Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að það sé fyllilega tímabært að við förum að gera okkur grein fyrir og telja þær klukkustundir sem eftir eru fram að 6. maí ef við ætlum að ljúka þeim störfum sem okkur er ætlað.
    Ég vil reyndar taka það fram að ég tel til fyrirmyndar að gera starfsáætlun og reyna að halda við hana. En hún hefur breyst aðeins í vetur og ég velti mjög vöngum yfir því þessa dagana hvort það sé raunhæft að ætla að við ljúkum þessu hér á laugardaginn.
    Hér kom fram í máli forseta áðan að það á eftir að ræða skýrslu Byggðastofnunar sem reyndar er ekki komin hingað enn þá. Ég vil benda á að það eru fleiri skýrslur sem liggja hér óræddar og ég leyfi mér að nefna tvær. Önnur er enn þá í umræðu og umræða um hana hefur dregist á milli margra funda, þ.e. skýrsla um stöðu og rekstur fiskvinnslufyrirtækja sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og fleiri hv. þm. báðu um. Einnig liggur hér skýrsla um stöðu list- og verkmenntagreina og tónmenntar í grunnskólanum. Á þessum tveimur fundadögum sem við virðumst eiga eftir í Sþ. á því samkvæmt þessu að afgreiða bæði vegáætlun og hafnaáætlun og enn liggja ekki fyrir forgangsmál hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég vil bara lýsa því yfir hér að við kvennalistakonur teljum það með öllu óverjandi að fá ekki slíka lista og að samráð sé haft. Það eru óþolandi vinnubrögð fyrir okkur þingmenn alla að geta ekki haft eðlileg samráð innan þingflokkana þegar til afgreiðslu mála kemur, að ég tali ekki um utan þingflokkanna sem við þurfum auðvitað að hafa til þess að bera saman niðurstöður okkar við hugmyndir annarra þeirra sem eru í starfi með okkur. Það er mjög nauðsynlegt ef takast á að vanda vinnubrögð þannig að ekki verði svo mikið hraðað öllum málum hér að ýmsir gallar komi í ljós, eins og því miður hefur viljað brenna við, að starfið sé skipulagt og ég vil ítreka það að við lýsum okkur fúsar til þess að vera hér nokkrar vikur enn, gerist þess þörf, til þess að vinna málin eins og þörf er á.