Skyldleiki íslenskra laxastofna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Forseti. Ég hef á þskj. 810 varpað fram fsp. til hæstv. landbrh. um skyldleika íslenskra laxastofna. Fyrirspurnin er í þremur liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:
,,1. Hefur landbrn. eða Veiðimálastofnun látið fara fram eða ráðgert vísindalegar rannsóknir á erfðafræðilegum mismun laxastofna í íslenskum ám?
    2. Telja sérfræðingar landrbn. og Veiðimálastofnunar að erfðafræðilegur munur sé á íslenskum eldislaxi og íslenskum villtum laxastofnum?
    3. Hvernig verður fylgst með hvort breytingar verða á erfðasamsetningu laxa í ám sem eldislax gengur í?``
    Tilefni þessarar fsp. eru fyrst og fremst miklar umræður sem orðið hafa í þjóðfélaginu vegna erfðablöndunar í ám sem eldislax hefur gengið í, ekki bara umræðna heldur hefur Veiðimálastofnun gefið út skýrslu þar sem sérfræðingar stofnunarinnar lýsa ótta sínum vegna þess að eldislax hefur sloppið úr kvíum og gengið upp í ár og eru sérstaklega tilnefndar Elliðaárnar í Reykjavík. Það er eðlilegt að náttúruverndarmenn, stangveiðimenn og líklega Íslendingar allir beri nokkurn kvíðboga í brjósti ef um er að ræða erfðablöndun sem kynni að skaða stofnana. Grunnurinn að baki þessu er líklega sá að menn telja að íslenskir laxastofnar hafi í þúsund ár eða lengur aðlagað sig aðstæðum í ákveðnum ám, ákveðnir stofnar hafi myndast og því kunni blöndun við eldislax að skaða það úrval sem náttúran hefur framkvæmt í öll þessi ár. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir og þessar skoðanir eru ekki studdar rannsóknum eða athugunum. Lítillega er þó vísað til reynslu erlendis frá.
    Ég hygg að það sé alveg nauðsynlegt að þetta mál sé tekið nokkuð föstum tökum. Frá sjónarhóli eldismanna er ekki munur í sjálfu sér á eldislaxi og villtum laxi. Sá eldislax sem verið er að ala í íslenskum fiskeldisstöðvum er í flestum tilvikum úr hrognum villtra fiska og ber þess vegna sömu erfðaeinkenni, en jafnframt eru reglur sem settar hafa verið um flutning á villtum laxi á milli svæða mjög strangar þannig að menn væru þá að mati sumra eingöngu að tala um blöndun villtra laxastofna.
    Ég heyri á bjöllu forseta að tími minn er útrunninn, en ekki er 3. liður fsp. minnst virði um það hvernig landbrn. hyggst fylgjast með þessu máli í framtíðinni.