Fiskeldisfyrirtæki
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er fróðlegt að heyra að nú skuli hafa verið skipuð nefnd til að endurskoða afurðalánakerfið í heild sinni og væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra vildi upplýsa þingheim nánar um hvað þar sé um að ræða, hvort þar sé verið að tala um afurðalán eingöngu vegna fiskeldislána, afurðalán vegna loðdýra, rekstrarlán til bænda o.s.frv. Þarna eru alls staðar uppi vandamál, ekki síst hjá bændum í sambandi við sláturleyfishafa og hversu ótrygg þau viðskipti hafa verið sem við þá eru.
    Ástæðan fyrir því að ég stóð upp er líka sú að ég legg áherslu á að ég tel eðlilegt að afurðalánin fyrsta árið eða svo falli inn í stofnlán í fiskeldisstöðvum svo sem er í Noregi og ég hygg að nauðsynlegt sé að sama regla verði upp tekin í sambandi við loðdýrabú á meðan þessar nýju útflutningsgreinar eru að fóta sig. Ég hygg að nauðsynlegt sé með öðrum orðum að endurskoða frá grunni það fjárhagslega umhverfi sem útflutningsgreinarnar búa við, bæði þær veikburða, bæði þær greinar þar sem við erum að reyna að fóta okkur og læra að stíga fyrstu skrefin og raunar líka hinar útflutningsgreinarnar, þær gömlu og hefðbundnu, sjávarútvegsgreinarnar, fiskvinnsla og útgerð. Var t.d. fróðlegt að lesa það í Morgunblaðinu fyrir tveim dögum að hæstv. sjútvrh. var með einhverjar undarlegar hótanir í garð útgerðarmanna ef útgerðarmenn hugsuðu sér að reka sínar útgerðir eins vel og þeir gætu frá fjárhagslegu sjónarmiði og reyndu að skila arði og raunar skaði, hæstv. forseti, að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera hér inni, en eflaust gefst tækifæri til þess í næstu viku þegar fundur verður í Sþ. að ræða við hann sérstaklega um sjávarútvegsmálin eftir að fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hefur nú lokið.
    Ég ítreka fsp. mína til hæstv. landbrh. í hverju endurskoðun á afurðalánakerfinu er fólgin og bið hann í leiðinni að tala um rekstrarlán einnig þar sem það á við.