Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Að sjálfsögðu fagna ég því ef samkomulag er í sjónmáli um þessa bókun og ríkisvaldið og lögreglumenn geti komið sér að samkomulagi um það hvernig eigi að túlka þetta og að lögreglumenn megi sáttir una við kjarasamning þann sem gerður var.
    En það er eitt sem er svolítið mikill galli hjá okkur. Það er það að oft og tíðum kemur ríkisvaldið með bókanir eða semur um ákveðin atriði sem það ætlar síðan að framkvæma, en síðan kemur í ljós að það er óframkvæmanlegt eða þá að ekki er staðið við það. Það eru mikil leiðindi sem hafa fylgt þessu máli, sérstaklega að því leyti til að ríkisvaldið var mjög ósveigjanlegt í upphafi að ganga að þeim kröfum sem lögreglumenn gerðu og lögreglumenn þurftu að fara fyrir kjaradóm til að fá úr því skorið hvernig ætti að túlka þessa bókun. Þar var gert samkomulag við ríkið um það hvaða aðferð skyldi beitt og síðan var heldur ekki staðið við það samkomulag og svo nú loks í þeim kjarasamningum sem nú hafa gengið hefur ríkisvaldið reynt að semja. En ég fagna því að fjmrh. skuli nú komast að samkomulagi við lögreglumenn svo að þetta leiðindamál verði úr heiminum.