Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þeirra umræðna sem hér urðu í morgun um fundarsköp og vegna þeirrar gagnrýni sem fram kom á fundarstjórn forseta aðfaranótt fimmtudags, ef ég man rétt, hefur forseti óskað eftir því við skrifstofustjóra þingsins að hann gerði grein fyrir hver staða málsins er og skal hún nú lesin:
    Í 1. mgr. 38. gr. þingskapalaga segir svo:
    ,,Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.``
    Samkvæmt þessu ákvæði er það á valdi forseta að takmarka ræðutíma þingmanna þegar þeim skilyrðum er fullnægt sem þar greinir, þ.e. að umræður dragist úr hófi fram. Forseti metur hvenær þær aðstæður eru fyrir hendi.``
    Þar með tel ég að fyrra gagnrýnisatriðinu sé svarað og kemur þá að hinu síðara.
    Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. þingskapalaga getur forseti ,,stungið upp á,,, eins og þar segir, að umræðum sé hætt að liðnum ákveðnum tíma. Tillaga forseta skal umræðulaust borin undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum. Sé fundur ekki ályktunarbær þannig að tillagan verður ekki borin undir atkvæði kemur hún ekki frekar til álita.
    Ljóst er að skv. 2. mgr. er það fundarins að ákvarða um umræðulok. Úrskurðarvald um slíkt er ekki á hendi forseta, hvort sem athugasemdum er hreyft eða ekki. Forseti vill því biðja hv. þingheim afsökunar á að óumdeilanlega hafa mér orðið þarna á mistök. Athugasemdum var ekki hreyft, enda einungis átta hv. þm. viðstaddir, en samkvæmt þessu hefði það ekki dugað til og ég bið því hv. þm. velvirðingar á þessu.