- og Suðurfjörutanga. Til viðbótar getur komið að slíkri veðráttu fylgi lítið vatnsrennsli af jöklum vegna frosta og fárra sólskinsstunda.
    Við venjulegar aðstæður er mölin í svonefndum Austurfjörutanga á hringrás. Á vetrum hleður aldan efninu upp á tangann og kastar efni inn í rennuna og lengir tangann út í ósinn. Á útfallinu á stórstreymi berst hluti af efninu frá tanganum yfir óseyrina fremst á Austurfjörutanga.
    Á sumrin er Austurfjörutanginn stystur yfirleitt í júlí og ágúst eftir hlaupin í Hornafjarðarfljótum. Um áramót er tanginn oftast lengstur. Austurfjörutanginn getur lengst um allt að 200 metra á vetrum. En í umhleypingum eins og þeim sem hér hefur verið gerð grein fyrir getur þessi hringrás raskast og þegar engin hlaup í Hornafjarðarfljótum hjálpa útfallinu verður veruleg röskun á þessari hringrás.
    Til viðbótar þessu er rétt að nefna að á

undanförnum árum hafa skip og sérstaklega flutningaskip sem fara um ósinn verið að stækka og mörg þau skip sem nú sigla á ströndina eru um 90--100 metra löng. Þessi aukna lengd skipa gerir enn þá meiri kröfur til innsiglingar til hafna og þá sérstaklega til Hafnar í Hornafirði. Að vísu fara flutningaskip eingöngu um ósinn á liggjandanum og ekki ef veðurhæð fer yfir 5 vindstig.
    Þær aðgerðir sem Hafnamálastofnun telur að helst komi til greina til að tryggja innsiglinguna til Hafnar eru eftirfarandi:
    Frumskilyrði til að tryggja öryggi innsiglingarinnar eru leiðarmerki. Á sl. ári var hafist handa við að endurbæta leiðarmerki inn ósinn að Höfn og verður lokið við þessar úrbætur í sumar að mestu leyti. Eftir verður að koma fyrir rafstreng úr hellu út á Austurfjörutanga sem mun leysa af hólmi bráðabirgðarafstöð sem komið var fyrir í sl. mánuði. Þrátt fyrir bætt leiðarmerki geta óhöpp átt sér stað og skip strandað. Áríðandi er að njörva skip niður strax á strandstað til að koma í veg fyrir að þau festist enn frekar. Í þessum mánuði er verið að koma fyrir festingum á Suðurfjöru- og Austurfjörutanga.
    Á sl. hausti var hafist handa við að dýptarmæla innsiglinguna að Höfn, en ekki tókst að ljúka þeirri mælingu vegna veðurs. Lokið verður við mælinguna í sumar. Á grundvelli þeirrar mælingar verður gerð tillaga um innsiglingarrennu þar sem miðað verður við 6 m dýpi. Til að ná því dýpi þarf grafskip væntanlega að dýpka móhellu, einkum við Helli. Annars staðar getur dæluprammi fjarlægt efni.
    Þá er talið nauðsynlegt að styrkja hátangann á Austurfjörutanga og Suðurfjörutanga, en ekki hefur orðið úr þeim framkvæmdum fram að þessu. Til athugunar eru hugmyndir um að framkvæma þá styrkingu með sekkjum sem fylltir væru af möl. Þá hafa á síðustu mánuðum komið fram hugmyndir um að byggja leiðigarð út eftir Austurfjörutanga og þaðan út á Óseyri. Markmið með slíkum leiðigarði yrði að koma í veg fyrir að efni kastaðist inn í ósinn og þar með að aðstæður eins og komið hafa í vetur endurtaki sig. E.t.v. þarf enn fremur að gera leiðigarð þvert á Austurfjörutanga til að hefta að möl berist að austan fram á tangann. Þetta eru allt saman vandasöm verkefni og verður að fara að þeim með fyllstu gát.
    Í tillögum Hafnamálastofnunar er síðan gert ráð fyrir því að lagt verði af
stað með því að gera e.t.v. 50 m háan tilraunagarð framan við hátangann. Styrking Austur- og Suðurfjörutanga er langtímaverkefni sem verður að vinna að í áföngum. Því miður er það svo að straumfræðilíkön og jafnvel öflugustu tölvulíkön ráða tæplega enn við þær flóknu aðstæður sem eru við Óseyrina og gerir það að verkum að fara verður enn varlegar í sakirnar en ella þar sem ekki er unnt að gera fullnægjandi líkantilraunir og útreikninga vegna síbreytilegra aðstæðna. Enn fremur er í tillögum Hafnamálastofnunar lagt til að lóðsbáturinn verði endurnýjaður og fenginn í stað þess sem nú er miklu öflugri og betur búinn bátur sem getur þá sinnt

ýmsum verkefnum sem þessu máli tengjast.
    Eins og að framan greinir er hér um flókið og vandasamt verkefni að ræða til úrlausnar. Þegar liggja fyrir frumhugmyndir um hvernig unnt er að tryggja siglingu um ósinn. Lausnin byggir á að hrundið verði í framkvæmd nokkrum mismunandi verkþáttum. Hvern verkþátt þarf að undirbúa vel þannig að aðgerðirnar í heild sinni gagnist. Að líkindum verður farsælast að flýta sér ekki um of heldur vinna verkið í áföngum, segir í þessu ágæta svari frá Hafnamálastofnun.