Úttekt á byggingum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Svar þetta byggist á bréfi Almannavarna ríkisins sem er svohljóðandi:
    ,,Síðari tíma rannsóknir á jarðfræði Íslands sýna að það situr á heitum reiti á einu af gliðnunarbeltum jarðskorpufleka jarðarinnar. Ljóst er einnig að umrætt gliðnunarbelti hliðrast í þverbrotabeltum sem liggja annars vegar um Suðurlandsundirlendið og hins vegar úti fyrir og inn á Norðurland. Staðfestir jarðskjálftasaga landsins þessar rannsóknir svo og upptök mældra smáskjálfta á undanförnum áratug, en þeir raðast greinilega á ofangreind þverbrotabelti.
    Þegar jarðvísindamenn vöktu athygli almannavarnaráðs á jarðskjálftasögu Suðurlands árið 1976 skipaði það vinnuhóp til að gera úttekt á þessari hættu og tillögur um viðbúnað og varnir. Í ágúst 1978 skilaði vinnuhópurinn skýrslu til ráðsins þar sem fram kemur að búast verði við mjög öflugum jarðskjálftum á Suðurlandi og því sé m.a. nauðsynlegt að fram fari úttekt á mannvirkjum á svæðinu með tilliti til jarðskjálftaþols þeirra. Er sérstaklega lagt til að úttekt fari fram á jarðskjálftaþoli:
    1. Orkuvera, raflína, tengivirkja og annarra mannvirkja tengdum raforkubúskapnum.
    2. Vega, brúa, ræsa og annarra samgöngumannvirkja.
    3. Símstöðva og símleiðara, bæði á línum og þráðlausum.
    4. Sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, dvalarheimila, skóla og samkomuhúsa þar sem fjölmenni er safnað til dvalar, starfs og/eða leiks.
    5. Veitukerfa, atvinnuhúsnæðis og íbúðarhúsnæðis.
    Í kjölfar þessara tillagna lagði almannavarnaráð fram að beiðni dómsmrh. áætlun um þessar úttektir og frekari rannsóknir vegna jarðskjálftahættunnar. Voru þessar áætlanir síðan lagðar fyrir Alþingi í fjárlagatillögum ráðuneytisns sem fjárveitingar til Almannavarna ríkisins, en fjárveitingum til verksins var hafnað í meðförum þingsins.
    Frá því að tillögur almannavarnaráðs komu fram hafa einstakar stofnanir sem hagsmuna hafa að gæta látið fara fram úttekt á einstökum mannvirkjum og búnaði innan jarðskjálftasvæðanna sem þeim tilheyra. Þannig hefur Landsvirkjun látið gera könnun á jarðskjálftaþoli bygginga, háspennumannvirkja og búnaði virkjana sinna. Vegagerð ríkisins hefur látið gera úttekt á brúarmannvirkjum og Selfossbær hefur látið skoða jarðskjálftaþol bygginga í sinni eigu án þess að ítarleg rannsókn hafi farið fram á þeim. Landsvirkjun hefur í kjölfar úttektarinnar látið styrkja þá hluta af sínu kerfi sem úttektin sýndi þörf á. Einnig hefur Vegagerðin tekið sérstakt tillit til jarðskjálfahættu við hönnun þeirra brúa sem byggðar hafa verið eftir að þessi þekking á jarðskjálftahættuni kom fram.
    Almannavarnir ríkisins hafa ítrekað reynt að fá fjárveitingar til úttektar á húsum innan jarðskjálftasvæða landsins með Suðurlandsundirlendið sem forgangsverkefni. Hafa verið gerðar kostnaðaráætlanir af hálfu verkfræðistofu Háskólans og

fimm ára könnunaráætlun sem fjárveitingatillögur Almannavarna ríkisins hafa tekið mið af. Mjög brýnt er að áliti Almannavarna að könnun á jarðskjálftaþoli húsa beinist fyrst að þeim húsum þar sem hið opinbera tekur ábyrgð á þeim sem í þeim dvelja, svo sem skólum þar sem börn og unglingar eru við störf að skyldu og sjúkrahúsum þar sem veikir eru vistaðir.
    Hvað varðar einkahúsnæði er frekar talið rétt að könnunin miðist við að gera heildarúttekt á styrkleika þeirra mismunandi húsgerða sem eru ríkjandi sem atvinnu- og íbúðarhúsnæði svo gera megi sér grein fyrir öryggi þeirra sem byggja svæðin, svo og umfangi þeirra skemmda sem búast megi við út frá þeim forsendum sem jarðskjálftahættan gefur.``
    Ég vil aðeins til viðbótar þessu svari Almannavarna ríkisins taka það fram að dómsmrn. hefur átt í viðræðum við Almannavarnir ríkisins um þetta mál og jafnframt hef ég átt nokkur samtöl við forsvarsmenn á verkfræðistofu Háskóla Íslands. Það er áfram unnið að því að halda þessu verki áfram og mun það m.a. koma fram í beiðnum um fjárveitingar á nk. hausti, en mikilvægt er að tryggja sem best samstarf allra aðila sem að þessu máli koma, en eins og hv. fyrirspyrjandi tók hér fram er það af skiljanlegum ástæðum mjög viðkvæmt mál.