Staða ríkissjóðs
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Þau fjárlög sem gilda fyrir árið í ár gera ráð fyrir að tekjuafgangur verði rúmar 600 millj. kr. fyrir árið í heild. Samkvæmt venju er síðan gerð áætlun frá einum mánuði til annars um tekjur og gjöld ríkisins. Eðlilega tekur sú áætlun mið af sveiflum innan ársins í tekjum og gjöldum og hún er þannig upp byggð að suma mánuði getur verið rekstrartap en á öðrum mánuðum rekstrarafgangur en árið í heild komi síðan út með þeirri niðurstöðu sem fjárlögin fela í sér.
    Samkvæmt þessari áætlun hefur verið gerð úttekt á því hver útkoman er fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins og hv. fyrirspyrjandi Júlíus Sólnes óskar eftir svörum um hvernig tekju- og útgjaldaáætlunin hafi staðist fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Svarið við þessari spurningu er að tekjurnar hafa farið 860 millj. kr. fram úr tekjuáætluninni. Það er út af fyrir sig ánægjuleg niðurstaða. Hér hafa verið í fjölmiðlum ýmsar fréttir af minnkandi tekjum vegna samdráttar í bílainnflutningi og af öðrum ástæðum. Engu að síður hefur orðið verulegur tekjuauki, sérstaklega vegna aukinnar innheimtu og betri skila í tekjuskatti og söluskatti og það eru fyrst og fremst betri heimtur af þessum tveimur sköttum, tekjuskatti og söluskatti, sem skýra það að tekjurnar eru umfram áætlun sem þessu nemur. Einnig er ýmislegt sem bendir til þess að hinn mikli samdráttur sem var á seinni hluta síðasta árs hafi vonandi runnið sitt skeið á enda og hagkerfið sé hægt og bítandi að færa sig upp á við á nýjan leik.
    Það er einnig ánægjulegt að áætlunin um útgjöldin hefur staðist allvel. Útgjöldin fara aðeins 58 millj. fram úr áætlun á þessum fyrstu þremur mánuðum þannig að heildarniðurstaðan er að afkoma ríkissjóðs þessa fyrstu þrjá mánuði er 802 millj. betri en áætlað var. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að ég vil ekki á þessu stigi byggja neinar ályktanir um heildarafkomu ríkissjóðs á þessu ári á þessum tölum, einfaldlega vegna þess að ég tel að reynsla fyrri ára sýni að það er ekki fyrr en fram er komið á mitt ár sem hægt er að draga af því einhverjar afdráttarlausar ályktanir hvert stefnir. En engu að síður eru það ánægjuleg tíðindi að þessar fyrstu tölur sýni þessa jákvæðu þróun.
    Samkvæmt þessu stefnir ekki í halla á ríkissjóði á þessu ári, a.m.k. enn sem komið er, þrátt fyrir það að ákvarðanir hafi verið teknar um einhverja útgjaldaaukningu síðar á árinu í tengslum við auknar niðurgreiðslur og aðra þætti.
    Ég fagna því að hv. þm. skuli hafa gert fyrirspurn um þetta atriði vegna þess að það hefur gefið mér tækifæri til þess að gefa þinginu skýrslu um þessa niðurstöðu. Ég tel það sjálfsagt og eðlilegt að þjóðþingið fylgist með þróun ríkisfjármálanna á árinu, enda reyndi ég eftir að ég tók við embætti, jafnvel mánaðarlega hér sl. haust, að gera hv. Alþingi grein fyrir því hver þróunin var þá. Sem betur fer sýna þessar tölur ábendingar í jákvæðari átt en þróunin var á síðustu mánuðum síðasta árs.