Happdrætti
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Forseti. Ég hef lagt fram á þskj. 651 fsp. til hæstv. dómsmrh. um lög um happdrætti. Fyrirspurnin hljóðar svo:
    ,,Hvað líður endurskoðun laga um happdrætti?``
    Eins og flestum er kunnugt hafa umsvif happdrætta aukist mjög á síðustu árum og er álitið að velta á síðasta ári kunni að hafa verið 4--5 milljarðar kr. í happdrætti. Happdrætti þessi eru með ákaflega mismunandi hætti og ýmis lög sem um þau gilda, en þau eru orðin mjög mikilvæg tekjulind fyrir ýmis líknarfélög, íþróttafélög og fjölmörg önnur félagsamtök. Raunar má segja að þessi happdrættismarkaður sé að verða æði skrautlegur og er kannski ekki mikið við því að segja.
    Það er þó svo að ég hef spurnir af því að í dómsmrn. valdi það mönnum nokkurri umhugsun og jafnframt hef ég spurnir af því að félagasamtök eða samtök sem vilja afla sér tekna með happdrætti fái ekki til þess heimild vegna þess að endurskoðun standi yfir á lögum um happdrætti. Þar er um að ræða jafnvel félagasamtök sem mér sýnist að ættu með tilliti til alls rétt á því að efna til happdrætta.
    Því er þessari fsp. varpað fram að ég heyri það frá dómsmrn. að það telji í slíkum tilvikum ekki unnt að veita leyfi til happdrætta fyrr en endurskoðun laganna hafi farið fram. Þess vegna er ofarlega í huga margra: Hvað líður þessari endurskoðun? Hvenær má vænta þess að henni ljúki?