Fiskeldisfyrirtæki
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir fsp. sem ég hef flutt ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal og er texti hennar á þessa leið:
,,1. Hversu mörg fiskeldisfyrirtæki eru starfandi í landinu?
    2. Njóta þau öll viðskipta í bönkum að því er varðar afurða- og rekstrarlán?
    3. Ef svo er ekki, hvernig hyggst ríkisstjórnin leysa rekstrarvanda þeirra fiskeldisfyrirtækja sem ekki njóta slíkra viðskipta?``
    Ég má kannski minna á til frekari skýringar, virðulegur forseti, að um síðustu áramót fóru fram umræður á Alþingi um svokallaðan Tryggingasjóð fiskeldislána og var lögð á það þá mikil áhersla að frv. um hann yrði afgreitt með sem skjótustum hætti á þeim fáu dögum sem hér var viðhaft þinghald eftir áramótin og því þá við brugðið að ekki mætti dragast með nokkrum hætti að koma þeim málum í það horf að öllum efasemdum að því er varðar afurða- og rekstrarlán til fiskeldisfyrirtækja yrði eytt. Í þeirri umræðu benti ég sérstaklega á að þó nokkur fiskeldisfyrirtæki höfðu ekki fengið nein rekstrarlán né afurðalán og að ákvæði laganna um Tryggingasjóð fiskeldislána næðu því ekki til þeirra.
    Nú skal ég taka skýrt fram að um þetta voru ekki gefin nein skýr loforð af hendi hæstv. landbrn., en ég held að mér sé óhætt að segja að fyrirheit um úrbætur í þessum efnum hafi menn ætlast til að næðu fram að ganga. Megintilgangur fyrirspurnarinnar er að leita eftir hvernig til hefur tekist.