Sameiginlegt forræði barna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):
    Hæstv. forseti. Allir hafa sennilega veitt því athygli að umræður um forræði barna hafa verið meiri nú á sl. árum en áður. Sjálfsagt kemur þarna til vaxandi hjónaskilnaðir eða sambúðarslit. Einnig það að jafnréttishugsunin hefur einnig náð til þess að báðir foreldrar finna meira til ábyrgðar gagnvart börnum sínum en áður. Um það leyti sem ég var upp á mitt besta leit fólk yfirleitt þannig á að sjálfgefið væri, ef skilnaður varð á milli hjóna, að þá sæti konan uppi með börnin. Þetta var algengasta sjónarmiðið.
    Þegar svo illa fer að forræði barna eða umráðaréttur yfir börnum fer fyrir dóm, þá fer náttúrlega oftast nær annað hvort foreldra mjög sært frá. Þetta er nú svo að það verður erfitt að forða sársauka og verstur lendir hann náttúrlega á þeim sem enga sök ber, þ.e. á barninu sjálfu eða börnunum sjálfum.
    Þegar umboðsmaður Alþingis hóf störf var held ég áreiðanlega fyrsta málið sem fyrir hann kom einmitt einhvers konar kæra út af einu slíku máli. Ég kynntist því máli vel og það er eiginlega fyrir það sem þar á hlut að máli sem ég flyt þessa fsp. sem er mjög stutt og ég bið hæstv. dómsmrh. að svara svo vel sem auðið er. Og fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hyggst ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi í haust frv. um sameiginlegt forræði barna?``