Staða ríkissjóðs
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegur forseti. Ég tel mjög brýnt að löggjafarsamkundan fylgist mjög náið með þróun ríkissjóðs og rekstri hans og með hvaða hætti fjárlög á hverju ári standast þannig að það komi hv. alþm. ekkert á óvart þegar komið er fram á haust á fjárlagaárinu að það getur verið um umtalsverð frávik að ræða frá þeim áætlunum sem alþingismenn stóðu að því að samþykkja kannski hálfu ári fyrr. Nú minnist ég þess að hæstv. fjmrh. kom inn á þessi mál í ræðu sinni í gær, þ.e. undir eldhúsdagsumræðunum, en ég var nú kannski ekki með athyglina nógu vel í gangi þegar ég hlýddi á ræðu hæstv. fjmrh., enda hafði ég gert ráð fyrir því að fá frekar svör hans hér við fsp. minni sem ég flyt og hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hvernig hefur tekju- og útgjaldaáætlun samkvæmt fjárlögum staðist fyrstu þrjá mánuði ársins? Eru einhverjir tekju- eða útgjaldaliðir sem sýna mikil frávik? Stefnir í halla á ríkissjóði? Ef svo er, hversu mikinn?``
    Nú er það ljóst að hæstv. fjmrh. hefur verið umfram um að reyna að spara í ríkisrekstrinum, en jafnframt hafa verið gerðir samningar við opinbera starfsmenn sem kannski að einhverju leyti sprengja þann fjárlagaramma samkvæmt þeim forsendum sem voru gerðar í fjárlögum fyrir slíkum samningum.
    Þá hafa komið fréttir af því að það er verulegur samdráttur í bílainnflutningi og jafnvel að tekjur vegna áfengissölu verða minni en reiknað var með. Er það að vísu mjög jákvæð þróun en engu að síður þýðir það tekjutap fyrir ríkissjóð.
    Minnkandi kaupmáttur kann líka að verða þess valdandi að það verði almennur samdráttur, þ.e. að veltusamdráttur muni verða í þjóðfélaginu sem þýðir minnkandi söluskattstekjur fyrir ríkissjóð. En á þessu fáum við væntanlega nánari skýringar í svari hæstv. fjmrh.