Sameiginlegt forræði barna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig svarað þessari fsp. með einu orði, þ.e. já, en það er kannski rétt að taka það fram að á skrá sem send var forsrh. 1. nóv. 1988 var þess getið að frv. til breytinga á barnalögum væri meðal frv. sem gert væri ráð fyrir að dómsmrn. legði fram á yfirstandandi þingi og þá með nokkrum breytingum. Af þessu hefur því miður ekki orðið þar sem yfir stendur endurskoðun vegna breytinga og viðauka við það frv. sem lá fyrir þannig að ég svara þessu með þeim hætti að slíkt frv. verður lagt fram á komandi hausti að öllu óbreyttu og verður með líku sniði og frv. til breytinga á barnalögum sem lagt var fram árið 1987, en þó má vænta einhverra breytinga og viðbóta við það. Ég vil taka það fram að ég er alveg sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. fyrirspyrjanda.