Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Kannski má kalla það um þingsköp, erindi mitt hér í ræðustól. Fremur er það þó um þinghaldið.
    Nú er að hefjast hér nýr fundur í Sþ. þar sem eru 11 mál á dagskrá og sum æði viðamikil svo að ég tali nú ekki um þau mál sem órædd eru á þessu þingi en eru ekki á dagskrá þessa fundar. Að loknum fundi í Sþ. í dag, sem sjálfsagt enginn veit hvenær lýkur, er boðað til fundar í Nd. og þar eru 22 mál á dagskrá.
    Erindi mitt hingað er að spyrja hæstv. forseta --- kannski hefði verið réttara að spyrja hæstv. forsrh. ef hann hefði verið hér en ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti geti alveg eins svarað --- það er að spyrja um þinghaldið þá daga sem eftir lifa til þinglausna. Ég er hér með starfsáætlun Alþingis 1988--89 sem sumir hafa að vísu talið heldur marklítið plagg. Ég vil ekki gera það. Ég fagnaði því þegar þessi starfsáætlun var gefin út. Það var nýnæmi hér. Það er öllum ljóst að það hefur ekki verið hægt að halda við þessa áætlun að öllu leyti, en ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort það megi treysta því að þinglausnir verði laugardaginn 6. maí eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir. Ég hef kannski enga ástæðu til þess að efast um að svo verði, en það vekur óneitanlega athygli að til þessa hefur ríkisstjórnin ekki gefið út neinn forgangslista um mál sem hún telur nauðsynlegt að verði afgreidd fyrir þinglausnir. Það er mjög óvenjulegt og ég man satt að segja ekki eftir að það hafi gerst áður að þegar rétt vika er til þinglausna, þá hafi enginn listi komið frá hæstv. ríkisstjórn um þau mál sem hún telur óhjákvæmilegt að afgreiða fyrir þinglausnir.
    Nú kann svo að vera að ríkisstjórnin eigi sér engin sérstök áhugamál sem hún vill láta afgreiða fyrir þinglausnir. Ef svo er, þá hljóta þingmenn sem eiga mörg mál óafgreidd í nefndum að leggja áherslu á það að þeirra mál fái afgreiðslu í nefndunum þannig að þau komi þá til afgreiðslu í þingdeildum eða í Sþ. eftir atvikum.
    Næsta vika er þannig að hvorki eru fundir á mánudag né fimmtudag. Það eru deildafundir á þriðjudag og miðvikudag og gert ráð fyrir bæði deildafundum og Sþ. á föstudag og laugardag. Það er alveg ljóst að sá tími endist ekki til þess að afgreiða mörg mál og þaðan af síður stór.
    Þess vegna er það sem ég óska eftir að fá að vita hvort ætlunin er að framlengja um einhvern tíma eða sem sagt eins og ég spurði áðan, hvort ætlunin sé að halda við þessa áætlun þannig að þinglausnir verði laugardaginn 6. maí.