Úttekt á byggingum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi fsp. hafi komið fram því að hér er hreyft mjög mikilvægu máli. Nú er það svo að ég hef persónulega tengst þeim athugunum sem hæstv. dómsmrh. gat um í svari sínu. M.a. stóð ég fyrir þeirri úttekt sem var gerð á mannvirkjum Landsvirkjunar á Suðurlandssvæðinu með tilliti til jarðskjálftaáhættu vegna hugsanlegs landskjálfta á Suðurlandi.
    Þessi mál hafa þróast í mjög jákvæðum farvegi sl. 20 ár eða svo en það var þó kannski með Kópaskersjarðskjálftanum 1976 að það urðu þáttaskil í þeim rannsóknum sem hafa farið fram á þessu sviði hér á landi. Eftir Kópaskersjarðskjálftann varð mönnum ljósari þessi hætta og það má segja að það hafi mjög lyft undir frekari athuganir og rannsóknir á þessu sviði. Á vegum Verkfræðistofnunar Háskólans hefur verið þróuð aðferðafræði til að gera slíkar úttektir sem hér er verið að tala um. Það vantaði nú reyndar inn í svar hæstv. ráðherra að það hefur farið fram úttekt á slíkum opinberum byggingum á Laugarvatni, en þá úttekt, sem sagt var frá að hefði farið fram á opinberum byggingum á vegum Selfossbæjar, annaðist ég reyndar einnig. Hún var raunverulega ekki annað en forkönnun og þyrfti því, eins og reyndar kom fram í svari hæstv. ráðherra, að rannsaka þau mál betur. Af því að ég sé að hér er hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson kominn í salinn, þá langar mig til að rifja það upp að fyrir 22 árum heimsótti ég fæðingarbæ hans að Brúnastöðum sem hafði orðið fyrir umtalsverðu tjóni í jarðskjálfta sem þá varð og átti upptök sín á svæðinu hérna megin Þjórsár. Þetta er líklega stærsti jarðskjálfti sem hefur orðið á Suðurlandsundirlendinu síðan 1912.
    En ég ítreka það að ég fagna því að þessi fsp. er komin fram og vil eindregið hvetja til þess að úttekt í þá veru sem lagt er til fari fram.