Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. á þskj. 812 hefur hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir lagt fyrir mig fsp. sem hún hefur nú gert grein fyrir og fsp. hljóðar svo:
    ,,Hvenær má vænta þess að lokið verði heildarendurskoðun laga um almannatryggingar?``
    Því er til að svara að í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar er kveðið á um það að endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni skuli vera lokið fyrir mitt þetta ár. Að því er stefnt og ég vonast til þess að á næsta þingi og það helst strax í haust, eða í byrjun þings, verði hægt að leggja fram hér á Alþingi frv. til l. um almannatryggingar.
    Nefndin sem er að vinna að endurskoðun almannatryggingalaganna hefur haldið fundi með 28 aðilum, félögum, félagasamtökum og eintaklingum sem með einum eða öðrum hætti tengjast almannatryggingalöggjöfinni. Tilgangurinn með þessum fundum hefur verið sá að leita álits þessara aðila á því hvað betur megi fara í almannatryggingalögunum og eins hvaða hugmyndir þessir aðilar hafa um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni. Á þessari stundu er enn of snemmt að segja til um það hvaða breytingar nefndin komi til með að leggja til að gerðar verði á þessari löggjöf og því get ég ekki nefnt eða tilgreint málsmeðferð á einstökum þáttum sem hv. fyrirspyrjandi nefndi hér í framsöguræðu sinni með fsp. En eins og þar kom fram eru fjölmörg atriði sem hafa komið fyrir bæði þetta þing og fyrri þing sem hefur verið vísað til þessarar endurskoðunar, og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að þar hafa verið mörg ágæt mál og nauðsynleg. En með þeim rökum að samræmis þurfi að gæta og eðlilegt sé að reyna að skoða málið í heild, þá hefur þessi málsmeðferð verið viðhöfð og oft í samkomulagi við flm. slíkra tillagna hér á þingi að vísa því á þessa heildarendurskoðun.
    Endurskoðun almannatryggingalaganna er mikið vandaverk því almannatryggingalöggjöfin er flókin, mjög viðkvæm og þarf því mikinn tíma til endurskoðunar, bæði af hálfu þessarar nefndar sem nú vinnur að verkinu og eins vafalaust í umfjöllun hér á þingi þegar þar að kemur. Formaður þessarar nefndar er aðstoðarmaður heilbrmrh., Finnur Ingólfsson, en með honum í nefndinni starfa Árni Gunnarsson alþm. og Guðmundur H. Garðarsson alþm., Helgi Seljan, fyrrv. alþm. og núv. starfsmaður Öryrkjabandalagsins, Helga Jónsdóttir, formaður tryggingaráðs, Kristján Guðjónsson, lögfræðingur og deildarstjóri í Tryggingastofnun og Sigurður Hermundarson, starfsmaður Ríkisendurskoðunar.
    Það hefur heyrst m.a. í umræðum hér á hv. þingi að lítið sé að gerast í þessari nefnd. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það sé ekki rétt. Nefnd þessi var skipuð um áramótin 1987--88 og hefur hagað sínum störfum þannig að nefndarstarfið hefur verið í nokkrum fundarlotum. Fyrsti fundur var haldinn örfáum dögum eftir að nefndin var skipuð, nánar tiltekið 5. jan. 1988 og eftir það voru haldnir 1--2 fundir í viku hverri frá því í janúarbyrjun og fram í

marslok 1988. Þeim fundum var þannig hagað að þá voru þessi viðtöl sem ég hef áður greint frá og upplýsingaöflun og stóðu þeir fundir stundum heila daga, en síðan var reynt að vinna úr því sem þar hafði komið fram. Vegna stjórnmálaástands og stjórnarskipta síðari hluta seinasta árs, þá lágu þessi nefndastörf nokkuð niðri en hófust síðan aftur núna eftir áramót og 17. jan. var haldinn fyrsti fundur og voru tveir fundir haldnir vikulega fram yfir miðjan marsmánuð.
    Því miður var það svo að hv. þm. tveir sem eiga sæti í þessari nefnd mættu illa til þeirra nefndarstarfa og kann að vera að upplýsingar hér inn í hv. þing um að lítið sé að gerast i nefndinni stafi einmitt af því. Á þessum fundum reyndi nefndin að ná saman um ákveðnar tillögur í framhaldi af upplýsingaöfluninni á seinasta ári og er nú verið að skrifa drög að nál. eða frv. Þau drög verða síðan lögð fyrir í næstu fundalotu sem hugsað er að hefja nú að loknu þinghaldi og vænti ég að þá gefist þingmönnum sem eiga sæti í nefndinni betri tími til nefndarstarfa og eins og áður segir stefni ég að því að geta lagt fram frv. að nýrri, endurskoðaðri heildarlöggjöf um almannatryggingar á næsta þingi eða næsta haust.